Skýr skilaboð

"Bi White" og "White Power" eru meðal slagorða snyrtivöruframleiðanda sem selja krem sem eiga að hvítta húðina. Fyrst þegar ég kom hingað fannst mér þetta frekar fyndið og dæmi um það hvernig mannskepnan er alltaf óánægð með sjálfa sig og vill alltaf það sem er utan seilingar. Ég viðurkenni fúslega að eiga eina eða tvær túpur af brúnkukremi heima í skáp. Aflitunarkrem virðast mér hins vegar einhvern veginn dramatískari og óhollari fyrir húðina en brúnkukremin sem eiga að vera skaðlaus. Hins vegar er rétt að benda á að fyrir nokkrum árum stundaði fólk ljósabekki í tíma og ótíma þótt sýnt hefði verið fram á að þeir kynnu að valda húðkrabbameini og meira að segja sveitarfélögin ráku ljósabekki í sundlaugunum. Ætli hvíttunarkremin séu nokkuð verri?

En það er annað sem mér finnst enn óhugnanlegra og það er hvernig ráða má af húðlit fólks þjóðfélagsstöðu. Menn í jakkafötum og konur í fínum drögtum eru með ljósa húð, hvort sem það er nú af náttúrunnar hendi eða vegna þess að kremin virka. Fólk sem sópar göturnar, þrífur klósettin, vinnur verkamannavinnu eða önnur illa borguð og sóðaleg störf er með dökka húð. Krukka af hvíttunarkremi kostar hálf mánaðarlaun verkamanns og það þarf ekki að reikna lengi til að sjá að stelpan sem selur ávexti hérna úti á götu hefur ekki efni á þeim.

Allar auglýsingar eru gífurlega beinskeyttar hér, alla vega fyrir vesturlandabúa (b.a. gráða í bókmenntafræði sakar reyndar ekki) og ekki verið að búa til flóknar herferðir til að koma að duldum skilaboðum. Konan í White Power auglýsingunni er t.d. mjög vestræn í útliti og í fínni dragt og ekkert verið að rómantísera hana neitt. Hún er það sem hún ætlar sér að vera - hvít og valdamikil. Fyrir okkur sem erum vön því að auglýsendur tali undir rós er þetta ansi sjokkerandi. Og kannski finnst manni verst að það eru vestræn fyrirtæki sem framleiða þessi krem. Þetta eru nákvæmlega sömu merki og við sjáum heima.

Og auglýsingar eru alls staðar! Hugsum okkur Ísland og alla þá staði sem fólki hefur dottið í hug að setja auglýsingar. Á þeim stöðum eru líka auglýsingar hér. Því til viðbótar er búið að selja auglýsingar á óteljandi flatskjái, t.d. í miðbænum og jafnvel heilu háhýsin eru eins og sjónvarpsskjár á kvöldin. Sumir auglýsingaskjáirnir eru með hljóðum. Aðrir eru í þrívídd. Á ánni sem sker borgina sigla bátar með engu öðru um borð nema risavöxnum auglýsingaskjám. Í leigubílum eru iðulega auglýsingarskjáir fyrir farþegana í aftursætinu að horfa á og í gærkvöldi tókum við leigubíl með snertiskjá þar sem við gátum leikið auglýsingatengda tölvuleiki á meðan á akstri stóð. Á símaklefum er sú hlið sem snýr að fjölförnum umferðagötum iðulega flatskjár með auglýsingum og meira að segja í lyftunum hér í blokkinni okkar eru sýndar auglýsingar öllum stundum. Við horfum samviskusamlega á þær bæði upp og niður en föttum sjaldnast hvað verið er að auglýsa. Glerin á rúllustigum eru oftar en ekki þakin auglýsingum og nú nýlega er farið að líma auglýsingar á svarta gúmmíið sem maður heldur sér í líka, Þá eru ónefndir allir krakkarnir sem standa á götum úti og rétta að manni bæklinga, nafnspjöld og annað auglýsingaefni. Við höfum reyndar komist að því (sem betur fer ekki á eigin skinni) að sumir þeirra vinna tveir og tveir saman og eru í raun vasaþjófar en það er önnur saga.

Þessum auglýsingum fylgir oft gríðarlegur hávaði. Kínverjar vilja stuð, annars er ekkert varið í hlutina (og Elmar er alveg sammála þeim). Oft er hljóð með auglýsingunum og enn oftar eru auglýsingarnar bara í formi hávaða. Oft má sjá þokulúðra sem endurtaka í sífellu skilaboð um vöru eða þjónustu fyrir utan litlar verslanir og í matvöruverslunum er starfsfólkið oft með svona lúðra sem það gargar í: komið og prófið kaffi, kaupið fisk í dag, smakkið þessa pulsu. Úr þessu verður gríðarlegur hrærigrautur og stundum finnst manni að þau hljóti að vera ómögulegt að skilja hvað verið er að segja, jafnvel þótt maður skilji málið. Við heyrum alla vega ekki orðaskil.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband