3.4.2008 | 03:44
Viðburðaríkir dagar
Í fyrradag frestuðum við Kínamúrsferðinni vegna rigningar en fórum þess í stað að heilsa upp á Maó karlinn sem sefur í kistunni sinni eins og Þyrnirós og er til sýnis fyrir hádegi. Þetta var nú eiginlega þriðja tilraun hjá okkur því við ætluðum eftir að hafa skoðað Forboðnu borgina en þá var klukkan orðin of margt. Svo ætluðum við daginn eftir en þá var torgið lokað eins og ég bloggaði um áður. Við héldum að þar væri þjóðhöfðingi á ferð en lásum svo í Fréttablaðinum á netinu að hlaupið hafði verið með ólympíueldinn á torginu og upp í Forboðnu borgina. Við höfðum sem sagt óvart orðið vitni af því en við sáum einmitt mikla skrautsýningu á torginu! Þetta virðist nú lítið hafa verið auglýst því enginn hér á hótelinu vissi hvers vegna torgið hafði verið lokað.
En Maó-heimsóknin var alveg mögnuð. Við byrjuðum á að fara í aðra byggingu og láta geyma allar töskur og myndavélar. Svo fórum við í röð sem gekk mjög hratt og lá frá torginu, í gegnum öryggishlið, inn í grafhýsið, framhjá styttu af karlinum þar sem fólk gat lagt blómvendi og inn í herbergið þar sem þessi pínulitli einræðisherra sefur sínum eilífðarsvefni ofan í kistu undir glerhjálmi. Hann var ótrúlega eðlilegur en soldið glansandi og það virtist ekkert vera farið að slá í hann. svo hélt röðin áfram og sumir fóru grátandi út. Ekki við þó. Ég keypti mér þó Maó hálsmen á 150 kall íslenskar til minningar um heimsóknina. Þvínæst héldum við á safn um sögu borgarinnar sem er í næsta húsi í einu af gömlu borgarhliðunum. Þetta var reyndar ekkert sérlega merkilegt safn en ótrúlega gaman að fara inn í borgarhliðið og komast upp á þakið og virða torgið fyrir sér.
Eftir hádegið fórum við svo og skoðuðum Temple of Heaven sem ég man ekki hvað heitir á íslensku. Þangað fóru keisaranir og báðu fyrir góðri uppskeru. Þetta var virkilega góður dagur og ekki var gærdagurinn síðri.
Við vöknuðum upp úr sex því að þeim stað á múrnum sem við ætluðum er nærri fjögurra klukkustunda akstur. Skrjóðurinn sem við fórum í leit nú reyndar alls ekkert út fyrir að geta keyrt í fjórar klukkustundir í viðbót en við komumst á áfangastað og aftur til baka slysalaust sem var eins gott því lítið fer fyrir bílbeltum hér í Miðríkinu og einn sætabekkurinn var laflaus.
Við gengum 10 kílómetra leið uppi á múrnum og fórum fram hjá 30 turnum. Það var algjörlega stórkostlegt. Þar sem við fórum þetta langt frá Beijing og erum þetta snemma á ferðinni var mjög lítið um túrista þannig að við náðum að upplifa kyrrð sem hefur ekki verið í boði síðan við komum hingað (og hreint loft). Gangan var nokkuð erfið því múrinn er víða ótrúlega brattur svo maður verður eiginlega að skríða upp og niður. Auk þess hefur hann ekki verið endurgerður að öllu leyti þannig að sums staðar er mikið hrunið úr honum og maður verður jafnvel að ganga til hliðar við hann.
Þetta var fín æfing fyrir hlaupið í maí og gaman að sjá aðstæður. Það er reyndar ekki hlaupið á sama stað en miðað við myndir hugsa ég að þetta sé svipað. Þarna uppi í fjöllunum fer frostið á veturna niður í 28°en hitinn á sumrinn upp í 35° þannig að munur á sumri og vetri er gífurlegur. Mongólskar bændakonur eltu okkur og reyndu að spjalla við okkur og selja okkur minjagripi og ákváðum við að láta þær ekki fara í taugarnar á okkur heldur reyna frekar að spjalla bara við þær og urðum margs vísari.
Í dag ætlum við á rölt og á næturmarkað í kvöld en Elmar er búinn að bíta það í sig að við ætlum öll að éta sporðdreka þar. Ef ég lifi það af mun ég blogga síðar.
Kveðjur frá Beijing
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2008 | 12:14
Pekingendur og aðrir furðufuglar
Við skruppum út að borða í gærkvöldi og fundum agalega huggulegan stað hér í næstu götu. Svo skemmtilega vildi til að matseðillinn sem við fengum var bara á kínversku en myndskreyttur mjög. Ómögulegt var þó að geta sér til hvað var á myndunum nema við sáum þessa fínu pekingönd og þar sem við erum nú í Beijing fannst okkur alveg tilvalið að fá okkur svoleiðis. Stúlkan sem tók við pöntuninni talaði eiginlega enga ensku og þar sem kínverskukunnátta okkar er enn mjög fábrotin (en fer þó skánandi) kallaði hún til svein nokkurn sem kláraði að taka pöntunina. Málið var að það tekur 50 mínútur að elda svona önd. Þau vildu því að við pöntuðum eitthvað fleira sem við gætum borðað á meðan öndin væri í ofninum. Við vorum ekki á því og tilkynntum að við vildum bara bíða. Það þótti þeim ákaflega undarlegt. Nú, öndin kom stundvíslega eftir 50 mínútur og með henni tvær sósur, ýmiskonar grænmeti og litlar hveitikökur til að rúlla bitunum upp í. Þetta bragðaðist afskaplega vel og vorum við öll södd og sæl þegar þjónninn kom aftur og spurði okkur hvað við vildum gera við líkið (What do you want to o with the body?). Í boði var að steikja það eða sjóða súpu. Við völdum það síðarnefnda og fengum því súpu í eftirrétt.
Dagurinn í dag hefur verið rólegri en gærdagurinn. Við ætluðum í grafhýsi Maos en hér er einhver þjóðhöfðingi í heimsókn sem var að skoða það og forboðnu borgina þannig að svæðið var lokað þannig að við röltum bara um og höfðum það náðugt. Í fyrramálið ætlum við hins vegar á Kínamúrin og verðum sótt kl. 6:30 í fyrramálið. Við förum að okkur skilst lengra en flestir túrhestar og löbbum á milli tveggja bæja en það er fjögurra tíma ganga. Við ætlum því snemma í háttinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2008 | 11:35
Beijing
Nú erum við komin til Beijing, komum í morgun eftir að hafa tekið næturlest í gærkvöldi en lestarferð hingað tekur ellefu og hálfa klukkustund. Í þessu "stéttlausa" þjóðfélagi er bannað að tala um 1. klassa og 2. klassa þannig að lestarfarrýmin eru skilgreind sem soft bed og hard bed. Við vorum í ótrúlega hörðu rúmi í soft bed í annars afar glæsilegum lestarklefa. Þarna var líka ljómandi veitingastaður og gekk ferðin vel.
Ég fann ótrúlega flott en fremur ódýrt hótel á netinu sem er feykilega skemmtilegt í göngufæri frá Forboðnu borginni og Torgi hins himneska (ó)friðar. Hótelið er í 250 gömlu "courtyard" sem er lítil byggð með garð í miðjunni sem gjarna var í sömu fjölskyldu en ekki endilega. Í kringum húsið var og er lítill borgarveggur. Þetta hefur verið gert upp í kínverskum stíl og hér eru rekkjur með silkitjöldum og alls kyns fínerí. Strákarnir segjast aldrei hafa séð annað eins.
Daginum eyddum við á göngu - fórum fyrst í ríkislistasafnið en svo skoðuðum við Forboðnu borgina og eftir það vorum við alveg búin á því og komum og hvíldum okkur. Við áttuðum okkur svo á því að við vorum búin að vera á rölti í nærri 8 tíma og ganga 10-12 kílómetra miðað við að við höfum bara gengið beint en það gerðum við alls ekki því við þvældusmt um sýningarsali og höllina og hallargarðinn - tíminn líður svo sannarlega hratt þegar margt skemmtilegt er að skoða.
Hugmyndin var að vera hér í fjórar nætur en fara svo til Xu´ian og skoða leirhermennina. Þegar til kom voru lestarmiðar á þeim tíma sem okkur hentar hins vegar uppseldir. Ótrúlegt vesen á þessu því almenningur má ekki kaupa lestarmiða fyrr en í fyrsta lagi 5 daga fyrir brottför, fyrr koma miðarnir ekki í sölu. Ekkert verður því af þeirri ferð í bili en hótelið gat pantað fyrir okkur lestarmiða aftur heim til Shanghai næsta laugardag/sunnudag þannig að ekki verðum við innlyksa hér. En hér er nóg að skoða í heila viku svo við erum alveg sátt við þetta fyrirkomulag og getum verið hér á þessu frábæra hóteli aukanæturnar.
Bloggar | Breytt 31.3.2008 kl. 11:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2008 | 15:50
Boot camp og brjálað að gera!
Ég er búin að finna Boot camp tíma hérna í Shanghai og ætla að vera í þeim annan hvern dag á móti hlaupunum. Fyrsti tíminn var í morgun en mér tókst að villast aðeins. Ég tók leigubíl sem skildi ekki alveg hver ég var að æða þarna um sexleytið og ók mér að einhverju musteri og sagði mér að labba restina því gatan að musterinu var lokuð. Þarna voru logandi eldar í tunnum og fólk streymdi víðsvegar að til bænagjörða og það eina sem honum datt í hug að ég gæti verið að gera á þessu svæði á þessum tíma dags var að iðka trú mína. Þegar ég fann ekki líkamsræktarstöðina hringdi ég í þau og fann nýjan leigubíl sem var lóðsaður á réttan stað í gegnum síma. Ef einhver hneykslast á því að ég skuli vera að taka leigubíla í líkamsrækt vil ég benda þeim á að hér kostar minna í leigubíl en í strætó á Íslandi.
Annars var stórkostlegt að upplifa borgina svona við sólarupprás í morgunkyrrðinni. Það voru eiginlega engir bílar á götunum en mörg hjól að flytja ýmsar vörur. Ég sá t.d. tvö hjól að flytja heila svínsskrokka. Annar var að vísu á svona þríhjóli sem eru notaðir sem flutningabílar hérna en hinn var bara á tvíhjóli með tvo svínsskrokka í heilu lagi á böglaberanum.
Boot camp tíminn var fínn en kannski ekki alveg eins og ég er vön. Þjálfarinn er grískur og nemendurnir víðs vegar frá. Það er greinilega mikil hætta á vökvaskorti í Griklandi því þjálfarinn sagði okkur örugglega svona tuttugu sinnum að fá okkur vatn. Þrjár armbeygjur, fáið ykkur nú að drekka, nokkrar hnébeygjur, fáið ykkur að drekka! Ég sem hef varla drukkið deigan dropa við æfingar frá áramótum. En þetta var fínt. Aðallega var nú bara gaman að hitta annað fólk en mína ágætu og heitt elskuðu fjölskyldu og svo voru æfingarnar líka fínar og góð tilbreyting. Við fórum á lítinn hverfisíþróttavöll og þar var auðvitað múgur og margmenni að labba afturábak og svona. Amerísk stelpa sem er búin að búa hérna lengi segir að fólk geri þetta á hlaupabrettunum á líkamsræktarstöðvunum líka. Þetta byggist víst á einhverjum kenningum um að þú eigir að vinda ofan af líkamanum með því að labba ekki bara fram heldur líka aftur! Þið getið reynt þetta heima ...
Eftir Boot campið labbaði ég heim og fékk mér morgunmat á leiðinni, eins konar pönnuköku sem bökuð er á stórri hellu á götuhornum. Ofan á deigið skella þeir einu eggi sem þeir dreifa um kökuna og ofan á það koma ferskar kryddjurtir, smá grænmeti, baunamauk, chilli og laufabrauð, reyndar í þykkara lagi. Þessu er svo rúllað upp, namm, namm. Fyrir þetta greiddi ég sem svarar 20 íslenskum krónum og var södd og sæl til hádegis.
Það er fullt að gera hjá mér núna því við ætlum í ferðalag í næstu viku og ýmis verk sem þarf að ljúka fyrir þann tíma. Strákarnir fara í sitt ameríska vorfrí og við vorum með ýmsar vangaveltur um hvernig best væri að nýta þetta frí og Jói ætlaði jafnvel að skrópa einn dag en það er svo frí í skólanum hjá honum á föstudaginn eftir viku. Við ætluðum til Beijing aðra helgina og að skoða leirhermennina hina en heim á milli. Svo hugkvæmdist okkur að biðja bara um frí í skólanum hjá Jóa og þar á bæ sögðu menn bara have a good week þannig að við erum öll í fríi jibbí! Því miður er Jói í prófi á föstudagskvöldið þannig að við getum ekki tekið næturlest til Beijing fyrr en á laugardagskvöldið. Þetta er 12 tíma ferðalag og best að upplifa það bara sofandi. Þannig sparar maður líka hótel. Annars verðum við á ferlega skemmtilegu hóteli í Beijing sem er í 250 ára gömlu húsi sem er í kringum 500 ára gamlan garð. Það lítur afar skemmtilega út á netinu vonum að það verði jafn flott í kjötheimi.
Annars er bjálað að gera í félagslífinu hjá mér því á morgun byrja ég í matreiðslunámi. Ég verð í læri hjá tælenskum kokki sem er gestakennari en í apríl mun ég nema kínverska matargerð. Ég held að þetta verði mikið stuð.
Annars höfum við hjónin staðið fyrir skemmtilegu verkefni tengdu matargerð. Synir okkar hafa verið soldið að kvarta þegar þeir koma með okkur í matarinnkaupin og svo er hann Hansi stundum eitthvað svo lost og ekkert að hugsa um hvert við erum að fara og hvernig við komumst þangað. Verkefnið fólst í því að honum voru réttar 200 yuan og sagt að redda mat fyrir fjögurra manna fjölskyldu. Jói fylgdi á eftir með nýju vídeókameruna hans og tók myndir af herlegheitunum. Hann ætlaði fyrst bara á KFC hérna hinum meginn við götuna en Jói sagði honum að fara í búðina. Hann fann mollið en það tók víst ansi langan tíma að finna búðina og ég lái honum ekki fyrir það. Þar snérist hann í endalausa hringi en kom að lokum út með hakk og hamborgarabrauð (tilbúnir hamborgarar fengust ekki) og úr þessu var fínn matur. Elmar vildi náttúrulega ekki vera minni maður þannig að í kvöld snæddum við kjúklingaleggi í chillí og sítrónu með tortillaflögum, ananas, tómötum og jarðarberjum! Í bæði skiptin tók það þá einn og hálfan tíma að kaupa í matinn!
Annars er vor í lofti hérna, hitinn á daginn fer í 18°sem er kjörhitastig fyrir homo sapiens og flesta daga er sól en þegar rignir þá rignir. Hér eru blómstrandi magnólíutré, kirsuberjatré, eplatré, ferskjutré og ég veit ekki hvað ... Þetta er dásamlegt líf en ekki frjálst líf. Við komumst enn ekki inn á mbl eða vísir en þeir þora ekki að loka cnn og er mikið stríð háð á þeim vígvelli. Jói keypti china daily í dag og þar er forsíðufréttin af kínverskum nemum í útlöndum (stendur ekkert hvaða útlöndum) sem hafa tekið höndum saman og stofnað samtök til höfuðs ósanngjörnum fréttaflutningi cnn sem þeir segja rógbera illra vestrænna afla. Elínbjörg mun því (vonandi) setja þessa færslu inn fyrir mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2008 | 11:35
Hundlaust
Nú eru allir komnir í skólana sína aftur og mannlífið og umferðin æðir framhjá án þess að renna í grun um að á Íslandi sé lögbundinn frídagur. Rétt í þessu heyri ég hins vegar í flugeldum sem er nú reyndar daglegt brauð þannig að einhver er sjálfsagt að gera sér glaðan dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.3.2008 | 22:24
Föstudagurinn langi
Nú er föstudagurinn langi og lífið gengur sinn vanagang. Strákarnir fóru í skólann í morgun og voru bara sáttir við það þótt þeir viti að heima á Íslandi séu allir í páskafríi. Hér í landi trúleysingjanna er ekki haldið upp á páskana og hvergi páskaegg nég skraut að finna. Við vorum með lítil nóapáksaegg að heiman í eftirrétt áðan til að minna okkur á hvaða hátíð er.
Hér eru hins vegar jólatré á hverju strái. Í gær fórum við Jói í smá útréttingar. Við þurftum að fara í banka og skipta peningum fyrir leigunni (sem betur fer skiptum við fullt af krónum í dollara í nóvember þegar dollarinn var 62 krónur), fara á pósthúsið og borga fyrir þátttöku mína í kínamúrsmaraþoninu og senda þrjá litla pakka til Íslands og kaupa í matinn. Þetta tók rúma þrjá tíma og við vorum ekki komin heim þegar strákarnir komu heim úr skólabílnum. Sem betur fer voru þeir ekkert farnir að örvænta, biðu bara í rólegheitum. En í bankanum í gær var einmitt jólatré á miðju gólfinu. Við erum orðin svo samdauna þessu að við tókum ekki eftir því fyrr en Jói hafði labbað fram hjá því þrisvar (hann þurfti að fylla út ýmis eyðublöð víða um bankann) og ég hafði setið við hliðna á því heillengi. Svo lá leiðin í pósthúsið. Mér skilst að það heiti póstvesenið í Færeyjum. Það er réttnefni fyrir það í Kína. Þeir sem skipuleggja maraþonið báðu mig um að borga fyrir þátttökuna í pósthúsi því þá kæmi nafnið mitt fram sem greiðandi sem myndi ekki gerast í banka. Við Jói skiptum liði í póstveseninu. Hann fór í reikninginn og lenti í að fylla út heilt eyðublað á kínversku sem hann leysti af stakri snilld með aðstoð gamals manns. Ég fór með þrjá litla pakka og ætlaði að henda þeim í póst. Eitt var nú eigilega bara bréf en fólkið panikaði alveg þegar það sá mig með tvö hvít umslög og flatan heimatilbúinn pakka út serjóskössum. Þetta gekk alls ekki. Ég þurfti að fylla út níu skjöl, sem betur fer ekki á kínversku því þá væri ég enn í póstveseninu og sýna þar til gerðum starfsmanni innihald pakkanna. Svo þurftum við að endurpakka heila klabbinu. Fyrir þetta greiddum við margfalt andvirði þess sem í pökkunum var. Elínbjörg segir okkar að samkvæmt númerunum hafi heila klabbið verið sent í ábyrgðarpósti en það var ekki meiningin.
Annars hefur netið verið að stríða okkur. Við komumst seint og illa inn á fréttasíður (þar með talið moggabloggið enda er það Elínbjörg sem setur þetta inn fyrir mig) en fljúgum inn á leikjasíður og spjallsíður. Þessi ritskoðun er nú svona frekar misheppnuð, finnst mér, því við erum með CNN Asia í sjónvarpinu og þar er auðvitað um lítið annað rætt en ástandið í þessu landi. Vonandi lagast þetta fljótlega bæði ástandi í landinu og netsambandið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2008 | 06:46
Nú verður ekki aftur snúið
Ég er loksins búin að skrá mig í The Great Wall Marathon sem fer fram þann 17. maí n.k. Reyndar ætlaði ég að vera löngu búin að því en síðan þeirra opnast aldrei hérna hjá mér og ég fékk engin svör við tölvupóstum sem ég sendi á netfangið þeirra. Ég brá því á það ráð að senda fyrirspurn á Albatros travel í Danmörku sem selur ferðir í hlaupið og þau útveguðu mér rétt netfang.
Þetta er nú ekki í eina skiptið sem síða opnast ekki. Hér er til dæmis ekki hægt að komast inn á neinar Wikipediu-síður, þær eru allar læstar. Mig grunar að ég komist ekki inn á þessa síðu héðan því sömu aðilar eru að skipuleggja hlaup í T Í B E T og mér skilst að það sé orð sem netlöggan sé að skima eftir þessa dagana.
Ég verð að viðurkenna að ég fékk smá fiðrildi í magann þegar ég var búin að skrá mig. Þótt ég ætli ekki í heilt maraþon í þetta skiptið, heldur bara hálft, veit ég að þetta er mun strembnara en venjulegt götuhlaup því múrinn er víða ósléttur, auk þess sem leiðin sem hlaupin er á múrnum sjálfum er öll upp í móti. Kínamúrinn er þannig byggður að hann liggur alltaf þar sem landið rís hæst. Útsýnið er því gríðarlega flott en á móti kemur að hlaupið verður erfiðara en ella. Á þessum fimm kílómetrum af rúmlega 21 sem hlaupið er á múrnum sjálfum eru 3700 tröppur. Í morgun hljóp ég upp stigann hérna í blokkinni (það er stutt sprettaæfing hjá mér á miðvikudögum) og það eru bara 480 tröppur en það tók sko vel í og ég stóð alveg á öndinni þegar upp var komið. Nú er bara að halda áfram að æfa sig og láta ekki bugast við tilhugsunina um þennan endalausa stiga sem bíður mín.
Ég er líka að reyna að vera skynsöm í matarræðinu og það gengur ágætlega miðað við aðstæður. Ég elda hérna heima flesta daga vikunnar og reyni þá auðvitað bara að bjóða upp á eintóma hollustu. Þrátt fyrir allt úrvalið í matvöruverslunum hérna er töluverð kúnst að töfra fram kvöldmatinn því maður er svo vanur að hafa allt við höndina, vera með fulla kryddskúffu undir eldavélahellunum og sósujafnara og ýmis hjálparefni við höndina. Hérna eldar maður eiginlega allt frá grunni. Innkaupin taka töluverðan tíma því ég er svo lengi að finna það sem mig vantar því flestar vörur eru bara merktar með kínversku letri. Flest krydd er selt í lausu eða mjög stórum pokum sem ómögulegt er að átta sig á hvað er í. Annars kaupi ég líka ferskar kryddjurtir, mikið úrval af þeim þótt ég viti ekki hvað allt er. Um daginn hélt ég að ég hefði aldeilis komist í feitt þegar ég fann eitthvað sem á stóð "seasoned salt" og hélt ég hefði fundið season all sem hefur nú reddað manni í margri útilegunni. Þegar heim var komið kom í ljós að kryddin í þessari blöndu voru anis, engifer, chilli og fleira þannig að útkoman var aðeins öðruvísi en ég átti von á. Svo var ég búin að leita lengi að kókosmjólk, því hér er lítið um tilbúnar sósur og enn minna um mjólkuafurðir sem hægt er að nota í sósur. Loks fann ég það sem ég var að leita að - bara ekki í litlum dósum heldur lítersfernum.
Annars þarf verulega einbeittan brotavilja til að kaupa sér nammi hérna. Við höfum komist að því að kínverskt súkkulaði er yfirleitt óætt en reyndar finnast vestræn súkkulaði í Carrefour en þau eru rándýr. Töluvert úrval er af snakki og jafnvel vörumerki sem við þekkjum heima eins og Lays. Bragðtegundirnar eru bara eitthvað svo skrítnar. Meðal þess sem ég man í svipinn er tómatsósubragð, mangó, kjúklingabragð. svínarif, súkkulaðibragð (jú við erum enn að tala um kartöfluflögur), wasabi og grillsteik, svo fátt eitt sé nefnt. Meðal ístegunda sem við höfum séð eru grænt te (mjög vinsælt), svört sesamfræ, engifer og sæt kartafla.
Það er sjoppa hérna rétt við blokkina og þar er heilmikið úrval ef maður er að leita að hænsnaklóm með ýmsum bragðefnum eða vakúmpökkuðum soðnum eggjum sem hafa legið mislengi í marineringu. Þau eru látin liggja í ediki, soju eða tei. Hansi er sá eini í fjölskyldunni sem hefur verið nógu hugrakkur til að smakka þessi svörtu egg. Hér fást líka óteljandi gerðir af þurrkuðu kjöti sem ég er aðeins farin að hætta mér í að prófa. Dýrast og fínast eru þurrkuðu andatungurnar sem ég hef reyndar ekki lagt í enn. Svo fann ég harðfisk um daginn sem mér fannst líta nokkuð vel út í pakkningunni. Hann reyndist hins vegar sykraður og bragðið var ... áhugavert. Gott við tókum páskaegg með að heiman - ég hef ekki rekist á eitt einasta. Þau mölbrotnuðu reyndar á leiðinni en bragðið hefur örugglega ekki skemmst.
Annars er ég búin að skrá mig á matreiðslunámskeið, bæði í tælenskri og kínverskri matargerð. Ég læri þá kannski á kryddin hérna fyrir rest.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.3.2008 | 14:49
Rými
Eitt af því sem við tökum sem gefnu heima á klakanum er að hafa nóg pláss. Hjá okkur eru um 2,8 landsmenn um hvern ferkílómetra. Kína er rúmlega 90 sinnum stærra en Ísland (þótt menn séu ekki á eitt sáttir um hvar landamærin liggja) en kínverjar eru 1.3 milljarðar. Ég orka ekki einu sinni að reikna hvað það gerir marga kínverja á hvern ferkílómetra. Heima þekkjum við konu sem heyrir illa (Ellý það ert ekki þú) sem einhverra hluta vegna talar alltaf mjög lágt. Og til þess að heyra svarið gegnur hún alveg upp að manni og inn í "rýmið" manns, þessa u.þ.b. 30 sentímetra sem aðrir en nánasta fjölskylda kemur ekki inni í. Og okkur finnst það svo óþægilegt! Hér eru þessir þrjátíu sentímetrar bara fimm ef þeir ná því. Í lestinni á háannatíma er t.d. bara troðið þangað til sérstakir verðir sjá að ástandið nálgast hættumörk og banna fleira fólki inngöngu. Ef maður ætlar út úr lestinni við þessar aðstæður verður maður líka bara að troðast, annars kemst maður aldrei út. (Lestin er því kjörin staður til að fá lús og ýmsa smitsjúkdóma en ég reyni að hugsa sem minnst um það). Heima verður maður móðgaður þegar maður er staddur á svokölluðum almenningi og aðrir troðast alveg ofan í manni (lesist sjást og heyrast). Maður verður fúll á tjaldstæði ef einhver tjaldar of nálægt eða fer í frísbí þar sem maður er að reyna að lesa. Hér er það bara ekki í boði. Fyrst þegar ég var að byrja að hlaupa í þessum garði mínum hafði ég agalegar áhyggjur af því að trufla fólk. Ég hleyp inn í heilu dans og kung fu hópana og stundum kem ég á þvílíkum spretti inn í einhvern lund og held að ég sé ein í heiminum, situr þá ekki bara einhver í lótusstellingu á miðjum stígnum. En það skrítna er að öllum er sama. Hér gera bara allir það sem þeir vilja og spá ekkert í hvað aðrir gera.
Þetta kemur klárlega í ljós þegar maður fer yfir götu. Við búum við heljarmikla umferðargötu sem heitir DinXi Lu. Sem betur fer erum við inni í porti þannig að umferðin er ekki beint við gluggana hjá okkur. Til að komast yfir þessa götu og t.d. á lestarstöðina þurfum við að fara yfir gatnamót sem eru alveg svakaleg. Málið er að þetta er einstefna (en hjólandi umferð fer þó í báðar áttir). Hér við blokkina eru gatnamót þar sem stór þvergata fer inn á þessa götu og endar þar. Einhvern veginn er það þannig að gangandi umferð á aldrei réttinn því það eru alltaf bílar frá annarri hvorri akgreininni sem eru að fara yfir. Þar að auki er þriðji hver bíll leigubíll og þeir stoppa yfirleitt ekki á rauðu. Hjólandi umferð fer heldur aldrei eftir götuljósum og ekki gangandi vegfarendur heldur. Þar að auki hjóla margir á móti umferð (sem ég skil nú bara ekki hvernig er hægt) og sumum hjólandi og vélhjólandi finnst alltaf betra að vera bara á gangstéttinni þannig að maður er ekki einu sinni öruggur þar. Þegar ég sá þessi gatnamót fyrst fannst mér þau algjört kaos og ég gat ekki ímyndað mér að ég kæmist lífs af. Svo uppgötvuðum við að maður verður bara að taka sér pláss. Þá gerist það undarlega að bílarnir sveigja bara í kringum mann. Þegar maður fer yfir á grænu (ég er nú ekki orðin svo sjóuð að ég fari yfir á rauðu) þarf maður að vaða straum af bílum og hjólum sem eru að koma úr þvergötunni og maður verður bara að vaða af stað og vera ákveðinn. Ef maður hikar fær maður ekki séns en ef maður er ákveðinn og stenur á sínu sveigja bílarnir bara lengra frá manni (akreinar eru mjög fljótandi fyrirbrigði hér) þar til allt í einu eru þeir farnir að keyra fyrir aftan mann. Og svona er þetta bara, maður verður bara að taka sitt pláss - annars tekur það einhver annar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.3.2008 | 13:21
Gaman í Kína
Það er svoooo gaman hérna. Einhvern veginn er allt skemmtilegra en heima - en ég veit að það er bara af því að þetta er sparilíf sem við lifum hérna. Vantar bara Loka en við vitum að hann hefur það fínt í hundakofanum.
Virku dagarnir eru pakkaðir því strákarnir eru ekki að koma heim úr skólanum fyrr en hálf fimm. Þeir eru sóttir 25 mínútur yfir sjö á morgnanna þannig að þetta er langur vinnudagur hjá þeim. Jói er að fara um svipað leyti og á miðvikudögum er hann í skólanum til hálfníu á kvöldin en hina dagana er hann kominn fyrr heim. Við reynum samt að skeppa út á eitt til tvö kvöld í viku. Svo notum við helgarnar til að gera eitthvað skemmtilegt. Þessi helgi sem nú er að baki var alveg frábær og vel skipulögð hjá okkur. Í gær fórum við til Pudong sem er hinum megin við ána sem liggur í gegnum borgina og skoðuðum okkur um þar. Við fórum meðal annars upp í hæsta hús í Kína. Það er reyndar verið að byggja annað hærra við hliðina á því en það er ekki tilbúið svo það telst ekki með. Í morgun fórum við með nesti út í uppáhaldsgarðinn okkar og borðuðum morgunmat þar og virtum fyrir okkur alla kung fu iðkendurnar og fólkið sem ég þreytist aldrei á að skoða. Og það þreytist heldur aldrei á að skoða okkur. Elmar vekur mikla athygli með stóru augun sín og sitt ljósa hár sem fólk vil gjarna fá að koma við. Hann er farinn að venjast því núna en fannst það mjög óþægilegt fyrst. Fólk þreytist heldur aldrei á að minna okkur á hve óendanlega heppin við erum að eiga þessa tvo fínu stráka og þeir heppnir að eiga hvorn annan. Það er svo margt sem maður tekur sem gefnu en hér má fólk ekki eiga nema eitt barn og systkini því óvenjulegt fyrirbrigði. Og strákar sérlega dýrmætir.
Í vetur las ég grein í einhverju blaði um að einbirnin væru farin að valda vandræðum hér. Nú er að alast upp önnur kynslóð einbirna hér í Kína, þannig að þau eru ekki bara eina barn foreldra sinna heldur líka eina barnabarnið í báðar ættir. Samkvæmt fréttinni áttu þessi börn sem fengu svo mikla athygli að vera að springa úr frekju og vera óalandi og óferjandi eins og litlir einræðisherrar. Það er skemmst frá því að segja að ég hef ekki séð nein svoleiðis börn. Þau börn sem við sjáum eru hrein og snyrtileg, kurteis, glöð og kát. Þau virðast vissulega fá mikla athygli frá foreldrum sínum og öfum og ömmum en á það ekki að vera þannig? Það virðist alla vega ekki skemma þau.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2008 | 11:04
Skólamál
Nú eru strákarnir búnir að vera eina viku í þessum ágæta skóla sínum. Þeir eru báðir ótrúlega ánægðir og finnst gaman. Báðir hafa eignast vini og gengur námið vel. Hansi ákvað að skipta um stærðfræði og er nú í tímum sem eru svipaðri því sem hann er að gera heima. Það þýddi að hann þurfti að breyta til á stundatöflunni þannig að stað þess að vera í kvikmyndafræði fór hann í skapandi skrif (creative writing). Elmar er líka mjög ánægður með aukatímana sína og kemur syngjandi glaður úr skólabílnum á hverjum degi.
Öll aðstaða í skólanum er frábær og þeir eru mjög ánægðir með kennarana sína. Allir kennararnir eru amerískir, nema kínverskukennararnir. Báðir strákarnir eru komnir á gott skrið í kínverskunáminu og oft snúast samræðurnar við kvöldmatarborðið um hljóðmyndanir í kínversku en þá er ég úti á þekju. Annars er mesta furða hvað maður fer fljótt að greina á milli ólíkra hljóða og pikka upp orð og orð, að ég tali ekki um tákn og tákn. Ég er farin að þekkja þónokkur einföld tákn þótt ég eigi að sjálfsögðu afskaplega langt í land með að geta lesið eitthvað að gagni.
Í bekknum hans Elmars eru aðeins 12 nemendur og umsjónarkennarinn hans, herra Dan, virðist frábær náungi sem talar við krakkana með virðingu og vingjarleika en þó ákveðinni festu. Í bekknum er einnig aðstoðarkennari en einn nemandinn á við fötlun að stríða. Kennslubækurnar eru allar frá sama útgefanda og allar svakalegir hlunkar. Mér var sagt að þessar bækur væru mjög algengar í Bandaríkjunum. Elmar kemur ekki heim með bækurnar nema hann eigi að nota þær við heimanámið en Hansi geymir þær heima og fer bara með þá hlunka sem þarf að nota þann daginn. Svona þykkar og miklar bækur myndu vart ganga heima þar sem krakkarnir eru í allt að sjö ólíkum fögum á hverjum degi en virkar mjög vel hér þar sem bara eru fjögur fög á dag og þar af eitt til tvö án kennslubókar, eins og leikfimi og tónlist. Þessar námsbækur eru alveg frábærar, fjölbreyttar og skemmtilegar, og tengja viðfangsefnin við lífið og tilveruna með skemmtilegum hætti. Sérstaklega finnst mér stærðfræðibækurnar framúrskarandi skemmtilegar og einmitt þar þarf virkilega að tengja efnið við lífið því krakkarnir skilja oft ekki til hvers þau eru að reikna. Hver kannast ekki við að hafa heyrt að algebra sé ekki notuð í neitt. Í þessum bókum eru rammagreinar um hvernig algebra er notuð í honum ýmsu starfsgreinum. Við tókum íslensku reikningsbókina hans með okkur út og höfum verið að bera þetta saman, aðallega til að sjá hvar hann er eiginlega stattur í reikningsfrumskóginum og efnistökin og útskýringar eru bara svo miklu betri í þessum bókum að himinn og haf skilur þær að. Íslenska bókin er að sjálfsögðu gefin út af námsgagnastofnun og er frá 1983. Hafa virkilega ekki orðið neinar framfarir í námsefnisgerð síðan þá?
Í starfi mínu hef ég komið að útgáfu nokkuð margra kennslubóka fyrir framhaldsskóla þar sem samkeppni ríkir á markaði, ólíkt því sem á við í grunnskólum. Sumar þessara bóka eru meðal þess sem ég er stoltust af að hafa komið nálægt, framúrskarandi skemmtilegar bækur sem tengja námsefnið við daglegt líf nemenda og mér finnst alveg standast samanburð við þessar amerísku bækur. Þær íslensku eru meira að segja fallegri. Það námsefni sem strákunum mínum stendur til boða í hinum íslenska grunnskóla er hins vegar oft á tíðum til háborinnar skammar. Þannig hafa þeir fengið heim með sér lestrarbækur með úreltum rithætti. Zetan er til að mynda enn á sínum stað í sumum þeirra. Hansi var í landafræði fyrir tveimur árum og lærði um Evrópu. Svo kom að prófi og þar sem hann átti að þekkja höfuðborgir allra Evrópuríkja, fána og geta fundið þau á korti, fann ég leiki á netinu sem hann gat æft sig í. Hann stóð sig aldrei nógu vel að mínu mati og var grunnsamlega lélegur í Austur-Evrópu. Ég fór að skoða bókina hans og hvað haldiði að ég hafi fundið. Sovétríkin! Finnst ykkur þetta boðlegt! Auðvitað hætti kennarinn bara að kenna á blaðsíðu 46 af 80 því að þar byrjaði umfjöllunin um Júgóslavíu. Krakkarnir fengu því enga kennslu í þeim löndum sem flestir innflytjendur til Íslands koma frá.
Um daginn var ég að spjalla við pabba bekkjarfélaga Elmars. Þeir feðgar eru frá Malasíu en hafa búið hér í þrjú ár. Hann spurði mig hvaðan ég væri. Frá Íslandi. Já, Íslandi, heitir höfuðborgin ekki Reykjavík? U, jú. Hvað ætli höfuðborgin í Malasíu heiti? Anyone? Anyone?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)