Ferðalag

Við fórum í þetta dásamlega ferðalag síðustu helgi, siglingu á Yangtze fljótinu sem er það þriðja lengsta í heimi. Í ágúst sigldum við á Níl á seglbát og syntum meira að segja í fljótinu líka þannig að nú er það bara Amazon sem er eftir. Elmar er reyndar sá eini sem á séns í að klára siglingu á þremur lengstu ám í heimi á einu ári því hann verður í Brasilíu í júlí. Reyndar held ég að hann verði upptekinn við annað en hann verður alla vega í réttu landi. Í þetta skiptið vorum við á litlu skemmtiferðaskipi. Ég hefði ekki boðið í að vera nær ánni því hún er drullupyttur af náttúrunnar hendi en einnig ótrúlega menguð.

Ferðin hófst fyrsta maí. Við ákváðum að taka maglev lestina út á flugvöll en það er svona segulsviðsofurlest sem fer á 500 kílómetra hraða. Magnað fyrirbrigði. Strákarnir voru svo spenntir að fara í lestina að þeir hugsuðu ekki um annað en þessar 7 mínútur sem lestarferðin tók. Allir í lestinni voru að taka hana upp á sportið, hún er mun dýrari en leigubíll. Fólk sat með myndavélina og tók mynd af skjánum sem sýndi hraðann. Það var súrrealísk tilfinning að sitja í þessu undratæki sem er hvorki meira né minna en hraðskreiðasta lest í heimi og horfa á akra þar sem bændur plægja enn með uxum þjóta hjá. Ég mun seint skilja forgangsröðunina hér í Miðríkinu.

Við flugum frá Pudong flugvelli til Chongqing en hann er aðallega ætlaður utanlandsflugi. Síðan við vorum þar í febrúar er búið að opna nýjan terminal með 250 hliðum. Shanghai-búar eru að búa sig undir traffík vegna ólympíuleikanna í ágúst og Expo sem verður haldin hér 2010. Auk þess hefur því verið spáð að Kína verði orðið mesta ferðamannaland heims 2020. En þennan tiltekna morgun var þessi risavaxna, glænýja bygging nánast tóm og sá allra rólegasti staður sem við höfum verið á síðan við komum til Kína. Engin læti og þægileg lyftutónlist á göngunum.

Chongqing er ótrúlega stórog skítug borg. Á svæðinu í heild búa 32 milljónir manna. Á hverju ári flytjur hálf milljón manna til borgarinnar eða úthverfanna og við keyrðum frá flugvellinum sem svarar frá miðbæ Reykjavíkur til Selfoss og alls staðar var verið að byggja risastór blokkarhverfi. Ólíkt öðrum stöðum í Kína notast menn ekki við reiðhjól í Chongqing því borgin er staðsett í fjalllendi og alls staðar eru brattar brekkur. Reyndar er verið að riðja niður heilu fjöllunum til að slétta landið. Flugvöllurinn er t.d. á einu slíku fyrrverandi fjalli.

Eftir að hafa skoðað borgina héldum við að skipinu Ms Fortune. Með í ferðinni voru tvær spænskar stelpur úr skólanum hans Jóa, kallarnir þeirra og fleira fólk sem þær þekktu. Þetta var skemmtilegur hópur sem náði vel saman. Skipið lagði svo af stað á föstudagsmorgunin og komum við í höfn í bænum Yichang um hádegi á sunnudeginum. Á hverjum degi var farið í eina skoðunarferð.

Yangtze-fljótið á upptök sín í Tíbet og rennur til sjávar við Shanghai. Svæðið við ána er svakalega þéttbýlt en einn af hverjum tólf jarðarbúum búa við ána. Áin var afar kröftug og straumhörð en nú hefur hún verið virkjuð með stærstu stíflu í heimi, "the Three Gorges" stíflunni. Við það hefur vatnsyfirborðið hækkað mikið og á raunar eftir að hækka um 20 metra í viðbót á næsta ári þegar síðasti áfangi stíflunnar verður tekinn í notkun. Fljótið var ólíkindatól og olli oft miklum mannskaða með flóðum sínum. Flóðin voru árleg og á um tíu ára fresti mátti búast við stórflóði sem olli miklum skaða. Síðustu 50 ár hafa 330.000 manns látist í þessum flóðum samkvæmt yfirvöldum í Kína (sem þýðir að talan gæti verið miklu hærri). En stíflan er líka virkjun sem framleiðir rafmagn og með henni ná kínverjar að auka rafframleiðslu sína um 10%. Stíflan jafngildir tíu kjarnorkuverum. Kínverjar nota enn mikið af kolum sem að sjálfsögðu menga mikið en einnig vatnsorku og kjarnorku. Áður en stíflan var tekin í notkun var rafframleiðsla landsins 150 wött á hvern landsmann. Til samanburðar þá var framleiðslan í Bandaríkjunum 3000 vött á hvern landsmann þar. Því var og er reyndar enn mikill skortur á raforku í landinu þótt sá skortur sé ekki sýnilegur hér í Shanghai sem er oft kölluð borg ljósanna. Stíflan er gífurleg framkvæmd og kostar ekki bara mikla peninga heldur líka miklar fórnir. Vatnsyfirborðið hækkar í það heila um 40 metra og mun áin flæða yfir 13 borgir, 140 bæi, 1352 þorp, 650 verksmiðjur og þrettán raforkuver. 45% kostnaðar við framkvæmdina fer í að færa íbúana og byggja nýjar borgir og bæi. Fyrsta skoðunarferðin okkar var til borgar sem heitir Fengdu. Sú borg er alveg horfin í vatn en hefur verið endurbyggði hinum megin við ána. Við fórum hins vegar og skoðuðum musteri sem staðsett var á fjalli fyrir ofan upprunalegu borgina. Síðasta daginn skoðuðum við svo stífluna sjálfa.

Siglingaleiðin er ægifögur og ég held bara að ég hafi aldrei verið á fegurri stað. Mest alla leiðina var mistur og skýjaslæður í fjöllunum sem gerði landslagið enn hrikalegra og mystískara. Við tókum fullt af myndum og er Jói búinn að setja hluta af þeim inn á síðuna sína: http://gallery.mac.com/johann.agust.hansen þar sem hægt er að skoða þær. Hver einasti fermetri sem stætt er á í kringum ána er notaður af mönnum en út úr þverhníptum klettunum vex svo villtur gróður og runnar. Svæðið í kringum ána er frábært ræktunarland og nýta bændur jörðina til hins ýtrasta. Þar sem of bratt er fyrir akra eru ferskju- og appelsínutré. Í hæðunum eru hrískrjónaakrar á stillum. Á veturnar er hins vegar ræktað grænmeti í hrísgrjónaökrunum. Þá eru hveitiplöntur í röðum og þegar það er farið að vaxa sá bændurnir maís í stígana. Á veturnar er líka ræktað grænmeti á kornökrunum. Þannig er hver einasti blettur gjörnýttur og sama svæði gefur af sér allt að þrjár mismunandi uppskerur á hverju ári. Þessi flóknar ræktun, almenn fátækt og gífurlegur brattinn gerir það hins vegar að verkum að landbúnaðurinn hefur ekki breyst mikið síðustu árþúsundin. Ég held við höfum ekki séð einn einasta traktor. Í Kína eru 700 milljón bændur og er það sérstaklega hrísgrjónaræktunin sem krefst mikillar handavinnu en plöntunar eru forræktaðar áður en þeim er plantað í vatnsósa hrísgrjónaakrana. Bændur fá mjög lítil laun en eru hins vegar nokkuð sjálfbærir og komast því af með minna. Engu að síður hafa margir í bændastéttinni ekki efni á að senda barnið sitt í skóla. Ef hjón eignast annað barna þarf fjölskyldan að glíma við háa sekt og dæmi eru um að ef það þriðja kemur í heiminn að heimili fólks sé jafnað við jörðu, öðrum til varnaðar.

Hann hékk þurr allan föstudaginn og rétt fyrir hádegi á laugardag voru við einmitt að ræða að við værum nú bara heppin með veður miðað við spána. Svo fórum við niður í matsal og þegar við litum út um gluggan sáum við að það var farið að hellirigna. Við vorum einmitt að fara í siglingu á minni bát inn hliðará og þaðan í litla árabáta enn lengra inn ótrúlega falleg gljúfur. Það rigndi eldi og brennisteini á meðan við vorum á stærri bátnum og þrumurnar voru hærri og lengri en ég hef nokkurn tímann heyrt. Til stóð að við færum í tveggja tíma siglingu á litlu árabátunum á svæði þar sem áður var afar grunnt en vegna þrumuveðursins fengum við bara rétt að prófa. Þess í stað vorum við flutt að einhverju samkomuhúsi þar sem boðið var upp á þá ömurlegustu sýningu sem ég hef séð. Hún var svo vond að hún varð hreinlega frábær! Fyrir það fyrsta var hátalarakerfið ónýtt. Kínverjar eru mikið gefnir fyrir hávaða þannig að eina ráðið við biluðu hljóðkerfi var að hækka bara allt í botn. Við sátum því og héldum fyrir eyrun. Vegna rigningarinnar var gólfið allt á floti. Sýningin samanstóð af nokkrum ótrúlega hallærislegum dönsum þar sem ástarsaga fiskimannanna var sögð á afar klisjukenndan hátt, manns sem spilaði á lúður í gegnum nefið og hnífajogglara. Þetta voru hálfléleg bítti við það sem átti eiginlega að vera hápunktur ferðarinnar en maður ræður ekki við veðrið svo við þessu var ekkert að gera. Um leið og við komum í borð í skipið aftur hætti samstundis að rigna og var frábært veður það sem eftir var.

Það var einkennileg tilfinning að sitja upp á dekki orðlaus yfir fegurðinni og hinni "ósnortnu" náttúru fjallanna en virða þess á milli fyrir sér nýbyggð blokkarhverfi sem koma í stað lítilla sveitaþorpa, reykspúandi verksmiðjur, bæi í hlíðinni og fólk á störum á ökrunum. Einhvern veginn passaði þetta þó allt saman og úr varð ekta kínverskur hrærigrautur. Samgöngur á landi eru erfiðar á svæðinu og því er áin aðal samgönguæðin.

Á laugardagskvöldið sátum við og spiluðum uppi á dekki og fylgdust með skipinu fara niður fjórar hæðir í skipastiga við stífluna. Það tók 3 og hálfan tíma og vorum við í rými með fleiri bátum og skipum. Einnig er skipalyfta við stífluna og svo verður önnur hraðvirkari fyrir minni báta en hún hefur ekk enn verið tekin í notkun.

Áður en stíflan var byggð voru miklar umræður um hana og var hún ein af fáum stórum málum sem ræða mátti opinberlega og takast á um í lok áttunda áratugnum og á fyrri hluta þess níunda. Það er hins vegar dæmigert fyrir Kína að um leið og búið var að taka ákvörðun um smíði hennar má ekki ræða hana meira og áróðursmaskínurnar fóru í gang. Margt mælti á móti gerð stíflunnar. Margar sérstakar dýrategundir lifa eða lifðu t.d. í fljótinu. Ein þeirra, blindur vatnahöfrungur sem er ein af aðeins fimm tegunum höfrunga sem lifa í vatni í heiminum og fannst aðeins í Yangtze-fljótinu þoldi ekki þessa röskun á lífríkinu og telst nú útdauð. Áður hefur verið minnst á mannvirki sem hafa farið undir vatn en á svæðinu eru einnig óteljandi menningarminjar sem eyðileggjast. Sumu á að reyna að bjarga með því að færa minjarnar en annað fer bara undir vatnið. Einnig var deilt um öryggi stíflunnar sjálfrar. Hún stendur á jarðskjálftasvæði og ég þori ekki einu sinni að hugsa hvað kynni að gerast ef öflugur skjálfti riði yfir. Þá hafa stíflur í Kína ekki þótt sérlega vel hannaðar eða vandaðar, 3.7% allra stífla í Kína hafa brostið síðan 1947 en aðeins 0.6 annars staðar í heiminum.

Það var áhrifamikið að hlusta á annars nokkuð leiðinlegan leiðsögumanninn sem sýndi okkur stífluna lýsa því fyrir okkur hvernig það var að horfa á heimabæ sinn hverfa undir vatn. Hann sagði okkur frá gömlu fólki sem neitaði að yfirgefa heimilin sín áður en þau voru jöfnuð við jörðu og var borið á brott, frá ömmu sinni sem var svo harmi slegin að hún lagðist í rúmið og dó og frá því hvernig honum leið þegar hann sá allt hverfa undir vatnið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband