Á förum ...

Jæja, nú er ekki mikið meira eftir en að pakka. Við munum yfirgefa íbúðina okkar á morgun og vera síðustu nóttina á hóteli. Ætlunin var að gefa Rauða krossinum búslóðina og fundum við á heimasíðu samtakanna upplýsingar um hvar tekið væri á móti hlutum. Jói átti leið þar framhjá í gær. Það reyndist vera spítali rekinn af RK en þar kannaðist enginn neitt við að geta tekið á móti búslóðum. Við spurðum þá stelpuna í lobbíinu hvert væri hægt að fara með svona dót því við vildum gefa það og hún horfði nú bara á okkur eins og við værum galin að ætla að gefa dótið okkar! Hún hafði bara aldrei heyrt aðra eins vitleysu. Hér í Kína gefur fólk ekki dót, sérstaklega ekki ókunnugum. Aðal gjafahátíðin hér eru kinversku áramótin og þá gefur fólk peninga í rauðum umslögum.

Hér í miðríkinu er mikil samstaða innan fjölskyldunnar og á milli vina. Þar sem flestir kínverjar búa afskaplega þröngt og deila til að mynda salerni og eldunaraðstöðu með nágönnum sínum myndast oft afar náin tengsl á milli fólks og það er til siðs að fórna sér og gera nánast allt fyrir vini og fjölskyldumeðlimi. Xie xie (borið frá cé cé) þýðir takk á kínversku en það eru orð sem þú segir ekki við þína nánustu vegna þess að það á að vera svo sjálfsagt að vinir og fjölskylda hjálpi hverjum öðrum að þú átt ekki að minnast á þakkir. Ef þú þakkar vini ertu að móðga hann því þú ert að gefa til kynna að tengsl ykkar séu ekki náin. Ókunnugir eru hins vegar eitthvað fólk sem þér kemur ekki við og það þykir ekki sjálfsagt að rétta ókunnugum hjálparhönd. Ef það verður slys hópast fólk að til að fylgjast með (enda er hvorki dómalegt að glápa né benda hérna) en ekki til að hjálpa. Ef fólk er í vanda statt grunar mann stundum að vegfarendur hafi bara gaman af því.

Nú er enginn skortur á hörmungum í Miðríkinu, bæði flóð og jarðskjáftar ríða yfir. Í fyrsta sinn í sögu Alþýðulýðveldisins Kína er fréttaflutningur opinn og fólki er sagt frá því sem samborgarar þeirra eru að ganga i gegum. Hinar venjulegu fréttir af hænu sem verpti 170 g eggi, kínverska rakarann sem fékk að hlaupa með ólympíueldinn því hann klippti gamla fólkið svo vel og manninum sem er 2.2 m á hæð og fær hvergi á sig skó (hann er búinn að vera í sömu skónum sem mamma hans bjó til fyrir hann í 25 ár en hún lappar reglulega upp á þá) fá að víkja, alla vega um stundar sakir. Nú fá landsmenn að fylgjast með og fólk er beðið um að rétta fram hjálparhönd og gefa í safnanir. Kína er að breytast svo hratt að bara á þessum rúmu þremur mánuðum sem við höfum dvalið hér höfum við orðið vör við miklar breytingar.

Þegar við ákváðum að fara til Kína hafði ég svo sem engan sérstakan áhuga á landi og þjóð. Okkur langaði bara að breyta til og skoða heiminn. Eftir að hafa dvalið hér er ég hins vegar alveg heilluð af þessu skrítna landi. Það sem mér finnst merkilegast er ekki fornminjar eða náttúrufegurð heldur fólkið og hvernig þær miklu hræringar sem það hefur gengið í gegnum hefur mótað fólk. Úti í garðinum mínum sé ég oft gamlar konur sem hafa gengið í gegnum og lifað af stökkið mikla, hungursneiðina sem fylgdi í kjölfarið, menningarbyltinguna og ótal minni hræringar. Þær eru svo miklir töffarar þar sem þær sitja eins og kúrekar á garðbekkjum og njóta andartaksins. Það er eins og það bíti ekkert á þessar kellur. Tuttugasta öldin var alls staðar viðburðarík en þó sérstaklega hér í Kína. Kínverska þjóðin hefur verið og er enn í rússibanareið.

Hér er margt sem ég mun sakna. Mest eftirsjá finnst mér vera í mannlífinu hérna. Mér finnst dásamlegt að fara hér út á götu og það iðar allt af lífi. Ef mann langar í melónu eða jarðarber leitar maður ekki að búð heldur götusala. Ég mun sakna mannmergðarinnar og fjölbreytninnar í mannlífinu og hversu opinskátt fólk er. Það er erfitt að lýsa því en fólk reynir hreinlega ekki að lifa einkalífi hérna. Fólk lokar t.d. ekki endilega á eftir sér þegar það fer á almenningsklósett (ekki það að ég muni sakna þess sérstaklega að verða vitni að slíku) en þessi skortur á einkalífi gerir manni kleift að gægjast lengra inn í þjóðarsálina en ella. Þegar ég geng um shikuman-hverfin hér rétt hjá þar sem fólk býr í litlum kytrum, margar fjölskyldur í einu húsi og göturnar og húsasundin verða framlenging á heimilinu sér maður hvernig lífi fólk lifir í raun og veru. Ég mun líka sakna þess að geta ekki farið út á götu og valið úr tugum ef ekki hundruðum veitingastaða sem eru tilbúnir að fæða fjögurra manna fjölskyldu án þess að maður fari á hausinn.

En svo er annað sem ég verð fegin að vera laus við. Mengunin er þar í fyrsta sæti. Kol uppfylla 80% af orkuþörf kínverja enn þann dag í dag. Aðeins 4% þjóðarinnar á bíl en þar sem millistéttin stækkar óðfluga er bílaeign að verða stöðutákn og búist er við mikilli fjölgun bíla á næstu árum. Hvar þeir ætla að hafa þessa bíla er mér hulin ráðgáta. Ég myndi aldrei vilja eiga bíl í Shanghai. Leigubílar eru á hverju strái (ja nema í rigningu), lestarkerfið er frábært og ef ég væri hugrakkari gæti ég hjólað. Mengunin hér í Shanghai fer þó ekki eins mikið í mig og í Beijing þar sem ótrúlegt ryk svífur um í loftinu, bæði vegna sandstorma frá Mongólíu en ekki síður vegna sllra framkvæmdanna í borginni. Ég mun líka verða afar fegin að vera laus við Kenny G sem hljómar hér bókstaflega alls staðar, sérstaklega jóladiskurinn hans. Svo verður líka gott að geta gengið að hlutunum vísum. Hansi keypti sér t.d. heimildamynd um Bítlana um daginn. Í hylkinu voru vissulega tveir DVD diskar. Á öðrum var gítarkennsla en á hinum heimildarmynd um lestir. Ef pakkinn hefði kostað meira en 20 yuan hefði maður sennilega orðið reiður. Og svo er hitinn og rakinn að verða of mikill. Þegar við komum var kalt og einangrunin litil í blokkinni þannig að hitararnir gengu stöðugt. Í öllum verslunum og veitingastöðum var fólk kappklætt enda ekkert verið að hita rýmin að óþörfu.Í skóalnum hjá Jóa sátu nemendur í úlpum og með húfur og vetlinga. Nú er þessu öfugt farið. En lungann úr tímanum var hér dásamlegt veður og gott að vera.

Annað sem ég mun ekki sakna eru klósettin. Almenningsklósett eru yfirleitt holuklósett sem í sjálfu sér er ekki svo slæmt. Fæst þeirra eru hins vegar með vatnslás og því berst fnykurinn upp úr klóakinu út um allt. Í maraþoninu voru bara átta holur fyrir allar níuhundruð konurnar sem tóku þátt og alla kvenkynsáhorfendurnar. Alls staðar annars staðar væri það ávísun á gífurlegar raðir. En nei engar raðir mynduðust því fnykurinn var svo óbærilegur að fólk hljóp bara inn og út eins hratt og hægt var.

En hingað mun ég koma aftur, það er á hreinu.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband