Hvar á ég að byrja ...?

Ég er farin að skilja syni mína sem fallast hendur þegar við erum að spyrja þá hvort þeir ætli ekki að fara að blogga. Mér líður eins og ég gæti setið við tölvuna og skrifað alveg þangað til við förum heim og samt ekki náð að koma nema brotiaf því sem mig langar að skrifa um að. Á hverum degi kemur eitthvað nýtt upp sem gaman væri að fjalla um. Stundum eru það smáatriði en smáatriði geta sagt svo mikið um heildarmyndina. Ég skrapp út áðan og þegar ég kom til baka voru tveir karlmenn á miðjum aldri hérna úti á plani. Annar stóð alveg upp við hinn fyrir aftan hann og hélt utan um hann. Það fór vel á með þeim og þeir voru að spjalla og horfa á mannlífið. Þeir voru mjög innilegir, hvor við annan. Á vesturlöndum myndu gagnkynhneigðir menn aldrei standa svona í faðmlögum en hér, þar sem samkynhneigð er álitin geðsjúkdómur, er þetta eingöngu vináttumerki. Vinkonur á öllum aldri leiðast mjög gjarna og vinir einnig og er ekki lögð nein önnur merking í það en vinahót. Snerting og blíðuhót karls og konu á almannafæri hafa hins vegar verið bönnuð og álitin ósiðleg en það er að breytast í stóru borgunum, sérstaklega Shanghai og Beijing. Hér sér maður kærusupör leiðast og stráka jafnvel halda utan um dömuna en ekkert meira. Engu að síður er Shanghai, San Fransisco Kína. Hér þrífst neðanjarðar samfélag homma og lesbía en dags daglega verður maður nú ekki var við það og hinn almenni borgari virðist jafnvel ekki vita af því. Jóhann og samnemendur hans lentu tvisvar í minniháttar umræðum um samkynhneigð við kennara sína. Í annað skiptið var það í kínversku tíma en þá voru þau að læra orðið maki. Yfir það eru tvö tákn, annað þýðir eiginkona, hitt eiginmaður. Hins vegar er bara eitt orð notað. Og auðvitað spurðu heimsku, ósvífnu vesturlandabúarnir hvernig maður vissi hvors kyns makinn væri? Kennslukonan skyldi nú ekki svona vitleysu og sagði að það væri nú lítið mál, t.d. ef hún segði orðið væri það AUÐVITAÐ eiginmaður! Jamm, það var ekki rætt frekar. Hitt skiptið var í tíma í kínverskri menningu. Einn samnemandinn spurði um hommakúltúrinn í Shanghai og fékk svar samkvæmt flokkslínum - það væru engir hommar í Kína! Það er nefnilega það.

Við höfum verið að fylgjast með fréttum af jarðskjálftanum sem varð í gær rétt hjá Chengdu. Þetta er ekki svo langt frá Chongqing, þar sem við vorum í síðustu viku og þar varð töluvert mannfall en þó ekkert á við það sem var nær upptökunum. Við þökkum fyrir að hafa ekki verið á siglingu þarna aðeins seinna. Svo skilst mér að stífan mikla hafi skemmst en litlar fréttir hafa borist af því. Í gærkvöldi vorum við að flakka á milli CNN Asia og CCTV9 sem er kínversk áróðursstöð á ensku. Þar var litlar fréttir að hafa þrátt fyrir að þulurinn segði aftur og aftur að jarðskjálftinn væri aðalfréttin. Svo sýndu þeir trekk í trekk viðtal við einhvern háttsettan mann í flugvél sem var á leið á staðinn. Hann sagði að kínverjar og kommúnistaflokkurinn myndi komast í gegnum þetta. Verður maður ekki bara að trúa því? Svo voru endalausar fréttir af loftfimleikamönnum að æfa fyrir opnunarhátíð ólympíuleikanna og af uppbyggingunni í Beijing. Í dag hafa hins vegar verið raunhæfari fréttir. Það tekur auðvitað sinn tíma að ritskoða. Núna er ég að horfa á beina útsendingu af blaðamannfundi með erlendum blaðamönnum sem spyrja kurteisislegra spurninga. Núna fyrst eru að berast einhverjar alvöru fréttir af þessu. Á CNN Asia að heyra er hins vegar eins og allt landið og landsmenn með hafi verið í stórhættu, æsifréttamennskan er slík. Það má nú fara milliveginn.

Annars er það helst af okkur að frétta að við erum komin með erlent vinnuafl í uppvaskið. Tengdaforeldrar mínir eru sem sagt komnir í heimsókn og ætla að vera til 27. maí. Þau ætla að vera mér samferða til Beijing núna á eftir en hlaupið mikla er um það bil að skella á. Ég mun svo halda áfram upp í sveit en þau ætla að skoða höfuðborgina og kínamúrinn á meðan. Hlaupið er á laugardaginn og svei mér þá ef ég er ekki bara tilbúin. Ellý sendi mér hælsærisplástra og svo fékk ég fyrirframafmælisgjöf frá Jóa og strákunum, græju til að nota á laugardaginn - Nimbus 2000! Nei, smá jók, Garmin Forerunner 305! Ef ég villist á kínamúrnum get ég stillt á go home og fylgt doppunum. Þá mun ég þó ekki koma í mark og fá medalíu eins og ég ætla mér en ég mun alla vega ekki týnast í óbyggðum Kína.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gangi þér rosalega vel í hlaupinu um helgin! Hlakka til að lesa ferðasöguna af því

Erla Hrönn (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 23:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband