Hárgreiðsluherinn

Hér við húsið er hárgreiðslustofa mikil. Þar vinnur her manns (eins og reyndar í öllum fyrirtækjum í Kína) og þegar þau eru ekki að klippa standa þau í einkennisbúningum við dyrnar og taka á móti þeim sem inn koma. Það leið töluverður tími þar til við sáum einhvern fara inn í fyrsta sinn en við grínuðumst með það þetta væri eitthvað dularfullt því oft var fullt af fólki inni. Við ímynduðum okkur að hárgreiðslustofan væri leppur fyrir einhverja neðanjarðarstarfsemi eða starfsfólkið léki sér allan daginn að því að klippa hvort annað. Það vinna örugglega þrjátíu manns þarna þannig að það væri hægur leikur.

Svo kom að því að karlpeningurinn á heimilinu væri að verða of síðhærður. Um svipað leyti fylltist allt af blöðrum á hárgreiðslustofunni og allt í einu var komið skilti fyrir utan sem kynnti þjónustuna. Klipping kostaði 20 yuan eða 200 íslenskar krónur. Einn miðvikudagseftirmiðdag þegar Jói var í próflestri ákvað hann að taka sér pásu og skreppa í klippingu. Hann átti að fara í tíma um kvöldið og skila ritgerð næsta morgun og hafði því lítinn tíma. En hversu langan tíma getur ein klipping tekið?

Nú Jói fór en svo leið og beið. Strákarnir komu heim úr skólanum og ég fór að huga að kvöldmat, Jói var að verða of seinn í skólann. Við reyndum að hringja en hann svaraði ekki. Mér var hætt að lítast á blikuna. Tveimur tímum seinna kemur umræddur félagi Jói á harðaspani, alveg að verða of seinn í skólann. Hann hafði farið inn og afar elskuleg stúlka sem ekki talaði ensku hafði sýnt honum skilti og spurt hvort þetta væri ekki örugglega það sem hann vildi. Jú, jú, Jói hélt það nú. Honum var gert að fá sér sæti og umsvifalaust réðst herinn á hann, færði hann úr skóm og sokkum, skellti honum í fótabað, nuddaði fætur, axlir, bak og höfuð. Þá var hárið þvegið, bæði fyrir og eftir klippinuna og þegar ég hringdi stóð maður með flugbeittan hníf fyrir aftan hann og var að raka hann. Hann gat því alls ekki svarað. Jói hafði sem sagt óvart pantað afar tímafreka heildarmeðferð og kom þvílíkt hreinn og strokinn út úr því ævintýri. Ég er örugglega að gleyma að segja ykkur frá einhverju sem yfir hann reið. Pakkinn kostaði heil 180 yuan eða 1800 kall.

Mikill hárvöxtur er frekar óheppilegur fyrir Hansa því hárið á honum stríðir algjörlega gegn þyngdarlögmálinu. Um miðjan maí var hvorki meira né minna en Prom í skólanum hans og ekki gat hann farið of loðinn á það. Tilboðsskiltið var enn fyrir utan þótt blöðrurnar væru farnar að krumpast. Hann var þó sendur með 200 yuan til öryggis ef honum tækist ekki heldur að afþakka heildarpakkann. Hann fékk hárþvott bæði fyrir og eftir klippingu og greiðslu fyrir 20 yuan.

En nú var Elmar orðinn frekar loðinn líka en harðneitaði að fara í kínverska klippingu. Ég er búin að vera að væla í honum að fara en hann stóð fastur á sínu. Afa hans langaði hins vegar mikið að kanna lendur hárgreiðslustofunnar og honum tókst það ómögulega í gærkvöldi, að draga barnið í klippingu. Bjarna tókst að neita heildarpakkanum en ekki að biðja um einfalda klippingu. Þeir fengu því báðir tvöfaldan þvott, klippingu, höfuð og axlanudd og afar vandaðan eyrnaþvott. Þeir komu heim 45 mínútum síðar, 250 yuan fátækari og með óeðlilega hrein eyru sem stóðu út úr nýklipptum kollinum.

Þeir félagar vöktu mikla athygli á stofunni enda báðir ljóshærðir. Skiptist starfsfólkið á að þvo, nudda, klippa og greiða. Fimm starfsmenn tóku Elmar að sér og annar eins fjöldi sinnti Bjarna. Stelpurnar pískruðu og struku krakkanum um kollinn og ég er ekki frá því að hann sér snögghærðari fyrir vikið. Mig grunar að hann hafi verið klipptur af fleirum og meira en þörf var á svo allir fengju að prófa.

Nú er spurning hvort ég eigi að skella mér líka og sjá hvað gerist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband