Komin heim en þó ekki

Það var skrítið að koma heim í tóma íbúðina eftir okkar vel heppnuðu Beijing-reisu. Enginn Loki, engir vinir og ættingjar til að heyra ferðasöguna, bara tómur ísskápurinn. Til að bæta gráu ofan á svart keyptum við Jói "íslenskan" kvöldmat en eftir að hafa borðað á veitingarstöðum í viku langaði okkur í mömmumat. Því var boðið upp á lax sem var steiktur í dönsku smjöri, soðnar kartöflur, salat úr gúrkum og tómötum eins og amma hafði alltaf og soðinn aspars. Lax er reyndar dýrasta hráefnið sem hægt er að finna og ég hef bara einu sinni keypt smá stykki áður sem ég notaði með tígrisrækjum sem eru hræódýrar. Nú keyptum við laxasteikur á 1800 krónur íslenskar kílóið. Til samanburðar má geta að kílóið af kjúklingabringum er á 350 krónur. Svo hlustuðum við á hádegisfréttirnar á RÚV á netinu. Og ég sem var að hugsa síðast í gær að þrír mánuðir í þessu landi væri allt of stuttur tími. Nú langaði mig pínulítið heim. Við drifum okkur því bara út í göngutúr og fengum okkur ís á ColdStone sem fyrir þá sem ekki vita er besta ísbúð í heimi.

Annars var ferðin okkar afar vel heppnuð og það undarlega gerðist að við versluðum alveg fullt. Undarlegt því við höfum nánast ekki keypt neitt síðan við komum hingað - okkur finnst alltaf að við getum nú bara gert það seinna. Nú vorum við í túristagírnum og þurftum meira að segja að kaupa aukatösku. Elmar gerði stórinnkaup, keypti sér ný spariföt - drengurinn sem hefur verið í gallabuxum síðustu tvenn jól. Næst verður það silki frá toppi til táar. Eins og flestir vita hefur drengurinn einfaldan smekk og gengur aðeins í íþróttafötum en ég náði að kaupa tvo "adidas"-galla á hann á kúk og kanil. Hansi fékk Billabong hettupeysu og rosaflotta vindhelda flíspeysu í unglingavinnuna. Höfundaréttur er ekki tekinn gildur hér í alþýðulýðveldinu, hér eiga allir allt saman. Yfirvöld hafast því ekkert við þótt verið sé að selja svikna vöru. Feikið er að mér skilst þrenns konar; föt eða vörur sem merktar eru einhverjum þekktum framleiðanda til að gera hana girnilegri, vörur sem eru endurgerð á merkjavöru og svo merkjavara sem er framleidd en ekki afhent réttum framleiðanda. Verksmiðjan fær kannski það verkefni að framleiða 50 þúsund jakka en framleiðir 50 þúsund í viðbót sem fara á svarta markaðinn. Trixið er svo að þekkja muninn og reyna að kaupa eitthvað sem dettur ekki fljótlega í sundur. DVD diskar kosta 7 yuan eða um 70 íslenskar krónur. Ef maður kaupir sjónvarpsþáttaseríu þá fer verðið eftir því á hve mörgum diskum hún er á. Engu að síður er oft lagt mikið í umbúðir og frágangur flottur. Elmar á PSP tölvuspil og ætlaði aldeilis að kaupa sér leiki hér í hinu ódýra Kína. Þrátt fyrir að annar hver maður sé með PSP í lestinni fundum við hvergi leiki til sölu. Eftir að hafa kynnt okkur málið á útlendingaspjalli á netinu komumst við að því að hér spilar fólk eingöngu sjóræningjaútgáfur. Elmar komst því í feitt í gær þegar hann keypti 96 leiki á einu bretti á verði sem nemur u.þ.b. 1/3 af verði eins leiks á Íslandi.

Beijing er sundurgrafin því kínverjarnir virðast ætla að gera að minnsta kosti annað hvort hús í borginni upp eða jafnvel endurbyggja það. Tvö söfn sem okkur langaði að skoða voru lokuð vegna framkvæmda, götur voru sundurgrafnar og heilu hverfin óaðgengileg. Mér þætti gaman að sjá hvort þeim tekst að klára þetta allt áður en opnunarhátíðin rennur upp. Herinn er þjóðnýttur í þessar framkvæmdir og jafnvel hér í Shanghai sér maður hermenn vera að mála og þrífa. Það var ótrúlega gaman að fylgjast með þessum framkvæmdum þótt ég teljist nú seint áhugamanneskja um húsbyggingar. Í litlu götunni "okkar" sem hótelið stendur við var verið að endurbyggja fjölmörg hús frá grunni og ég efast um að aðferðirnar hafi breyst mikið síðustu árhundruðin. Grindin er gerð úr bjálkum og eru digrir trjástofnarnir hreinsaðir á staðnum, börkurinn skafinn af. Svo eru húsin hlaðin og eru múrsteinsstaflar og sandhaugar um allt. Til að sigta sandinn eru þeir með grindur með þéttu vírneti sem þeir moka sandinum ofan á. Steypan er svo blönduð á staðnum. Mikilvægasta byggingarverkfærið eru hjólbörurnar og eina nútímaverkfærið sem ég sá var vélsög sem notuð var á trjádrumbana. Við fylgdumst líka með byggingu háhýsis við aðalverslunargötuna og þrátt fyrir krana og stórtækar vélar voru menn með hjólbörur í aðalhlutverki. Á Þjóðminjasafninu sem stendur við Torg hins himneska friðar (og var lokað vegna endurgerðar) var stórt skilti sem taldi niður í leikana og alls staðar er mikil ólympíustemning. Ég vona bara að það mæti einhver.

Stemningin í þessum tveimur borgum er ótrúlega ólík. Í Beijing er sagan og fortíðin ákaflega sýnileg og gaman að skoða gömul hof og hallir. Umferðin er hins vegar mun hraðari, leigubílstjórar upp til hópa varasamir og reyna að svindla á manni og keyra án þess að setja mælinn í gang eða neita jafnvel að keyra mann. Hér í Shanghai höfum við bara einu sinni lent í leigubílstjórum sem reyndu að svindla á okkur og það var í IKEA og þrátt fyrir að umferðin hér virðist fáránlega flókin sýna menn mun meiri tillitssemi en í Beijing þar sem bílstjórarnir liggja á flautunni lon og don. Í Beijing eru flest smábörn í hefðbundnum fötum, það er með gat á rassinum á buxunum og klósett eru flest öll bara hola. Hér er helmingurinn oft vestræn klósett en stundum eru skóför á setunum. Sumum finnst nefnilega ógeðslegt að setjast á klósett og prýla frekar upp á setuna og sitja þar á hækjum sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband