24.4.2008 | 12:45
Armaát
Fimmtudagar eru frábærir því þá fer ég í matreiðsluskólann. Þangað er um 15 mínútna gangur og það er alltaf sól og blíða á fimmtudögum (en rigning á þriðjudögum og laugardögum). Skólinn er inni í þröngu húsasundi. Ég fór þangað fyrst að kvöldlagi í tíma hjá tælenskum gestakennara og það var verulega erfitt að finna þetta því sundið er langt og mjótt og ekkert upplýst. Allir nemendurnir sem mættu það kvöld bönkuðu á ranga hurð og fólkið þar var orðið verulega þreytt á okkur.
Nú er ég að læra að elda kínverskan mat (að degi til) hjá honum Huang sem er ótrúlega klár wok-kokkur. Það er gengið beint inn í kennslustofuna frá sundinu og þar er langborð og á því bretti og hnífar fyrir hvern og einn. Alls geta 10 nemendur verið í tíma í einu og þá er sko þétt setið. Inn af kennslustofunni er pínulítið eldhús og þar er stálborð með þremur brennurum og svo er örlítil sóðaleg eldhúsinnrétting, eldavél með tveimur gashellum og vaskur upp við vegginn. Auk þess er pínu lítið salerni þar sem við þvoum okkur um hendurnar. Ég gæti trúað að matreiðsluskólinn allur væri um 20 fm, jafnvel minna. Aðstaðan minnir nokkuð á eldhúsið í Heilsubælinu í Gerfahverfi. Huang til aðstoðar er kona sem vaskar upp og sýður núðlur og hrísgrjón. Í hverjum tíma eldum við tvo rétti og svo sýnir Huang okkur einn til tvo í viðbót sem eru annað hvort svo erfiðir að það væri vonlaust fyrir okkur að reyna eða svo auðveldir að það er nóg fyrir okkur að sjá hvernig farið er að. Nemendurnir koma víða að. Með mér er einn maður frá Nepal sem er kokkur á ítölsku veitingahúsi í borginni, nokkrir spánverjar, tælensk kona og svo þrjár kínveskar konur.
Þegar ég sá Huang í dag var ég verulega glöð því hann var búin að þvo kokkagallann sinn. Öll skiptin sem ég hef hitt hann hefur hann nefnilega verið með sama sósublettinn framan á sér og niður á buxurnar og gallinn bara orðið skítugri og skítugri. En nú var hann hreinn og fínn. Brosið stirnaði hins vegar á mér þegar ég sá hvað við áttum að elda! Í stórri skál fyrir framan okkur var haugur af neðri hlutanum af smokkfiski, sem sagt svona kolkrabbaarmar, hálfgegnsæir, fjólubláir og slímugir. "Útlendingar borða þetta aldrei, bara kínverjar," sagði Huang glaður eins og það myndi gera réttinn eftirsóknarverðari í okkar huga. "Armarnir eru mjög stinnir og því er erfitt að marinera þá," sagði hann svo. Ja há. Svo hófst aðgerðin. Við þurftum að skera einhver innyfli frá og þar sem maríneríngin var svo erfið lömdum við armana með hnífnum svo þeir mörðust og skárust. Svo skárum við þá í litla bita en ég hef komist að því að skurðurinn er lykilatriði í kínverskri matargerð. Þegar við eldum fisk sem er skorinn í teninga er grænmetið líka skorið í teninga en þegar fiskurinn er í ræmum er grænmetið það líka. Þetta þarf allt að passa saman.
Ég hefði ekki getað ímyndað mér að armarnir yrðu ætir en eftir maríneríngu í miklu hvítlauksdufti (Huang sagði að þýddi ekkert að nota ferskan, duftið þyrfti að fara inn í rifurnar), chillimauki, dökkri soju (sem er bara til að lita matinn), salti, sykri og matreiðsluvíni, djúpsteikja hann í 3 mínútur, veiða hann upp og steikja hann svo á pönnu með vorlauk, engiferi, sesamfræjum, jarðhnetum og sesamolíu bragðaðist hann hins vegar frábærlega! Svo elduðum við tófú (eða dou fu) sem er eini rétturinn sem mér hefur ekki fundist neitt sérlega góður og spánverjarnir voru alveg sammála mér. Það var mjög lítið kryddað. Hins vegar voru gulrætur með því sem voru skornar í litlar ninjastjörnur og litlar kanínur svo rétturinn leit mjög vel út. Í síðustu viku gerðum við frábæran rétt en það var kjúklingur eldaður í bjór. Við notuðum vængi og hjuggum þá í sundur með kínversku hnífunum okkar svo kjötsafinn og blóð slettist í allar áttir. Mér var hugsað til varnaðarorða þeirra sem landlæknir gaf út þegar hræðslan við fuglaflensuna var sem mest. Þar var fólk varað við því að snerta dauða fugla í útlöndum. Það er nefnilega það.
Kínverskur matur er mun bragðminni en ég hefði haldið og gjörólíkur því sem er á "kínverskum" veitingahúsum í Evrópu. Hann er mjög oft djúpsteiktur fyrst en svo steiktur í minni olíu eða jafnvel soðinn í vatni eða sósum. Kokkurinn er með bakka með mikilvægustu hráefnunum en meðal þess sem hann notar nánast alltaf er salt og sykur, matreiðsluvín (hrísgrjónavín) og fínmalaður pipar (og já maður hnerrar). Hann notar sojabaunaolíu til að djúpsteikja og sömu olíuna aftur og aftur og steikir líka upp úr þeirri olíu. Þegar við steikjum setjum við undartekningarlaust nokkra bita af enifer og vorlauk á pönnuna áður en hráefninu er bætt við. Í lokin hellum við yfirleitt örlítilli sesamolíu yfir matinn en þá er hann líka tekinn af hitanum. Mér er því hulin ráðgáta af hverju kínverjarnir eru allir svona mjóir. Það er eitthvað bogið við þetta.
Þeir borða reyndar ekki mikil sætindi en nota sykur mikið sem krydd. Hrísgrjón borða þeir ekki með matnum heldur bara eftir hann til að fylla magann. Þeir borða miklu meira prótein en ég hefði haldið og heil ógrynnin öll af eggjum. Við lærðum að útbúa steikt hrísgrjón um daginn og í þann rétt þurfti hvorki meira né minna en fimm egg! Eftir eldun verða þau hins vegar eiginlega ósýnileg. Ávextir fást hér á hverju götuhorni og alltaf ferskir og fínir.
Og enn og aftur, gleðilegt sumar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.4.2008 | 05:20
Gleðilegt sumar!
Það er eins og garðyrkjumenn Shanghai-borgar viti að á morgun er sumardagurinn fyrsti heima á Fróni því nú eru þeir í óða önn að skipta út blómum í blómakerum borgarinnar. Þegar við komum í febrúar voru skrautkál í öllum blómabeðum og blómakerjum en nokkrum dögum síðar réðust menn á beðin eins og menningarbyltingin væri skollin á aftur og hökkuðu kálið og slitu það upp með þvílíku offorsi að við höfðum aldrei séð aðrar eins aðfarir við garðrækt. Stuttu síðar (mjög stuttu síðar) var búið að gróðursetja rauðar og fjólubláar stjúpur af álíka krafti út um allan bæ. Þegar ég kom að Zhongshan-garði í morgun var þar her manns að rífa upp stjúpurnar og planta gulum og appelsínugulum flauelsblómum og það sem meira var, fimm metra háa jólatréð sem hefur staðið á upphækkuðum hól, fullskreytt með stjörnu og alles síðan við komum (ja eða sennilega síðan fyrir jól ...) var HORFIÐ!!!! Í stað þess var þarna bara einmana moldarhrúga. Ég bíð spennt eftir því hvað kemur í staðinn.
En annars er sumarið komið hér í Kína, hitinn er yfirleitt 18 -20 stig en ekki alltaf sól. Reyndar höfum við rekið okkur á að það rignir alltaf á laugardögum sem okkur finnst frekar hvimleitt því að demburnar geta orðið allsvakalegar. Síðasta laugardag var spáð sól og blíðu og ákváðum við því að taka lest út fyrir borgina og skoða einn af "kanalbæjunum" hér í kring en þeir eru við Yangzi-fljótið og eru einskonar feneyjar. Við fórum til Suzhou sem er einna stærsti bærinn og þar er margt að skoða. Við keyptum lestarmiða á síðustu stundu svo ekki voru til miðar nema á fyrsta farrými. Bærinn er 100 km frá Shanghai en ferðin tók einungis 30 mínútur enda fór lestin á 260 km hraða.
Við skoðuðum safn tileinkað sögu silkisins sem er nátengd verslunar- og samgöngusögu Kína. Þá fórum við líka upp í pagóðu sem er hæsti slíki turn í Kína, alls níu hæðir og í hefðbundinn kínverskan garð. Það var gaman að komast út úr borginni og töluvert annar bragur á verslunum og veitingastöðum í Suzhou en í Shanghai. Þar voru líka miklu færri vesturlandabúar og vöktum við töluverða athygli. Við hittum menn sem vildu fá að taka myndir af sér með strákunum og veittu drengirnir góðfúslega leyfi fyrir myndatökunni. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skiptið sem við lendum í þessu en Elmar hefur alloft verið spurður hvort hann sé til í myndatöku. Honum fannst þetta svo óþægilegt á tímabili að hann var jafnvel að hugsa um að gefa draum sinn um atvinnumennsku í fótbolta upp á bátinn því það væri ömurlegt að vera svona "frægur". Nú er hann hins vegar orðin vanur þessu og finnst þetta ekkert mál.
Það sem einkenndi þennan ágæta dag öðru fremur var rigningin. Það byrjaði að rigna um leið og við stigum út úr lestinni og því keyptum við okkur regnhlífar. Í Suzhou er ekkert metró og færri leigubílar en í Shanghai en hins vegar mikið um fólk á reiðhjólum með vögnum. Við höfum aldrei þorað í svoleiðis farartæki hér í borginni enda umferðin snarklikk en nú var ekki annað í boði. Ákaflega elskuleg stúlka keyrði með okkur eins og herforingi að silkisafninu á mótorhjólinu sínu. Næst þegar við þurftum á flutningi að halda birtist hún aftur eins og fyrir töfra og hjólaði með okkur á nýjan leik. Í lok dags brast hins vegar á þvílík demba og þá þurftum við einmitt að koma okkur á lestarstöðina. Það var vonlaust að reyna að fá leigubíl þannig að við tókum hjólavagn í þriðja skiptið sem öslaði með okkur í þessu syndaflóði. Það þarf ekki að taka það fram að þótt það hafi vissulega verið tjald yfir hjólinu blotnuðum við allsvakalega því vatn göslaðist inn í vagninn frá hliðunum en við skemmtum okkur bara vel og skellihlógum alla leiðina.
Lestarferðin heim á leið tók helmingi lengri tíma enda var það bara venjuleg lest og við á venjulegu farrými. Við fórum fyrst inn í biðsal áður en hleypt var að lestinni. Þar fórum við í einfeldni okkar í röð við hliðið út á brautarpallinn og biðum þar töluverða stund því lestin var sein. Allt í kringum okkur sátu hins vegar Kínverjar og og höfðu það náðugt. Svo heyrðist kallið og þótt enn væru 10 mínútur í brottför og lestin alls ekki komin spruttu allir á fætur og fóru að ryðjast út. Kínverjar læra það seint og illa að þeir komast ekki allir í einu á tiltekin stað. Menn ýttu og tróðust eins og allur hópurinn væri að missa af lestinni. Þegar á brautarpallinn var komið var lestin ekki einu sinni komin en þegar hún kom tók ekki betra við. Reyndar voru verðir sem gættu þess að menn kæmust ekki inn fyrr en farþegarnir sem voru að yfirgefa lestina voru komnir út en svo hófst troðningurinn aftur. "Ég þori að veðja að þegar við komum inn situr eitthvað fólk í sætunum okkar" sagði Jói og það reyndist alveg rétt hjá honum. Þar voru einmitt nokkrar eldri konur sem sátu við þá sóðalegu iðju að éta sólblómafræ. Við bentum þeim góðfúslega á að miðarnir væru númeraðir og þetta væru sætin okkar og þá spruttu þær á fætur og settust í næstu lausu sæti. Þar sátu þær í hálfa mínútu þar til eigendur þeirra sæta komu og ráku þær burt og svona gekk þetta koll af kolli. Af hverju þær gátu ekki bara sest í sín eigin sæti er okkur hulin ráðgáta.
Næstu helgi verðum við heima því Jói þarf að læra undir próf og skrifa ritgerðir og Elmari Tryggva er boðið í barnaafmæli á eitt af flottari hótelunum hér í borg. Hann hlakkar mikið til því, ekki síst vegna þess að honum hefur löngum þótt við foreldrar hans hálfgerðir ónytjungar þegar kemur að lúxus í ferðalögum. Hann hefur nefnilega aldrei gist á 5 stjörnu hóteli og hefur oft hreinlega kvartað yfir undarlegri forgangsröðun okkar. Hins vegar finnst mér hann hafa ansi óraunhæfar hugmyndir um afmælisveislur á fínum hótelum því hann trúir mér bara alls ekki þegar ég er að reyna að benda honum á að sennilega megi krakkarnir ekki hlaupa um í þessu afmæli. Svo fannst honum líka fáránleg hugmynd hjá mér að hann þyrfti að klæða sig eitthvað upp. Ég heimtaði að kaupa á hann buxur og nýja skó því hann tók bara einar buxur með sér sem ekki eru íþróttabuxur (þær eru samt Nike sko) en vegna mikillar notkunnar eru nú komin þrjú göt á þær. Skórnir sem hann er með eru einnig í henglum. Hann sá að lokum ljósið og samþykkti kaupin. Það verður því hreinn og strokinn ungur maður sem mætir á Regent Shanghai á sunnudaginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2008 | 13:06
Hversu vitlausir geta þessir menn verið?
Þetta blogg á nú ekki að vera um þjóðmálin en ég trúi bara ekki þessari frétt.
Hversu mikla óvirðingu er hægt að sýna þjóðhöfðingja þessarar landlausu þjóðar? Halda þessir hálfvitar að Palestína sé eitthvert olíuveldi eða hvað?
Palestínska þjóðin býr við skelfilega neyð sem við flest getum ekki einu sinni ímyndað okkur hvað þá meira. Ástandið á svæðinu virðist vonlaust en ef forseti Íslands getur eitthvað gert til að miðla málum finnst mér að hann ætti að fá frið til þess. Ég skammast mín fyrir að vera Íslendingur.
Bílstjórar stefna að Bessastöðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.4.2008 | 10:56
Skýr skilaboð
"Bi White" og "White Power" eru meðal slagorða snyrtivöruframleiðanda sem selja krem sem eiga að hvítta húðina. Fyrst þegar ég kom hingað fannst mér þetta frekar fyndið og dæmi um það hvernig mannskepnan er alltaf óánægð með sjálfa sig og vill alltaf það sem er utan seilingar. Ég viðurkenni fúslega að eiga eina eða tvær túpur af brúnkukremi heima í skáp. Aflitunarkrem virðast mér hins vegar einhvern veginn dramatískari og óhollari fyrir húðina en brúnkukremin sem eiga að vera skaðlaus. Hins vegar er rétt að benda á að fyrir nokkrum árum stundaði fólk ljósabekki í tíma og ótíma þótt sýnt hefði verið fram á að þeir kynnu að valda húðkrabbameini og meira að segja sveitarfélögin ráku ljósabekki í sundlaugunum. Ætli hvíttunarkremin séu nokkuð verri?
En það er annað sem mér finnst enn óhugnanlegra og það er hvernig ráða má af húðlit fólks þjóðfélagsstöðu. Menn í jakkafötum og konur í fínum drögtum eru með ljósa húð, hvort sem það er nú af náttúrunnar hendi eða vegna þess að kremin virka. Fólk sem sópar göturnar, þrífur klósettin, vinnur verkamannavinnu eða önnur illa borguð og sóðaleg störf er með dökka húð. Krukka af hvíttunarkremi kostar hálf mánaðarlaun verkamanns og það þarf ekki að reikna lengi til að sjá að stelpan sem selur ávexti hérna úti á götu hefur ekki efni á þeim.
Allar auglýsingar eru gífurlega beinskeyttar hér, alla vega fyrir vesturlandabúa (b.a. gráða í bókmenntafræði sakar reyndar ekki) og ekki verið að búa til flóknar herferðir til að koma að duldum skilaboðum. Konan í White Power auglýsingunni er t.d. mjög vestræn í útliti og í fínni dragt og ekkert verið að rómantísera hana neitt. Hún er það sem hún ætlar sér að vera - hvít og valdamikil. Fyrir okkur sem erum vön því að auglýsendur tali undir rós er þetta ansi sjokkerandi. Og kannski finnst manni verst að það eru vestræn fyrirtæki sem framleiða þessi krem. Þetta eru nákvæmlega sömu merki og við sjáum heima.
Og auglýsingar eru alls staðar! Hugsum okkur Ísland og alla þá staði sem fólki hefur dottið í hug að setja auglýsingar. Á þeim stöðum eru líka auglýsingar hér. Því til viðbótar er búið að selja auglýsingar á óteljandi flatskjái, t.d. í miðbænum og jafnvel heilu háhýsin eru eins og sjónvarpsskjár á kvöldin. Sumir auglýsingaskjáirnir eru með hljóðum. Aðrir eru í þrívídd. Á ánni sem sker borgina sigla bátar með engu öðru um borð nema risavöxnum auglýsingaskjám. Í leigubílum eru iðulega auglýsingarskjáir fyrir farþegana í aftursætinu að horfa á og í gærkvöldi tókum við leigubíl með snertiskjá þar sem við gátum leikið auglýsingatengda tölvuleiki á meðan á akstri stóð. Á símaklefum er sú hlið sem snýr að fjölförnum umferðagötum iðulega flatskjár með auglýsingum og meira að segja í lyftunum hér í blokkinni okkar eru sýndar auglýsingar öllum stundum. Við horfum samviskusamlega á þær bæði upp og niður en föttum sjaldnast hvað verið er að auglýsa. Glerin á rúllustigum eru oftar en ekki þakin auglýsingum og nú nýlega er farið að líma auglýsingar á svarta gúmmíið sem maður heldur sér í líka, Þá eru ónefndir allir krakkarnir sem standa á götum úti og rétta að manni bæklinga, nafnspjöld og annað auglýsingaefni. Við höfum reyndar komist að því (sem betur fer ekki á eigin skinni) að sumir þeirra vinna tveir og tveir saman og eru í raun vasaþjófar en það er önnur saga.
Þessum auglýsingum fylgir oft gríðarlegur hávaði. Kínverjar vilja stuð, annars er ekkert varið í hlutina (og Elmar er alveg sammála þeim). Oft er hljóð með auglýsingunum og enn oftar eru auglýsingarnar bara í formi hávaða. Oft má sjá þokulúðra sem endurtaka í sífellu skilaboð um vöru eða þjónustu fyrir utan litlar verslanir og í matvöruverslunum er starfsfólkið oft með svona lúðra sem það gargar í: komið og prófið kaffi, kaupið fisk í dag, smakkið þessa pulsu. Úr þessu verður gríðarlegur hrærigrautur og stundum finnst manni að þau hljóti að vera ómögulegt að skilja hvað verið er að segja, jafnvel þótt maður skilji málið. Við heyrum alla vega ekki orðaskil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2008 | 02:52
Mótmæli við kaupfélagið
Mótmæli gegn Frökkum í Kína | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2008 | 00:14
Skemmtileg afmælishelgi
Tíminn líður alveg ótrúlega hratt. Nú er dvöl okkar hálfnuð og okkur finnst við nýkomin hingað.
Önnin kláraðist hjá strákunum á föstudaginn þannig að þeir komu heim með einkunnir og stóðu sig báðir mjög vel. Elmar var bara prófaður í lesskilningi og svo skrifaðri ensku og stóð sig vel í hvoru tveggja. Hans fékk mjög góðar einkunnir í öllu sínu og töluvert hærri en við höfum verið að sjá hjá honum heima á Íslandi upp á síðkastið.
Við héldum tvöfalda afmælishátíð um helgina því Elmar á afmæli á miðvikudaginn en þá er ég farin í Boot Camp áður en þeir vakna á morgnanna og Jói kemur ekki heim fyrr en hálftíu á kvöldin þannig að miðvikudagur er vonlaus afmælisdagur og því færðum við bara afmælið. Elmar var búinn að panta aðra ferð í vísindasafnið og þar vörðum við laugardeginum. Við fórum meðal annars í súrelaíska ferð í gegnum meltingarveginn í tívolívögnum. Við vorum með þrívíddargleraugu því hluti af ferðalaginu var þrívíddarbíó. Magnað að þykjast vera matur. Við lágum í hláturskasti. Kínverjar hafa mjög undarlegar hugmyndir um fræðsluefni.
Eftir safnið sem við höfum nú náð að klára að skoða fórum við út í garð sem er þar hjá og keyptum okkur flugdreka. Elmar hafði fengið fótbolta í afmælisgjöf frá bróður sínum þannig að við gátum leikið okkur heilmikið. Vísindasafnið er í Pudong sem er hinum meginn við ána sem sker í sundur borgina. Þar voru eingöngu akrar fyrir 1988 þegar hafist var handa við að byggja upp fjármálahverfið. Nú eru endalausir skýjakljúfar þar og bæði sjónvarpsturninn eða Oriental Pearl eins og hann er kallaður og JinMao turninn sem báðir segjast vera hæðsta bygging í Kína. Við fórum um daginn upp í JinMao en það eru endalausar biðraðir upp í Oriental Pearl og því nenntum við auðvitað ekki. Efst uppi er hins vegar veitingastaður - og eins og í perlunni heima snýst hann. Þangað héldum við því pabbi og mamma buðu afmælispeyjunum út að borða í tilefni dagsins og þurftum ekki að bíða í neinni röð. Takk fyrir það. Uppi í þessari kínversku perlu var glæsilegt hlaðborð með öllu sem manni gæti dottið í hug að fá sér. Þarna áttum við góðar stundir við gluggann og nutum útsýnisins sem var alveg stórkostlegt úr nærri 300 metra hæð. Við fórum svo niður eina hæð en þar er útsýnissvæði og tókum svo lyftu niður í 90 metra hæð sem var líka gaman. Í gær áttum við rólegan dag, fórum út í garð að leika og höfðum það náðugt. Næstu helgi ætlum við að reyna að fara út úr bænum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.4.2008 | 01:23
Afmæli og þrumuveður
Nú er hversdagurinn runninn upp eftir fríið okkar og vinna, skóli, matreiðslunámskeið og hlaupaæfingar teknar við. Það er eins og veðrið sé alveg með á nótunum því eftir dýrðarviku með sól og 20 stiga hita og upp í 25 í Beijing var þoka á mánugdaginn og mikill raki, rigning í fyrradag sem breyttist í ekta íslenska sumarrigningu með roki um miðjan daginn og svo úrhelli og þrumuveðri um kvöldið. Við hættum okkur nú ekkert út í þau ósköp, enda eins gott því hjón hér í borg urðu fyrir eldingu og lést konan í kjölfarið en karlinn er slasaður. Í gær var reyndar þurrt en mjög hvasst og skýjað. Nú er að létta til og svo er spáð blíðu um helgina sem er eins gott því þá er fyrirhuguð mikil afmælishátíð þeirra feðga, Jóhanns og Elmars.
Jóhann á afmæli í dag og þar sem hann er í skólanum á miðvikudagskvöldum notuðum við gærkvöldið til að undirbúa afmælið. Við skruppum út í Cloud nine og náðum að leysa málið í kaupfélaginu. Jóhann fékk gjafirnar sínar í morgun og var feykilega glaður með þær. Hann fékk fjarstýrða þyrlu frá Hansa og ólympíupeysu frá mér. Elmar gaf pabba sínum heilt reiðhjól og veit ég ekki hvor þeirra var ánægðari með það. Fyrir hjólið borguðum við jafn mikið og ég borgaði fyrir standara heima á Íslandi síðast þegar ég keypti hjól. Óvæntasti pakkinn kom hins vegar í gær. Tengdamóðir mín er áhugamanneskja (eða jafnvel atvinnumaður...) um póstsamgöngur og sendi okkur pakka til að komast að því hvað hann yrði lengi á leiðinni. Sá pakki barst í gærdag en við létum Jóa ekkert vita af því þannig að í morgun opnaði hann kassa frá mömmu sinni sem var algjörlega troðfullur af íslensku nammi. Okkur þótti það ekki slæmt. Kærar þakkir Elínbjörg! Jói var að hugsa um að fara með eitthvað af því í skólann og bjóða skólafélögum í tilefni dagsins en við sannfærðum hann um að það væri vond hugmynd og útlendingarnir þar kynnu ekki gott að meta né éta. Elmars afmæli er svo á miðvikudaginn en þá er Jói fram á kvöld í skólanum þannig að við ætlum að halda helgina hátíðlega og gera eitthvað skemmtilegt saman.
Annars er verðlag svo skrítið hérna. Mánaðarlaun verkamanna eru sem svarar 17000 íslenskum krónum. Manneskja með B.A. gráðu er með um 30.000. Af þessu má vel lifa hér í borg ef maður gerir ekki kröfu á mikinn lúxus. Samgöngur eru hræódýrar en ferðir með metróinu kosta 20-50 krónur. Matur er líka mjög ódýr. Hér úti á götu höfum við oft keypt okkur máltíð fyrir alla fjölskylduna á 70 íslenskar krónur. Eru það þá t.d. gufusoðnar eða steiktar brauðbollur með hrísgrjóna, kjöt eða grænmetisfyllingum, grillspjót með kjöti eða fiskmeti eða annað slíkt. Fatnaður og skór í kínabúðum er líka hræódýr og ekki eru borgaðar háar upphæðir fyrir vatn, gas né rafmagn. Sauðsvartur almúinn býr frekar þröngt í blokkum eða litlum húsum sem reyndar er verið að útrýma kerfisbundið, alla vega hér í Shanghai. Hér í kring eru enn fullt af þröngum götum með litlum húsum og virðast hýbýli sumra bara vera eitt herbergi með vaski. Í Beijing var verið að gera upp götuna sem hótelið okkar var við. Þar sá maður að verkamenn bjuggu í pínulitlum vistarverum, kannski svona 7-8 fermetrum þar sem voru kojur og ekkert annað. Þar inni sváfu 3-4 karlar. Í götunni voru svo almenningssalerni fyrir alla íbúana á þremur stöðum svo fólk þyrfti nú ekki að labba of langt. Allt var þetta hreint og snyrtilegt og alls ekki eins og fátækrahverfi. Meira eins og sumarbúðir enda hefur kommúnisminn svosem aldrei lagt mikið upp úr prívatlífi fólks. Lítið er um frídaga hjá fólki og vinnudagurinn er mjög langur. Allar verslanir eru t.d. opnar frá kl. 9 á morgnana til 9 eða jafnvel 10 á kvöldið, alla daga vikunnar. Manni sýnist það að mestu vera sama fólki sem stendur vaktina. Síðasta áratuginn hefur verið vikufrí í kringum 1. maí og auk þess er frí um kínversku áramótin. Skapast hefur ófremdarástand í samgöngumálum þannig að nú er verið að breyta þessu. Áfram verður frí um áramótin (sem eru í febrúar eða mars), svo var frí hjá fólki s.l. föstudag vegna hátíðar þar sem hefð er fyrir því að fólk fari að gröfum og grafhýsum ættingja og hreinsi til og minnist látinna. Ekki hefur áður verið gefið frí vegna þessa. 1. maí fríið varður í ár aðeins tveir dagar en svo á að gera tilraun með sumarfrí í staðin sem er nýjung og skilst mér að þá eigi ekki allir að fá frí í einu eins og hina frídagana. Fólk hættir hins vegar að vinna frekar snemma á lífsleiðinni, kennarar og ýmsir opinberir starfsmenn geta t.d. lagt niður störf upp úr 50 ára en almenningur 60-65 ára. Ellilífeyrir er hins vegar af skornum skammti, aðeins sem svarar 8000 íslenskum krónum. Því er setið um allar ruslatunnur hér í borginni og safnar gamla fólkið flöskum og fær um eina krónu fyrir hverja þeirra. Þegar við vorum á Kínamúrnum voru margir gamlingjar á múrnum að bíða eftir að ferðafólkinu þóknaðist að klára úr vatnsflöskunum sínum til að hirða þær. Hér er hefð fyrir því að börnin (lesist sonurinn) hugsi um aldraða foreldra sína. Vandinn er sá að vegna einbirnisstefnunnar getur mikið hvílt á herðum einnar fjölskyldu. Hjón á okkar aldri eiga oftast eitt barn en tvö sett af foreldrum sem e.t.v. eru hættir að vinna og rétt skrimta á ellilífeyrinum. Hér er heilsufar almennt gott og lífaldur sambærilegur við það sem best gerist á vesturlöndum og því er vel hugsanlegt að hjónin eigi bæði afa og ömmur sem ekki eiga aðra vinnandi afkomendur en þau. Því getur mikil framfærsluskylda hvílt á herðum eins einstaklings. Í Kína eru líka töluvert fleiri ungir karlmenn en konur ólíkt því sem gerist þegar náttúran fær að ráða (þá eru kvendýrin fleiri) og því milljónir einhleypra karlamanna í Kína.
Hér í Shanghai býr hins vegar hellingur af fólki sem vinnur stjórnunarstöður hjá vestrænum fyrirtækjum, lifir vestrænu lífi og fær vestrænar tekjur. Á hverju strái eru verslunarmiðstöðvar fullar af rándýrum varningi sem er vart á færi almennings að kaupa. Margar verslunarmiðstöðvar eru bara með súperfínar búðir eins og Gucci og Prada og hvað þetta heitir allt og maður nennir ekki einu sinni að skoða í búðarglugga því verðið er absúrd, t.d. mörg hundruð þúsund fyrir litla tösku. Í Kína eru fleiri miljarðamæringar en í Bandaríkjunum þannig að það er greinilega markaður fyrir lúxusvarning. Einn dýrasti matur sem við höfum keypt hérna (fyrir utan laxinn góða) er á Pizza Hut. Á slíkum stöðum er verðið bara það sama og það væri á matseðlinum í Bandaríkjunum eða Evrópu (nema auðvitað á Íslandi þar sem allt er helmingi dýrara). Það sama á við um aðrar vörur sem fást á vesturlöndum, alla vega ef það eru sömu merki og maður er vanur. Þær eru frekar dýrar. Ég sá til dæmis þunna Nike hettupeysu sem mig langaði í og kostaði hún 6000 íslenskar krónur. Kínversk peysa væri bara á nokkra hundraðkalla. Það vantar alveg millistig í verðlaginu, hér eru hlutirnir annað hvort dýrir eða ódýrir - eiginlega ekkert þar á milli. Kaffibolli á Starbucks (en þeir staðir eru bókstaflega alls staðar) kostar 280 krónur en salatbakki með kjúklingabringu á sama stað sem dugar í hádegisverð og rúmlegar það (og er framleiddur af íslensku fyrirtæki) kostar bara 200 krónur.
Innkaupakarfan okkar er oft skrítin. Innlendu vörurnar, t.d. kjöt, grænmeti og ávextir kosta ekki neitt en um leið og eitthvað innflutt flýtur með er verðið fljótt að hækka. Franskur camembert er t.d. á 600 kall og innflutt vín í sæmilegum gæðum á um 1000 kall. Við prófuðum einu sinni að kaupa kínverkst rauðvín en helltum því, það var svo vont. Kínverskur poki af doritossnakki er á 50 kall en 300 kall ef það er innflutt. Allt kaffi nema neskaffi er líka rándýrt og ekki hægt að fá kaffipoka á minna en 5-600 krónur. Gos er mjög ódýrt, um 20 krónur flaskan en getur kostað tífallt það á veitingastöðum og kostað meira en máltíðin. Maður er því eiginlega alvega ruglaður í verðinu - stendur sig að því að velta fyrir sér aurum í innkaupunum en slæsa svo í lúxusinn án umhugsunar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2008 | 14:54
Einelti
Miðasala á James Blunt hefst á fimmtudag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.4.2008 | 14:49
Komin heim en þó ekki
Það var skrítið að koma heim í tóma íbúðina eftir okkar vel heppnuðu Beijing-reisu. Enginn Loki, engir vinir og ættingjar til að heyra ferðasöguna, bara tómur ísskápurinn. Til að bæta gráu ofan á svart keyptum við Jói "íslenskan" kvöldmat en eftir að hafa borðað á veitingarstöðum í viku langaði okkur í mömmumat. Því var boðið upp á lax sem var steiktur í dönsku smjöri, soðnar kartöflur, salat úr gúrkum og tómötum eins og amma hafði alltaf og soðinn aspars. Lax er reyndar dýrasta hráefnið sem hægt er að finna og ég hef bara einu sinni keypt smá stykki áður sem ég notaði með tígrisrækjum sem eru hræódýrar. Nú keyptum við laxasteikur á 1800 krónur íslenskar kílóið. Til samanburðar má geta að kílóið af kjúklingabringum er á 350 krónur. Svo hlustuðum við á hádegisfréttirnar á RÚV á netinu. Og ég sem var að hugsa síðast í gær að þrír mánuðir í þessu landi væri allt of stuttur tími. Nú langaði mig pínulítið heim. Við drifum okkur því bara út í göngutúr og fengum okkur ís á ColdStone sem fyrir þá sem ekki vita er besta ísbúð í heimi.
Annars var ferðin okkar afar vel heppnuð og það undarlega gerðist að við versluðum alveg fullt. Undarlegt því við höfum nánast ekki keypt neitt síðan við komum hingað - okkur finnst alltaf að við getum nú bara gert það seinna. Nú vorum við í túristagírnum og þurftum meira að segja að kaupa aukatösku. Elmar gerði stórinnkaup, keypti sér ný spariföt - drengurinn sem hefur verið í gallabuxum síðustu tvenn jól. Næst verður það silki frá toppi til táar. Eins og flestir vita hefur drengurinn einfaldan smekk og gengur aðeins í íþróttafötum en ég náði að kaupa tvo "adidas"-galla á hann á kúk og kanil. Hansi fékk Billabong hettupeysu og rosaflotta vindhelda flíspeysu í unglingavinnuna. Höfundaréttur er ekki tekinn gildur hér í alþýðulýðveldinu, hér eiga allir allt saman. Yfirvöld hafast því ekkert við þótt verið sé að selja svikna vöru. Feikið er að mér skilst þrenns konar; föt eða vörur sem merktar eru einhverjum þekktum framleiðanda til að gera hana girnilegri, vörur sem eru endurgerð á merkjavöru og svo merkjavara sem er framleidd en ekki afhent réttum framleiðanda. Verksmiðjan fær kannski það verkefni að framleiða 50 þúsund jakka en framleiðir 50 þúsund í viðbót sem fara á svarta markaðinn. Trixið er svo að þekkja muninn og reyna að kaupa eitthvað sem dettur ekki fljótlega í sundur. DVD diskar kosta 7 yuan eða um 70 íslenskar krónur. Ef maður kaupir sjónvarpsþáttaseríu þá fer verðið eftir því á hve mörgum diskum hún er á. Engu að síður er oft lagt mikið í umbúðir og frágangur flottur. Elmar á PSP tölvuspil og ætlaði aldeilis að kaupa sér leiki hér í hinu ódýra Kína. Þrátt fyrir að annar hver maður sé með PSP í lestinni fundum við hvergi leiki til sölu. Eftir að hafa kynnt okkur málið á útlendingaspjalli á netinu komumst við að því að hér spilar fólk eingöngu sjóræningjaútgáfur. Elmar komst því í feitt í gær þegar hann keypti 96 leiki á einu bretti á verði sem nemur u.þ.b. 1/3 af verði eins leiks á Íslandi.
Beijing er sundurgrafin því kínverjarnir virðast ætla að gera að minnsta kosti annað hvort hús í borginni upp eða jafnvel endurbyggja það. Tvö söfn sem okkur langaði að skoða voru lokuð vegna framkvæmda, götur voru sundurgrafnar og heilu hverfin óaðgengileg. Mér þætti gaman að sjá hvort þeim tekst að klára þetta allt áður en opnunarhátíðin rennur upp. Herinn er þjóðnýttur í þessar framkvæmdir og jafnvel hér í Shanghai sér maður hermenn vera að mála og þrífa. Það var ótrúlega gaman að fylgjast með þessum framkvæmdum þótt ég teljist nú seint áhugamanneskja um húsbyggingar. Í litlu götunni "okkar" sem hótelið stendur við var verið að endurbyggja fjölmörg hús frá grunni og ég efast um að aðferðirnar hafi breyst mikið síðustu árhundruðin. Grindin er gerð úr bjálkum og eru digrir trjástofnarnir hreinsaðir á staðnum, börkurinn skafinn af. Svo eru húsin hlaðin og eru múrsteinsstaflar og sandhaugar um allt. Til að sigta sandinn eru þeir með grindur með þéttu vírneti sem þeir moka sandinum ofan á. Steypan er svo blönduð á staðnum. Mikilvægasta byggingarverkfærið eru hjólbörurnar og eina nútímaverkfærið sem ég sá var vélsög sem notuð var á trjádrumbana. Við fylgdumst líka með byggingu háhýsis við aðalverslunargötuna og þrátt fyrir krana og stórtækar vélar voru menn með hjólbörur í aðalhlutverki. Á Þjóðminjasafninu sem stendur við Torg hins himneska friðar (og var lokað vegna endurgerðar) var stórt skilti sem taldi niður í leikana og alls staðar er mikil ólympíustemning. Ég vona bara að það mæti einhver.
Stemningin í þessum tveimur borgum er ótrúlega ólík. Í Beijing er sagan og fortíðin ákaflega sýnileg og gaman að skoða gömul hof og hallir. Umferðin er hins vegar mun hraðari, leigubílstjórar upp til hópa varasamir og reyna að svindla á manni og keyra án þess að setja mælinn í gang eða neita jafnvel að keyra mann. Hér í Shanghai höfum við bara einu sinni lent í leigubílstjórum sem reyndu að svindla á okkur og það var í IKEA og þrátt fyrir að umferðin hér virðist fáránlega flókin sýna menn mun meiri tillitssemi en í Beijing þar sem bílstjórarnir liggja á flautunni lon og don. Í Beijing eru flest smábörn í hefðbundnum fötum, það er með gat á rassinum á buxunum og klósett eru flest öll bara hola. Hér er helmingurinn oft vestræn klósett en stundum eru skóför á setunum. Sumum finnst nefnilega ógeðslegt að setjast á klósett og prýla frekar upp á setuna og sitja þar á hækjum sér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2008 | 15:39
Enn á lífi
Við erum öll enn á lífi þrátt fyrir að hafa étið sporðdreka. Þeir voru enn spriklandi á spjótunum þegar við keyptum þá en svo tók kokkurinn til við að steikja. Nokkrum mínútum seinna stóðum við með spjótið í höndunum og Elmar, hvatamaðurinn að þessu öllu, ætlaði sko ekki að smakka. Jói og Hansi voru ólmir í að vera fyrstir en ég fylgdi í kjölfarið og að lokum Elmar. Það er skemst frá því að segja að sporðdrekinn bragðaðist ágætlega og við værum til í fleiri. Hansi á vídeó af þessu öllu saman ef þið trúið okkur ekki.
Í dag skoðuðum við meðal annars matarmarkað þar sem ALLT var í boði, meðal annars sæhestar, krossfiskar, slöngur og meira að segja hundakjöt. Við þökkuðum pent fyrir en smökkuðum hins vegar grillað dádýr sem var prýðilegt.
Hér hefur tekið sig upp mikið töframannaæði. Þetta byrjaði með því að Elmar keypti sér kassa með galdradóti og náði strax tökum á nokkrum göldrum, þar á meðal galdri þar sem hann lætur eldspýtu fljóta í lausu lofti yfir spili og falla svo niður á spilið, sem ég SKIL ALLS EKKI. Þeir keyptu sér svo sitt hvort settið áðan og svo tók ég að mér að prútta fyrir tvö önnur sett. Menn eru mikið að æfa sig og þegar heim er komið verður sko sett upp mikil sýning. Þeir bræður hafa alla vega eitthvað fyrir stafni á meðan.
Á morgun ætlum viðað skoða sumarhöllina og kannski eitthvað fleira.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)