Þjóðarsorg og bæjarrölt

Jæja, það er skemmst frá því að segja að hetjan lagðist hundslöpp í rúmið eftir hlaupið mikla. Á sunnudagsmorgunin þegar ég kom heim var ég eldhress en varð svo agalega þreytt eitthvað síðdegis og fór snemma að sofa og vaknaði með hita, beinverki og algjörlega lystarlaus á mánudagsmorgun. Ég druslaðist samt með erlenda vinnuaflinu og Jóa á fatamarkað því við höfðum verið að láta sauma á okkur og áttum að ná í heila klabbið í gær. Þau hin voru draugfín í þessu, mér skilst að þetta sé í fyrsta sinn sem Bjarni fær á sig skyrtu sem smellpassar og ekki voru Jói og Elínbjörg síðri. Ég nennti þessu nú ekki alveg vikunni áður þegar við vorum að panta en lét þó undan Jóa sem vildi endilega að ég fengi svona power suit til að fara í á fundi (ég er svo mikið á fundum, sko). Ég valdi agalega flott svart ullarefni en var einhvern veginn fremur hugmyndasnauð þegar kom að sniðum og svona, enda hef ég aldrei átt dragt áður og þetta ekki alveg minn tebolli. Ég fékk pils, jakka og buxur og þegar ég var komin í þetta leit ég alveg eins út eins og þjónn í erfidrykkju! God damn it! Ekki bætti úr skák að bæði pilsið og buxurnar voru allt of stór á mig, annað hvort hafa þau mælt vitlaust eða ég minnkað svona mikið við öll hlaupin. Svo bungaði þetta allt út að framan. Þau vildu því að ég kæmi aftur á morgun en ég harðneitaði því og þurfti því að bíða í einn og hálfan tíma. Það þurfti líka að laga aðeins það sem Elínbjörg hafði pantað sér svo biðin kom ekki að sök, við fórum bara og fengum okkur að borða - það er að segja þau, ég hafði ekki lyst á neinu og nartaði bara í vatnsmelónu. Þegar ég kom aftur voru fötin vissulega þrengri en bunguðu enn út að framan. Nú hef ég passað mig svakalega á að vera ekki dónaleg hér í Kína (alveg satt) en í hitakófinu hafði ég bara engan húmor fyrir þessu og sagði "I do not have a penus, lady". Hringt var í klæðskerann sem kom í hvelli og húðskammaði stelpugreyin fyrir heimskulegar mælingar. Hálftíma síðar var búið endursauma bæði buxur og pils og varð ég að viðurkenna að þetta var drulluflott. Ég á nú sennilega aldrei eftir að nota þetta allt í einu (enda afar óhentugt að vera í bæði pilsi og buxum) en jakkinn er nú bara flottur við gallabuxur og buxurnar askoti flottar og maður getur nú alltaf notað svart pils, ekki satt?

Verðin á þessu dóti eru alveg fáránlega lág - Jóhann er að kaupa sér jakkaföt úr kasmírull með auka buxum á sama og einn ómerkilegur jakki í H&M kostar!

Á meðan á dvölinni endalausu á fatamarkaðinum stóð hófst þjóðarsorg hér í Kína vegna hamfaranna í Chengdu. Í hátalarakerfinu tilkynnti kona það sem fram færi og svo hljómaði eitthvað suð í þrjár mínútur. Á meðan lutu allir höfði og lögðu niður störf. Hér er flaggað í hálfa stöng út um allan bæ og opinberum viðburðum frestað. Í dag átti til að mynda að hlaupa með ólympíueldinn hér í Shanghai en ekkert varð af því.

Annars er merkilegt að fylgjast með viðbrögðum Kínverja við þessum hamförum. Ég hef verið að vinna í bók um jarðskjálfta og eldgos heima á Íslandi sem helstu sérfræðingar landsins skrifa. Þegar ég var á förum skoruðu þeir ágætu menn á mig að finna myndir af skæðum jarðskjálfta sem varð hér 1976 og yfirvöld viðurkenndu ekki að hefði átt sér stað. Slíkar hamfarir gátu bara ekki átt sér stað í hinu fullkomna alþýðulýðveldi. Þeir höfðu hverki séð myndir af honum. Ég fann reyndar myndir eftir fremur stutta leit en nú eru viðbrögð stjórnvalda gjörólík þótt enn finni maður fyrir ritskoðun og varkárni við fréttaflutning. Fyrsta daginn var það eingögnu að frétta að stór skjálfti hefði riðið yfir og forsetinn væri á leiðinni á staðinn. Það var ekki fyrr en daginn eftir að við fórum að fá einhverjar "alvöru" fréttir úr blöðum og kínversku stöðinni. Síðan þá hefur tala látinna haldið áfram að rísa og svo virðist sem við séum að fá allan sannleikann um það. Sjónvarpið sýnir myndir af björgunarstörfunum alveg út í eitt og spilar kommúnísk þjóðernislög undir. Dagblöðin prenta sérblöð með myndum af skjálftasvæðunum og fórnarlömbum og skilst okkur að það sé í fyrsta skipti sem það er gert hér. Annað sem er nýtt er að hér fer fram gríðarleg fjársöfnun til styrktar fórnarlömbunum og er það í fyrsta skipti sem það er gert. Hingað til hefur Alþýðulýðveldið séð um sína en nú ríkir samhugur um að þetta komi öllum 1.3 milljörðum Kínverja við og allir eigi að leggja sitt að mörkum til hjálpar fórnarlömbunum.

Við lesum kínverksu blöðin hérna; Shanghai daily, China daily og Beijing daily (þegar við erum þar) reglulega, ekki til að fá fréttir, heldur meira að gamni okkar. Kínverska ríkispressan er snillingur í að segja fréttir af einhverju sem ekki skiptir neinu máli. Við fáum fréttir af því að einhver brú sé flutt, kirsuberjatrén séu í blóma, heimskir þjófar hafi reynt að ræna banka en hafi skilið skilríkin sín óvart eftir í bankanum og fleira í þeim dúr. Fréttir af ástandinu í Tíbet voru að sjálfsögðu afar hlutlægar og fjölluðu aðallega um skemmdarfíkn fárra manna (aha) og fréttir af mótmælum víða um heim þegar hlaupið var með ólympíueldinn snerust allar um að Frakkar væru vondir við fatlaða. Fyrst eftir skjálftan voru fréttir af því að stíflan mikla hefði skemmst en svo höfum við ekki heyrt neitt meira af því. Það minnir reyndar ansi mikið á það hvernig Bandaríkjamenn þögguðu niður árásina á Pentagon 11. september 2001 með því að hæpa upp árásina á Tvíburaturnana. Myndir af Pentagon í ljósum logum hafa varla sést síðan við sáum þær í beinni útsendingu.

Annars höfum við það bara ansi náðugt þessa dagana. Samkvæmt áætlun ætti Jói að vera í próflestri en skólinn er búinn hjá honum svo hann er bara að tjilla með mömmu sinni og Bjarna. Því miður hvíla á mér ýmis verkefni sem ég þarf að leysa af hendi en ég reyni að njóta lífsins eins og hægt er. Á fimmtudaginn ætlum við öll til Xi'an sem er ein af fyrrum höfuðborgum Kína. Þar í grenndinni er leirherinn makalausi sem okkur langar mikið að skoða. Við munum fljúga snemma á fimmtudagsmorguninn og koma heim á laugardagskvöldið. Elínbjörg og Bjarni fara svo heim á þriðjudaginn og við sjálf á laugardaginn eftir viku. Og ég sem á eftir að blogga um svo margt! Okkur langar bara ekkert heim. Ef hann Loki væri með okkur hérna myndum við sennilega bara ekkert koma. Hér er bara svo rosalega gaman og núna þegar við erum farin að geta talað við fólk og kunnum á þetta endalaust skrítna land verður bara skemmtilegra og skemmtilegra að vera hérna. Auk þess er veðrið dásamlegt. Ég veit samt alveg að sumrin hér eru óbærilega heit og auk þess rignir stöðugt í júlí og ágúst og það er frekar leiðinlegt að vera hér í rigningu. Þannig að sennilega munum við skila okkur heim ;-)

EN ég minni á að ég á afmæli í dag og tek við árnaðaróskum til miðnættis á GMT!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

til hamingju með afmælið

Halla (fararstjórn CISV) (IP-tala skráð) 20.5.2008 kl. 16:57

2 identicon

til hamingju með afmælið

Erla Hrönn (IP-tala skráð) 20.5.2008 kl. 18:51

3 identicon

"Ef hann Loki væri með okkur hérna myndum við sennilega bara ekkert koma. "

Vá takk!!! Geðveikt diss á okkur hin!!!  Ef hundurinn væri hjá þér þá þyrftirðu ekkert að koma heim!!! 

Ellý eina systir þín (IP-tala skráð) 20.5.2008 kl. 20:42

4 Smámynd: Margrét Tryggvadóttir

Heyrðu, þið gætuð komið í heimsókn en hann ekki! Það er hægt að hringja í ykkur og fá tölvupóst en hann er frekar lélegur í tölvusamskiptum þótt passarinn hans bæti það nú reyndar upp.

Margrét Tryggvadóttir, 20.5.2008 kl. 22:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband