Afmæli og þrumuveður

Nú er hversdagurinn runninn upp eftir fríið okkar og vinna, skóli, matreiðslunámskeið og hlaupaæfingar teknar við. Það er eins og veðrið sé alveg með á nótunum því eftir dýrðarviku með sól og 20 stiga hita og upp í 25 í Beijing var þoka á mánugdaginn og mikill raki, rigning í fyrradag sem breyttist í ekta íslenska sumarrigningu með roki um miðjan daginn og svo úrhelli og þrumuveðri um kvöldið. Við hættum okkur nú ekkert út í þau ósköp, enda eins gott því hjón hér í borg urðu fyrir eldingu og lést konan í kjölfarið en karlinn er slasaður. Í gær var reyndar þurrt en mjög hvasst og skýjað. Nú er að létta til og svo er spáð blíðu um helgina sem er eins gott því þá er fyrirhuguð mikil afmælishátíð þeirra feðga, Jóhanns og Elmars.

Jóhann á afmæli í dag og þar sem hann er í skólanum á miðvikudagskvöldum notuðum við gærkvöldið til að undirbúa afmælið. Við skruppum út í Cloud nine og náðum að leysa málið í kaupfélaginu. Jóhann fékk gjafirnar sínar í morgun og var feykilega glaður með þær. Hann fékk fjarstýrða þyrlu frá Hansa og ólympíupeysu frá mér. Elmar gaf pabba sínum heilt reiðhjól og veit ég ekki hvor þeirra var ánægðari með það. Fyrir hjólið borguðum við jafn mikið og ég borgaði fyrir standara heima á Íslandi síðast þegar ég keypti hjól. Óvæntasti pakkinn kom hins vegar í gær. Tengdamóðir mín er áhugamanneskja (eða jafnvel atvinnumaður...) um póstsamgöngur og sendi okkur pakka til að komast að því hvað hann yrði lengi á leiðinni. Sá pakki barst í gærdag en við létum Jóa ekkert vita af því þannig að í morgun opnaði hann kassa frá mömmu sinni sem var algjörlega troðfullur af íslensku nammi. Okkur þótti það ekki slæmt. Kærar þakkir Elínbjörg! Jói var að hugsa um að fara með eitthvað af því í skólann og bjóða skólafélögum í tilefni dagsins en við sannfærðum hann um að það væri vond hugmynd og útlendingarnir þar kynnu ekki gott að meta né éta. Elmars afmæli er svo á miðvikudaginn en þá er Jói fram á kvöld í skólanum þannig að við ætlum að halda helgina hátíðlega og gera eitthvað skemmtilegt saman.

Annars er verðlag svo skrítið hérna. Mánaðarlaun verkamanna eru sem svarar 17000 íslenskum krónum. Manneskja með B.A. gráðu er með um 30.000. Af þessu má vel lifa hér í borg ef maður gerir ekki kröfu á mikinn lúxus. Samgöngur eru hræódýrar en ferðir með metróinu kosta 20-50 krónur. Matur er líka mjög ódýr. Hér úti á götu höfum við oft keypt okkur máltíð fyrir alla fjölskylduna á 70 íslenskar krónur. Eru það þá t.d. gufusoðnar eða steiktar brauðbollur með hrísgrjóna, kjöt eða grænmetisfyllingum, grillspjót með kjöti eða fiskmeti eða annað slíkt. Fatnaður og skór í kínabúðum er líka hræódýr og ekki eru borgaðar háar upphæðir fyrir vatn, gas né rafmagn. Sauðsvartur almúinn býr frekar þröngt í blokkum eða litlum húsum sem reyndar er verið að útrýma kerfisbundið, alla vega hér í Shanghai. Hér í kring eru enn fullt af þröngum götum með litlum húsum og virðast hýbýli sumra bara vera eitt herbergi með vaski. Í Beijing var verið að gera upp götuna sem hótelið okkar var við. Þar sá maður að verkamenn bjuggu í pínulitlum vistarverum, kannski svona 7-8 fermetrum þar sem voru kojur og ekkert annað. Þar inni sváfu 3-4 karlar. Í götunni voru svo almenningssalerni fyrir alla íbúana á þremur stöðum svo fólk þyrfti nú ekki að labba of langt. Allt var þetta hreint og snyrtilegt og alls ekki eins og fátækrahverfi. Meira eins og sumarbúðir enda hefur kommúnisminn svosem aldrei lagt mikið upp úr prívatlífi fólks. Lítið er um frídaga hjá fólki og vinnudagurinn er mjög langur. Allar verslanir eru t.d. opnar frá kl. 9 á morgnana til 9 eða jafnvel 10 á kvöldið, alla daga vikunnar. Manni sýnist það að mestu vera sama fólki sem stendur vaktina. Síðasta áratuginn hefur verið vikufrí í kringum 1. maí og auk þess er frí um kínversku áramótin. Skapast hefur ófremdarástand í samgöngumálum þannig að nú er verið að breyta þessu. Áfram verður frí um áramótin (sem eru í febrúar eða mars), svo var frí hjá fólki s.l. föstudag vegna hátíðar þar sem hefð er fyrir því að fólk fari að gröfum og grafhýsum ættingja og hreinsi til og minnist látinna. Ekki hefur áður verið gefið frí vegna þessa. 1. maí fríið varður í ár aðeins tveir dagar en svo á að gera tilraun með sumarfrí í staðin sem er nýjung og skilst mér að þá eigi ekki allir að fá frí í einu eins og hina frídagana. Fólk hættir hins vegar að vinna frekar snemma á lífsleiðinni, kennarar og ýmsir opinberir starfsmenn geta t.d. lagt niður störf upp úr 50 ára en almenningur 60-65 ára. Ellilífeyrir er hins vegar af skornum skammti, aðeins sem svarar 8000 íslenskum krónum. Því er setið um allar ruslatunnur hér í borginni og safnar gamla fólkið flöskum og fær um eina krónu fyrir hverja þeirra. Þegar við vorum á Kínamúrnum voru margir gamlingjar á múrnum að bíða eftir að ferðafólkinu þóknaðist að klára úr vatnsflöskunum sínum til að hirða þær. Hér er hefð fyrir því að börnin (lesist sonurinn) hugsi um aldraða foreldra sína. Vandinn er sá að vegna einbirnisstefnunnar getur mikið hvílt á herðum einnar fjölskyldu. Hjón á okkar aldri eiga oftast eitt barn en tvö sett af foreldrum sem e.t.v. eru hættir að vinna og rétt skrimta á ellilífeyrinum. Hér er heilsufar almennt gott og lífaldur sambærilegur við það sem best gerist á vesturlöndum og því er vel hugsanlegt að hjónin eigi bæði afa og ömmur sem ekki eiga aðra vinnandi afkomendur en þau. Því getur mikil framfærsluskylda hvílt á herðum eins einstaklings. Í Kína eru líka töluvert fleiri ungir karlmenn en konur ólíkt því sem gerist þegar náttúran fær að ráða (þá eru kvendýrin fleiri) og því milljónir einhleypra karlamanna í Kína.
Hér í Shanghai býr hins vegar hellingur af fólki sem vinnur stjórnunarstöður hjá vestrænum fyrirtækjum, lifir vestrænu lífi og fær vestrænar tekjur. Á hverju strái eru verslunarmiðstöðvar fullar af rándýrum varningi sem er vart á færi almennings að kaupa. Margar verslunarmiðstöðvar eru bara með súperfínar búðir eins og Gucci og Prada og hvað þetta heitir allt og maður nennir ekki einu sinni að skoða í búðarglugga því verðið er absúrd, t.d. mörg hundruð þúsund fyrir litla tösku. Í Kína eru fleiri miljarðamæringar en í Bandaríkjunum þannig að það er greinilega markaður fyrir lúxusvarning. Einn dýrasti matur sem við höfum keypt hérna (fyrir utan laxinn góða) er á Pizza Hut. Á slíkum stöðum er verðið bara það sama og það væri á matseðlinum í Bandaríkjunum eða Evrópu (nema auðvitað á Íslandi þar sem allt er helmingi dýrara). Það sama á við um aðrar vörur sem fást á vesturlöndum, alla vega ef það eru sömu merki og maður er vanur. Þær eru frekar dýrar. Ég sá til dæmis þunna Nike hettupeysu sem mig langaði í og kostaði hún 6000 íslenskar krónur. Kínversk peysa væri bara á nokkra hundraðkalla. Það vantar alveg millistig í verðlaginu, hér eru hlutirnir annað hvort dýrir eða ódýrir - eiginlega ekkert þar á milli. Kaffibolli á Starbucks (en þeir staðir eru bókstaflega alls staðar) kostar 280 krónur en salatbakki með kjúklingabringu á sama stað sem dugar í hádegisverð og rúmlegar það (og er framleiddur af íslensku fyrirtæki) kostar bara 200 krónur.
Innkaupakarfan okkar er oft skrítin. Innlendu vörurnar, t.d. kjöt, grænmeti og ávextir kosta ekki neitt en um leið og eitthvað innflutt flýtur með er verðið fljótt að hækka. Franskur camembert er t.d. á 600 kall og innflutt vín í sæmilegum gæðum á um 1000 kall. Við prófuðum einu sinni að kaupa kínverkst rauðvín en helltum því, það var svo vont. Kínverskur poki af doritossnakki er á 50 kall en 300 kall ef það er innflutt. Allt kaffi nema neskaffi er líka rándýrt og ekki hægt að fá kaffipoka á minna en 5-600 krónur. Gos er mjög ódýrt, um 20 krónur flaskan en getur kostað tífallt það á veitingastöðum og kostað meira en máltíðin. Maður er því eiginlega alvega ruglaður í verðinu - stendur sig að því að velta fyrir sér aurum í innkaupunum en slæsa svo í lúxusinn án umhugsunar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband