12.3.2008 | 04:30
Zhongshan garðurinn
Kínverjar kunna svo sannarlega að búa til fallega almenningsgarða og það sem meira er, þeir kunna líka að nota þá. Hér er litið um garða við hús, hvorki þau gömlu né nýju. Við enda götunnar okkar er stór garður sem heitir Zhongshan og þangað fer ég í mitt morgunskokk. Garðurinn býður upp á 120 mismunandi svæði sem hvert og eitt hefur sína sérstöðu og er í breskum, kínverskum og japönskum stíl. Hann er eitt fjögurra "aðalgarða" hér í borginni.
Við heimsóttum garðinn fyrst um hádegisbil um helgi og þar var múgur og margmenni. Ég hélt að það væri bara svoleiðis um helgar en hef nú komist að því að garðurinn er alltaf troðfullur af fólki. Í morgun hljóp ég út í garð um leið og skólabíllinn hafði sótt strákana og var komin um 7:30. Þá þegar var fjölmenni í garðinum og fólk að njóta lífsins í góða veðrinu. Ég hleyp um garðinn þveran og endilangan og í ótal hringi því það liggja stígar um allt og landslagið í garðinum er afar fjölbreytt. Þarna eru stórar flatir, fjölmörg torg, babmíntonvellir, bekkir, lítil hof, nokkrir veitingastaðir, tjarnir, lækir, stór tré, blómstrandi runnar og plöntur af öllum stærðum og gerðum. Fyrir börn og aðra minna þroskaða menn eru tívolítæki og steinbekkir og borð fyrir aldraða majhong-iðkendur. Þarna kemur fólk til að vera eitt með sjálfum sér og hugleiða í fjölmörgum lundum garðsins eða hitta vini sína og taka þátt í ýmsum uppákomum. Um daginn hljóp ég framhjá kóræfingu og í dag tók ég eftir því að fólk fer með bænir við ákveðið tré og bugtar sig og beygir.
Ég er nú eiginlega eini skokkarinn í þessum garði en sko alls ekki sú eina í morgunleikfimi. Fyrir utan alla þá sem fá sér göngutúr í Zhongshan eru fjölmargir að iðka kínverksa leikfimi, ýmist í stórum hópum, litlum hópum eða bara einir sér. Sumir hóparnir eru með búninga og fylgihluti, einkum dúska, reykelsi og löng sverð sem ég vona að séu ekki mjög beitt því fólk sveiflar þessu í allar áttir í margmenninu, reyndar mjög hægt. Fjölmarga danshópa hleypur maður (fram)á og eru þeir eins ólíkir og þeir eru margir. Sumir stunda kínverska dansa og dansa með slæður og blævængi, aðrir eru í eróbikki og svo eru það gömlu dansarnir svo eitthvað sé nefnt. Á stóru torgunum eru stærstu hóparnir og oft margir á hverju torgi og hver með sína tónlist. Svo er alltaf eitthvað um fólk sem gengur aftur á bak hérna. Það virðist vera alveg sérstök líkamsrækt en þá teygir fólk handleggina fram og snýr þeim í litla hringi á meðan það gengur aftur á bak á fullum kínverksum hraða (sem er reyndar ekki mjög hraður).
Garðurinn er því félagsmiðstöð fólks á öllum aldri og með margvísleg áhugamál. Sumir sitja og prjóna, spila eða spjalla, aðrir leika sér með flugdreka eða í ýmsum hópleikjum og spilum sem ég veit ekki einu sinni hvað heita. Svo eru alltaf einhverjir sem eru að skrifa kínverska stafi með vatni á stéttirnar. Í nokkur skipti hef ég tekið eftir gömlum mönnum á gangi með lítil fuglabúr sem breitt er yfir. Ég hef álitið þá fuglasala því sumir eru með mjög mörg búr en töluvert er um að gæludýr séu seld í litlum búrum á götuhornum. Öll götusala er hins vegar bönnuð í garðinum þannig að ég var búin að velta því töluvert fyrir mér hvað mönnunum gengi til. Í dag hljóp ég hins vegar inn í rjóður þar sem búið var að hengja þessi litlu búr upp í trén og sungu fuglarnir hver í kapp við annan. Gömlu karlarnir sátu í hnapp, örugglega 15-20 í það heila og ræddu saman á meðan tugir fuglabúra hengu í trjánum. Fuglarnir voru misánægðir með þetta fyrirkomulag. Búrin eru mjög lítil og ég vona svo sannarlega að þeir séu í stærri búrum heima hjá sér en falleg voru þau og fuglarnir sömuleiðis. Búrin eru úr bambus og hver fugl er með vatns- og matarkrúsir út postulíni.
Já, það er margt skrítið og skemmtilegt í Kína. Í lokin eru hér myndbönd sem ég fann á You Tube sem sýna stemmninguna:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2008 | 00:41
Afmæli og fyrsti skóladagurinn
Hann Hansi okkar átti afmæli á laugardaginn og er orðinn 15 ára, hvorki meira né minna. Boðið var upp á egg og beikon, uppáhaldsmorgunmatinn hans og svo einhverja kökuómynd sem ég fann í búðinni. Kínverjar baka almennt ekki og hér er ekki ofn. Hans fékk nokkrar gjafir að heiman og heillaóskir í tölvupósti og svo hafði verið farin verslunarferð hér í Shanghai. Bróðir hans gaf honum bæði borðtennissett og babmíntonsett enda er aðstaða til slíkrar iðkunar hér í húsinu og á lóðinni. Kínverjar taka borðtennisiðkun sína mjög alvarlega og þegar við vorum að leita að svona sæmilegu setti fundum við búðir sem voru sérhæfðar í borðtennisvörum og seldu ekkert annað og spaðarnir rándýrir. Við enduðum í kaupfélaginu enda stefnum við ekki á ólympíuleikana í borðtennis.
Frikki og Sóley og afi og amma, Grænahjalla, buðu afmælisbarninu út að borða í afmælisgjöf og fundum við frábæran stað með kínverskan mat þar sem við borðuðum í hádeginu. Þar voru þjónar á hverju strái og strákarnir fengu kóngameðferð. Svo var haldið á Shanghai Museum sem er eins konar þjóðminjasafn. Hansi hefur alltaf verið mikið fyrir slíkt en bróðir hans finnst hann skoða svona söfn full nákvæmlega. Hann skoðar bókstaflega allt. Þarna var líka margt að skoða og spegúlegra. Við héldum svo á pítsastað í kvöldmat og á Coldstone ísréttastað í eftirréttinn. Svo komum við við hjá einum af götusölunum hérna og völdum okkur bíómynd á DVD á heilar 65 krónur íslenkar.
Daginn eftir var haldið í Lazer Tag. Áhugi hafði verið á að gera slíkt á afmælisdaginn en þá var allt upppantað. Við fórum því í heljarinnar byssuleiki í hádeginu á sunnideginum og komum öll rennsveitt út.
Í gær rann loks fyrsti skóladagurinn upp. Hann hófst reyndar frekar brösulega því skólabíllinn fann okkur ekki og við ekki hann. Jói var farinn í lestina en ég ætlaði beint út að skokka og var ekki með símann á mér. Jói sneri því við til að láta okkur vita en þá var bíllinn farinn. Ég tók því bara leigubíl með strákana og vorum við komin vel tímanlega. Þeir komu svo með skólabílnum til baka, sælir og glaðir. Elmar var himinlifandi með fyrsta skóladaginn og hafði eignast þrjá nýja vini; Roman frá Rússlandi, Peter sem hann man ekki hvaðan er og einn frá Ungverjalandi sem hann man ekki hvað heitir. Honum fannst mjög gaman í skólanum en leikfimikennslan olli honum vonbrigðum. Honum fannst hún alls ekki nógu markviss. Frímínúturnar eru lengri en heima þannig að hann komst í fótbolta og er, að eigin sögn, bestur í fótbolta í bekknum. Hann lærði svo bara heima í skólabílnum.
Hansi var nú ekki alveg svona jákvæður en fannst þetta ágætt. Hann vingaðist við einhverja stráka en kynnist þeim betur síðar. Hann er í fjölbrautarkerfi þannig að hann var ekki með sömu krökkunum í öllum tímum.
En lífið er ekki bara eintóm gleði. Í gærkvöldi fengum við þær hörmulegu fréttir að Jakob Örn Sigurðarson, félagi Elmars úr fótboltanum, væri látinn en hann veiktist á fimmtudaginn. Elmari og okkur öllum var mjög brugðið. Þeir Jakob voru jafnaldrar og hafa æft saman í nokkur ár. Þeir voru yfirleitt í sama liði á mótum, t.d. á Shellmótinu í Vestmannaeyjum í fyrra og voru miklir mátar. Elmar treysti sér ekki í skólann í morgun svo við erum tvö heima núna og ætlum að hafa það rólegt í dag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2008 | 09:44
Klárir strákar
Við fórum í skólann í gær til að ræða við námsráðgjafann í High School með Hansa og fá stundatöflur fyrir þá og skólabúninga. Í ljós kom að báðir strákarnir náðu lesskilningsprófi í ensku fyrir sinn aldur sem mér finnst í raun alveg ótrúlegt, sérstaklega Elmar því hann er bara búin að vera í ensku tæpa tvo vetur. Hansi er auðvitað löngu farinn að lesa skáldsögur á ensku svo ég átti allt eins von á þessu með hann. Hansi fer því bara beint inn í 9. bekk í High School í fjölbrautakerfi og á ekki að þurfa neinn stuðning í enskunni samkvæmt þessu. Hann fer líka í jarðvísindi, sögu, leikfimi og stærðfræði sem eru líka skyldufög á þessari önn hjá þeim. Stærðfræðiprófið kom ekki eins vel út hjá honum, þau þarna í Ameríkunni virðast vera lengra komin í stærðfræði en hann skildi líka stundum ekki hvað hann átti að gera (sagði hann) svo kannski skrifast eitthvað á tungumálið. Þar sem hann var svona góður í enskunni fær hann að taka tvö fög sem venjulega eru ekki í boði fyrir aðra en þá sem hafa ensku að móðurmáli fyrst um sinn en það er kínverska og kvikmyndir sem er enskuáfangi. Eftir að hafa ráðfært okkur við kínverskukennarann var ákveðið að skella honum bara í bekk með krökkum sem byrjuðu í kínversku í haust. Hann fékk með sér námsefnið sem þau eru búin með og er búin að sitja sveittur með það og hlusta á kínverskukennslu á geisladiskum sem við eigum. Að lokum fer hann svo í tónlist en þar getur hann annað hvort fengið að vera í rokkhljómsveit eða halda áfram í gítarnum í einhverju samspili með píanói. Hann ætlar að sjá til. Í vetur er hann búin að vera að læra á rafmagnshljóðfæri í vali í Kópavogsskóla og það getur allt eins verið að hann haldi áfram með það.
Stundatöflurnar eru öðruvísi en við eigum að venjast. Hansi er í raun með tvenns konar daga. Hver dagur byrjar og endar í heimastofu á umræðum, tilkynningum og stundum leikjum hjá þeim báðum í korter. Svo skiptist dagskráin eftir því hvort dagurinn sé oddatala eða slétt. 1., 3., 5., o.s.frv. hvers mánaðar er því saga, enska, stærðfræði og kvikmyndir, en hina dagana kínverska, leikfimi, tónlist og jarðvísindi. Elmar fékk líka sína stundatöflu og hún er eins alla daga. Fyrst fer hann í ensku og svo kínversku. Eftir mat er svo stærðfræði, vísindi, breytilegur tími (eða skemmtilegu tímarnir eins og námsráðgjafinn sagði) og svo samfélagsfræði. Breytilegu tímarnir eru leikfimi (því miður bara einu sinni í viku sem Elmari finnst allt of lítið), myndmennt, leiklist, leirmótun og -rennsla og svo tónmennt.
Ég held bara að þá hlakki til þótt þeir vilji ekki viðurkenna það. Skólabíllinn sækir þá við hliðið hjá okkur kl. 7:15 á mánudaginn. Þeir verða að vera í alla vega einum hluta skólabúningsins í einu. Þeir fengu sitthvora peysuna og tvo pólóboli hvor og svo verða íþróttaföt líka en þau eru ekki komin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.3.2008 | 03:49
Þessi borg
Það er stórkostlegt að vera hérna. Mér finnst frábært að fara út á götu og anda að mér menguninni, hlusta á ótrúlegan hávaðann sem er alls staðar og virða fyrir mér allt þetta fólk. Þessi borg er eins og blanda af New York og Kaíró. Ímynd hennar er hið nútímalega Kína, endalausir skýjakljúfar, framfarir, tækni og alþjóðlegur hrærigrautur. Hér eru t.d. veitingahús frá 60 löndum og maður á að geta keypt all hér sem fæst einhvers staðar annars staðar (ja nema svitalyktareyði). Við höfum ekki enn komið á lestarstöð sem endar ekki í flottu molli og frá lestarstöðinni okkar er innangengt í minnst þrjú moll, þar af ellefu hæða skrímslið.
Alls staðar til hliðar glittir hins vegar í gamla Kína. Í götunum kringum verlsunarhallirnar eru hreysi þar sem venjulegt fólk býr eða vinnur, eða jafnvel hvort tveggja. Þarna eru hræódýrir veitingastaðir, skítugir skraddarar, skósmiðir, þvottakonur og jafnvel dekkjaverkstæði á u.þ.b. fjórum fermetrum. Venjulegu kínverjarnir versla ekki í fínum búðum eins og Carrefour þar sem allt fæst. Þeir fara á markaðina þar sem maður getur keypt kjöt- og fiskmetið lifandi, hvort sem það eru skjaldbökur, hænur, froskar, álar eða önnur kvikindi. Venjulegir kínverjar hafa ekki efni pítsum á 700 krónur íslenskar á Pizza Hut eða hvíttandi andlitskremum sem kosta vikulaun.
Þegar við komum hérna fyrst fannst okkur skrítið hve fáa krakka við sáum. Jú, við sáum töluvert af litlum börnum, ýmist vel til höfðum í vestrænum fötum eða skítuga krakka að staulast um í kringum litlu búðirnar og húsin, í rasslausum buxum. Stundum hef ég séð þau leika sér á gangstéttunum, nærri umferðinni að því er virðist eftirlitslaus en þau virðast kunna að passa sig. Svo pissa þau bara þar sem þau eru. Okkur fannst eðlilegt að sjá fáa krakka þar sem eldri börnin væru sjálfsagt í skólanum en við sáum reyndar nánast enga krakka heldur á kvöldin. Bara einn og einn. Svo kom helgi og jú, eitthvað fjölgaði börnunum en ekki mikið. Nú vitum við hvers vegna. Í þessari borg óðakapítalismans gleymdist alveg að gera ráð fyrir skólum. Kannski var það bara ekki hagkvæmt. Góðir skólar eru jú plássfrekir og þegar hægt er að byggja hallir fyrir útlensk stórfyrirtæki er það greinilega bara gert. Hér eru nokkrir alþjóðlegir skólar eins og strákarnir mínir fara í sem eru ótrúlega dýrir. Við erum t.d. að borga um 600 þúsund fyrir þá báða í þessa þrjá mánuði en það er reyndar með skólaakstri upp að dyrum, þremur máltíðum á dag, öllum námsbókum og skólabúningum. Kínverjar mega hins vegar ekki sækja þessa skóla. Hér eru líka kínverskir skólar og þeir innheimta líka skólagjöld þótt þau séu ekki nærri því eins há og alþjóðlegu skólarnir eru að rukka. Venjulegu kínverjarnir sem koma hingað til að vinna hafa ekki efni á að senda börnin (eða öllu heldur barnið því hver og einn má bara eiga eitt barn) í þessa skóla og því er það svo að fólk sendir krakkana aftur í þorpið til afa og ömmu og krakkarnir fara í skóla þar sem ekki eru eins dýrir.
Gjáin á milli þeirra sem geta tekið þátt í kaupæðinu og þeirra sem geta það ekki er því ekkert að minnka. Við prísum okkur sæla að vera réttu megin við gjánna en reynum þó að láta ekki glepjast og prófa hitt lífið líka. Það væri ótrúlega auðvelt að lifa hér í miklum lúxus og loka augunum fyrir aðstæðum fólks. Hér er hægt að lifa fullkomnlega vestænu lífi en við ákváðum að gera það ekki.
Í gærkvöldi brugðum við þó undir okkur betri fætinum og fórum á fótboltaleik á Shanghai Stadium sem mun hýsa fótboltann á ólympíuleikunum í sumar. Þar öttu kappi LA Galaxy með sjálfan David Beckham innanborðs og Hong Kong United. Beckham og félagar unnu 3-0. Við náðum fínum myndum af kappanum sem von bráðar má sjá á heimasíðunni hans Elmars.
Á þessum fótboltaleik fannst okkur við í fyrsta skipti ekki vera eina vestræna fólkið. Þarna var hlutfallið svona 50/50 eða því sem næst. Allt í kringum okkur voru aðrir vesturlandabúar með fullt af krökkum og mikið stuð í stúkunni. Í hálfleik tókst okkur svo að hitta íslendinga en þar voru starfsmenn Össurar á ferðinni.
P.s. þeir sem vilja fylgjast með ævintýrum Loka í sveitinni geta skoðað myndasíðuna hennar Stellu ofurhundapassara: http://www.hundakofinn.is/myndaalbum/index.php?cat=0&page=2
Ég sé ekki betur en að það sé mikið stuð hjá honum. Svo er Stella líka að hugsa um að kenna honum að rekja spor sem honum finnst örugglega bara gaman.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2008 | 01:24
Daglega lífið
Nú er daglega lífið formlega hafið. Jói byrjaði í kínverskukennslunni í gærmorgun en hann verður alla morgna í kínversku í fjóra tíma á dag. Svo kom hann heim og æfði sig í skrift. Eitthvað sætt við það að sjá 38 ára gamlan skriftarnema en þetta er auðvitað engin venjuleg skrift. Strákarnir fara í uppröðunarpróf í ensku og stærðfræði í skólann sinn á morgun þannig að við ákváðum að hafa heimaskóla hér í blokkinni þangað til. Guði sé lof að þeir fara í skóla fljótlega! Við yrðum vitlaus á að vera hér saman, allan daginn, alla daga. Ég náði heilum átta stunda vinnudegi í gær en við tókum okkur hádegishlé og hittum Jóa hérna út í götu og fengum okkur að borða og gengum svo um franska hverfið. Við fórum á kínverskan stað í þetta skiptið og fengum ljómandi góðan mat en vitum ekkert hvað þetta var. Í núðlunum voru einhverjar tægjur með kjötbragði en þetta var örugglega ekki kjötvöðvi. Kannski var þetta eitthvað sojadæmi, kannski húð eða innyfli. Svo fengum við eftirrétti sem voru eins og ábrystingur sem flaut á ískrapi. Þetta var dísætt en ofan á þessu voru sykraðar baunir í öllum regnboganslitum sem brögðuðust eins og brjóstsykur með baunabragði og brún, hlaupkennd, ósæt sósa. Okkur fannst þetta nú ekki gott.
Það venst ágætlega að vera óupplýstur neytandi. Öll mín fullorðinsár hef ég lesið innihaldslýsingar allra matvæla sem ég hef keypt en hér eru bara ótal tákn sem ég hef ekki hugmynd um hvað þýða. Maður bara kaupir og vonar það besta. Annars hefur okkur yfirleitt fundist allur matur góður hérna og strákarnir smakka allt. Við kaupum yfirleitt þrjá til fjóra mismunandi rétti, svona til öryggis, ef einhver þeirra væri nú óætur. Hér borða menn líka hiklaust af sama diski og auðvitað reynum við bara að haga okkur eins. Réttirnir koma eftir því sem þeir eru tilbúnir, þannig að við fáum hvort sem er ekki réttina á sama tíma. Um daginn tókst Elmari að draga okkur á Pizza hut í sárabætur fyrir pítsurnar sem ekki fengust fyrsta daginn. Ákveðið var að strákarnir fengju ís í eftirrétt. En auðvitað tekur mun skemmri tíma að búa til ís en pítsu þannig að ísinn kom fyrst og þar sem hann geymist ekki mjög vel breyttist hann í forrétt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.3.2008 | 08:04
Náðugir dagar
Það er brostið á með vori hér í borginni. Hitinn í gær fór í 16°C og nú er 19°C. Gott við tókum ekki úlpurnar með og kuldaskóna. Það er þó enn svalt á næturna, hitinn bara um 2-3°C.
Við ákváðum að nota helgina í að skoða borgina aðeins betur og slaka á eftir átök síðustu daga. Í gær fórum við á vísinda- og tæknisafn sem var alveg stórkostlegt. Við fórum ekki fyrr en safnið var að loka og vorum þá orðin mettuð af vísindalegum fróðleik, þó aðallega náttúru- og jarðvísindum. Við ætlum að koma aftur seinna og skoða restina af safninu. Þetta var svona "hands on" safn þar sem gestir fá að prófa og taka þátt í ýmsu. Jói tók fullt af myndum sem hann setur vafalaust inn á netið fljótlega. Í dag lágum við í leti og lásum í morgun en ákváðum svo að fara út og fá okkur kínverskan götumat í hádeginu og fara svo og skoða Zhongshan garðinn sem er hérna rétt hjá. Við fundum okkur lítinn sóðalegan veitingastað við hliðina á Cluod nine, risaverslunarmiðstöðinni við lestarstöðina. Andstæðurnar hér eru svo ótrúlegar. Þarna er þetta svaðalega moll á 11 hæðum og er hver þeirra á stærð við Kringluna, í það minnsta. Þar eru vestrænir og reyndar líka asískir veitingastaðir út um allt og verðið í hærri kantinum á þeim flestum. Verðið í búðunum sem ég nenni reyndar ekki að skoða, verð bara uppgefin við tilhugsunina, er líka bara eins og í Evrópu eða Bandaríkjunum. Þarna í næstu götu fegnum við hins vegar ljómandi máltíð fyrir fjóra (sem við náðum ekki einu sinni að klára) fyrir um 250 íslenskar krónur. Vissulega hefði búllan mátt vera hreinni en við komum hingað til að prófa eitthvað annað en við erum vön. Svo héldum við í garðinn sem er ferlega skemmtilegur og margt um að vera fyrir alla aldurshópa. Margt fólk var í garðinum að njóta veðurblíðunnar, eldri borgarar sátu við steinborð að spila, margir voru í tennis eða boltaleikjum og enn aðrir bara að rölta um. Ég hef hugsað mér að skokka um garðinn á morgnanna en það er nokkuð ljóst að ég geri að ekki á sunnudagseftirmiðdögum þegar hann er fullur af fólki. Það yrði meira svona hindrunarhlaup. Í garðinum eru líka tívolítæki og biðu Elmar og Jóhann í röð í dágóða stund eftir að komast í klessubílana. Á meðan hitti Jóhann íslending og er þá sá fyrsti sem við komum auga á hérna en það var engin önnur en hún Björk sem er einmitt með tónleika hér í kvöld. Jóhann kastaði á hana kveðju og óskaði henni velgengni í kvöld. Við vorum að hugsa um að fara á þessa tónleika en öll ódýru sætin eru uppseld svo það myndi kosta okkur 30 þúsund kall. Elmari færi líka að leiðast eftir u.þ.b. korter og þegar honum leiðist verður líf allra í kringum hann óbærilegt þannig að við ákváðum bara að vera heima.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.2.2008 | 10:42
Flutt!
Nú höfum við komið okkur fyrir í Görðum gullborgarinnar en svo nefnist blokkin okkar, enginn Engihjalli hér neitt.
Nýja heimilisfangið er því:
Golden City Garden
íbúð 901
no. 16, Lane 1310.
Ding Xi RD.
ChangNing District,
Shanghai.
Þetta er bleik blokk á þrjátíu hæðum og okkur líður bara ágætlega hérna. Gærdagurinn fór í flutninga og innkaup en við skelltum okkur með lestinni í IKEA. Strákarnir voru ótrúlega duglegir og þolinmóðir og Hansi keyrði kerrurnar meðan við skottuðumst um og sóttum okkur eitt stykki búslóð. Hér eru húsgögn en ekki sængur og allir eldhússkápar tómir. Við skrifuðum innkaupalista en þegar við vorum búin með aðra hæðina vorum við ekki búin að geta strokað út neitt nema handklæði en vorum samt með fullan vagn af einhverjum bráðnauðsynlegum óþarfa eins og kertum og skóhornum. Eftir fyrri hæðina var nauðsynlegt að gera matarhlé. Jói fór með strákana í einhverja röð og ég fékk það ómögulega verkefni að finna borð fyrir okkur. Ég ráfaði um með kerru, skimaði í allar áttir, beið við borð þar sem mér þótti líklegt að fólk myndi standa upp fljótlega en kínverjarnir eru ótrúlega duglegri að troða sér og ég varð undir í lífsbaráttunni. Að lokum pikkuðu eldri hjón í mig og arfleiddu mig að borðinu þeirra. Þar sat reyndar kona og prjónaði upp í sig spagettí bolognese en ég varð að þiggja þetta góða boð því ekki var boðið upp á standandi borðhald.
Í lok IKEA-túrsins mikla fóru alls konar menn að reyna við Hansa greyið. Hann var með kerruna og þetta voru "leigubílstjórar" sem vildu greinilega fá að keyra þetta innkaupasjúka ungmenni. Þótt Hansi sé bara 14 (ja reyndar 15 eftir nokkra daga) og hafi þar til nýlega verið frekar lítill miðað við aldur, þykir hann sérlega hávaxinn og fullorðinslegur í Kína. Hér keppast menn um að bera í hann áfenga drykki sem hann reyndar neitar. Ég sem er margbúin að banna honum að vaxa svona ógurlega.
Ekki tók betra við þegar út kom því þar voru leigubílstjórar með bæklinga á kínversku um flutningsþjónustu IKEA sem kostar greinilega 88 RMB eða rúmlega 800 krónur. Hún miðast auðvitað frekar við eldhúsinnréttingar og bókaskápa en ekki leigubílaakstur. Húsmóðirin á heimilinu tók þessa kappa nú bara í nefið og heimtaði að þeir keyrðu eftir mælunum sem sannarlega voru í bílunum og fékk að lokum sínu framgengt eftir að fjölskyldan hafði sett upp lítinn leikþátt þar sem við þrömmuðum öll að lestarstöðinni með nýju búslóðina í risasekkjum og litla barnið með óhreinatauskörfu um hálsinn.
Síðdegis fengu strákarnir Simpson´s þerapíu á meðan við hjónin þrömmuðum í Carrefour og keyptum annað eins þar, hreinsigræjur og matvörur. Við vorum alveg búin á því og ákváðum að taka leigubíl þennan stutta spöl til baka. Þar var hins vegar löng röð en við fórum að spjalla við þann sem var fremstur og deildum bíl með honum. Það var ítalskur kaupsýslumaður, eins og það heitir í gömlum bókum, sem kemur hérna reglulega og hefur gert í 15 ár. Hann langar mikið á Þjóðhátíð í Eyjum sem hann hafði lesið um og skyldi nú ekkert í því hvað ég var neikvæð en ég reyndi að benda manninum á að skynsamlegra væri að gera eitthvað annað, kæmi hann til Íslands á annað borð. Honum fannst líka alveg fáránlegt að Jói kæmi hingað til að kynna sér kínverska viðskiptalöggjöf, "What law, there is no law!"
Fyrsta máltíðin í nýju íbúðinni var hálfmisheppnuð því í ljós kom að við höfðum gleymt að kaupa potta. Við veltum hinum ýmsu kostum fyrir okkur í þeim málum í IKEA og skoðuðum alls konar pottasett en einhverra hluta vegna rataði ekkert þeirra í innkaupakörfuna. Sem betur fer höfðum við samt keypt pönnu þannig að ég steikti kjúklingaleggina sem við höfðum tínt sjálf í Carrefour. Þar var stór haugur af leggjum á ís og maður týnir bara í poka eins og um væri að ræða banana eða epli og fuglaflensa, salmonella og camphylobacter séu bara eitthvað sem kemur fyrir hina. Hér er hrísgrjónasuðutæki sem við notuðum í gær en mér tókst að ofsjóða grjónin í mauk. Elmar tilkynnti mér snyrtilega að þetta væri langversta máltíðin í Kína so far. Nú er bara að sjá hvort ég nái að toppa það í kvöld. Jói ætlaði að kaupa potta á leiðinni heim úr skólanum en kom heim með inniskó, nýjan kodda og hraðsuðuketil. Vonlaus þessi maður minn.
Ég fór með strákana í viðtal í skólann í morgun og svo ákváðum við að skella okkur í dýragarðinn sem Lonely Planet mælir sterklega með en hann er stutt frá skólanum þeirra. Í Shanghai eru fá græn svæði og er dýragarðurinn langstærsti garður borgarinnar. Og hann er ægifagur, þótt hann verði örugglega enn fegurri í vor þegar allt er í blóma. En við vorum eiginlega alveg miður okkar í þessari dýragarðsferð. Eins og sumir muna örugglega var Hansi dýrasjúkur þegar hann var lítill og lék sé aldrei með annað en plastdýr og ófá gæludýr hafa búið með okkur, mest þrjár tegundir. Við höfum heimsótt dýragarða á nánast öllum stöðum sem við ferðast til eftir að hann fæddist og þótt hann sé að verða 15 er hann alltaf til í góðan dýragarð. Hér var hins vegar greinilegt að ekki fór nógu vel um dýrin og sum þeirra voru illa hirt, í ljótum feldi og jafnvel með skallabletti. Kannski var þetta ekkert verra en í Evrópu fyrir 20 árum en okkur fannst agalegt að horfa upp á dýrin. Kínverjarnir voru líka með hróp og köll og klifruðu yfir girðingar til að geta fóðrað dýrin á snakki og poppi og öðrum óþverra. Þetta skapar reyndar þær sérstöku aðstæður að dýrin sækja í fólkið. Við náðum t.d. að skoða úlfa í ótrúlegu návígi því þeir voru greinilega að vonast eftir bita. Mörg dýrin hegðuðu sér afar undarlega. Þarna var t.d. einhver rauður úlfur sem hljóp veggja á milli í litlu herbergi eins og gullfiskur sem syndir um snargeðveikur í of lítilli skál. Sárast var að sjá risapöndurnar, fílana og hunda. Pöndurnar eru greinilega aðalaðdráttaraflið en þær voru inni í þröngu rými. Útisvæðið var ekki spennandi og kannski eru þær stundum þar. Þær voru svo skítugar og hnípnar að það var hræðilegt. Fílarnir voru líka inni og hlekkjaðir á fótum. Ein kýrin var með kálf og ráfaði um eins og keðjurnar leyfðu. Eitt dýrið tvísteig endalaust, fram og til baka og skarkaði í járni með rananum svo glumdi í öllu. Á einu svæði voru svo hundar í um 5 fm glerbúrum, einn til þrír í hverju búri, af ýmsum tegundum en engir þeirra fallegir og alls ekki tegundatýpískir þótt þeir væru þarna í forsvari fyrir ákveðnar hundategundir. Sumir hundarnir voru hræðilega horaðir og ekki bara mjóhundategundirnar. Þetta fannst okkur hræðilegt og söknuðum Loka enn meir. Elmar fór strax að reikna út kostnaðinn við að kaupa hundana, flytja þá til Íslands og koma þeim á góð heimili en hætti þegar hann sá að það kostaði álíka og húsið okkar. Sem betur fer beið okkar svo póstur frá Stellu hundapassara þegar heim var komið sem sannfærði okkur enn meir um að hún er sko rétta manneskjan í djobbið. Í slöngudeildinni voru hvítar mýs inni í búrunum sem biðu þess að vera étnar. Okkur fannst það líka agalegt. Ég er enginn kjáni og þótt ég hafi átt svona mýs, veit ég að slöngur þurfa sitt og mýs eru ekki verri matur en hvað annað en þarna voru líka hálfhárlausir ungar sem hefðu með réttu enn átt að vera á spena hjá mömmu sinni og lágu bara ósjálfbjarga og voru að þorna upp. Sumir voru örugglega þegar dauðir. Þetta er harður heimur.
Nú ætla ég að elda kvöldmatinn. Spurning hvort hægt sé að elda spagettí í grjónasuðupottinum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2008 | 13:53
Nýtt heimilisfang
Þessi dagur var ekki eins kaldur. Í fyrsta lagi var hlýrra, sólin skein og ekki sást ský á himni. Engu að síður var himinninn grár af mengun og það sá maður betur en áður. Í öðru lagi vorum við betur klædd, eiginlega of vel klædd en það var allt í lagi, við vorum með bakpoka.
Fyrri hluti dags fór í túristaleik. VIð tókum lestina á torg fólksins og skoðuðum garð sem er þar nálægt. Þar var margt fólk sem hreyfði sig afar hægt og þóttist vera í leikfimi. Svo fórum við á listasafn Shanghai sem er í gömlu húsi með frægum klukkuturni sem eitt sinn gnæfði yfir svæðið. Nú sést hann varla innan um skýjakljúfana. Því næst gengum við að höfninni eftir göngugötunni Nanjing og virtum fyrir okkur skýjakljúfana hinum meginn við ána. Svo fórum við að skoða eina íbúðina aftur.
Íbúðin sem okkur langaði mest í var með fullri þjónustu og var í raun bara eins og hótel. Hún var hins vegar svakalega dýr og verðið hækkaði bara á meðan við vorum að hugsa okkur um. Í ljós kom að konan sem sýndi okkur íbúðina var með vitlaust verð og því miður, það var ekki hægt að hagga því. Við tókum því þá íbúð sem okkur leist næst best á og fengum á mun betra verði. Hún er alveg 130 fm, veit reyndar ekki hvort það er með herberginu sem er læst. VIð báðum nefnilega um tveggja eða þriggja herbergja íbúð. Þessi er þriggja herbergja og svo er ákveðið verð á það en svo læsa þeir einu herberginu og við fáum íbúina mun ódýrari! Da, hvað skiptir það þau máli hvort við notum þetta herbergi eða ekki. En alla vega, strákarnir verða saman í herbergi og við erum með þrjú tvíbreið rúm! Stofan er flennistór og svo er útskot út úr henni þar sem ég ætla að vera með vinnuaðstöðu. Þar er komið skrifborð og hillur. Þegar Elínbjörg og Bjarni heimsækja okkur í maí, geta þau fengið eitt tvíbreiða rúmið en strákarnir sofið á skrifstofunni.
Íbúðin er í Chaning hverfinu sem er ekki langt frá skóla strákanna. Það þykir frekar dýrt og þar sækir fjölskyldufólk í að búa, sérstaklega þar sem allir alþjóðlegu skólarnir eru í nágrenninu. Íbúðin er á 9. hæð sem hentar prýðilega fyrir æfingar mínar fyrir hálfmaraþonið sem er framundan. Á fyrstu hæðinni er svo lítill líkamsræktarsalur sem við notum kannski eitthvað. Þar er líka borðtennisborð sem Elmar er mjög spenntur fyrir. Öðrum meginn við húsið er franska hverfið, leyfar af hinni gömlu, útlensku, gjörspilltu Shanghai. Þar eru fremur lágreist, gömul hús í evrópskum stíl með litlum verlsunum og kaffihúsum. Mjög gaman að ganga þar um. Hinum megin við bygginguna er Zhongshan garðurinn sem er mjög skemmtilegur og margt um að vera í. Við hann er svaðalegustu lestarstöð og verslunarmiðstöð sem ég hef komið í. Þrjár lestarlínur eru þarna, þar af sú sem Jói þarf að taka til að komast í skólann. Verslunarmiðstöðin er á níu hæðum og þar ríkir greinilega eilíf þorláksmessa. Franska verslunarkeðjan Carrefour er með tvær hæðir og aðra þeirra bara undir mat. Við kíktum þar inn í raun bara til að sjá hvað hægt væri að kaupa af sængum og pottum og öðrum nauðsynum eða hvort við ættum að reyna að komast í IKEA (leið þrjú með lestinni) á morgun. Ég hef nú alveg farið inn í svakalegar matvörubúðir í Bandaríkjunum en þær voru bara skítur á priki miðað við þetta. Þarna syntu um lifandi fiskar í búrum og allar matvörur sem hægt var að ímynda sér voru fáanlegar. Þessi búð sérhæfir sig í vestrænum mat þannig að allir útlendingarnir fara og kaupa t.d. innfluttar mjólkurafurðir og þvíumlíkt en svo voru þeir með allan kínverksa matinn líka, t.d. svínsnef! Ég veit ekki alveg hvernig ég myndi matreiða það en það er alla vega hægt að kaupa það! Í einni búð niðri í bæ var líka hægt að kaupa vakúmpakkað svínsandlit!
Við tókum lestina heim á hótel og fórum þá sömu leið og Jói mun fara í skólann. Við byrjuðum á að labba út á lestarstöð sem er sambyggð þessu svaðalega molli. Þetta er í fyrsta skipti sem við tókum lestina á háannatíma. Okkur hefur samt aldrei tekist að fá sæti því hún hefur alltaf verið full. Núna var hún troðfull. Við þurftum að skipta um lest og labba töluverðan spotta á milli teina á torgi fólksins (people's square). Aldrei hef ég séð eins margt fólk á æfi minni og á þessari lestarstöð. Hugsið ykkur kringluna á þorláksmessu. Margfaldið með sex! Níu rúllustigar, auk venjulegra stiga voru upp úr stöðinni og ég held svei mér að það hafi verið tveir til þrír í hverri tröppu. Mannhafið er algjörlega súreallískt.
Dagurinn var alveg svakalega skemmtilegur og strákarnir sáttir og glaðir. Við sáum meira af borginni og fundum góðan stað til að vera á. Hvað þarf maður meira?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.2.2008 | 09:02
Kaldur dagur
Jæja, nú er lífið að taka á sig skýrari mynd. Í gær fór Jói og skráði sig í skólann og við heimsóttum skóla strákana. Okkur leist nú bara ljómandi vel á hann (fyrir utan hvað hann kostar helv... mikið). Í ljós kom hins vegar að strákarnir komast ekki í stöðuprófi fyrr en í næstu viku. Þeir eru því fríir og frjálsir þangað til. Jói fór áðan og náði í stundatöfluna sína. Hann mun læra kínversku, um kínverska menningu, kínverskt viðskiptalíf og kínverska viðskiptalögfræði. Þetta eru alveg nýjar upplýsingar fyrir hann því hann hélt hann væri að fara í allt önnur fög og líkari því sem eru á Bifröst. Hann er samt mjög ánægður með þetta því hitt var allt eitthvað sem hann gat lært hvar sem er. Í ljós kom að kennslan hjá honum byrjar heldur ekki fyrr en í næstu viku en hann á að mæta á föstudaginn í einhverja seremóníu og myndatöku.
Í dag fórum við að skoða íbúðir og leist okkur auðvitað best á þær dýrustu. Allar íbúðirnar eru í Changnig hverfinu sem er frekar stutt frá skóla strákanna en þeir verða svo sóttir með skólabíl. Við viljum ekki að þeir þurfi að vera of lengi í skólabíl á hverjum degi en umferðin hérna er svakaleg og ansi seinlegt að komast leiðar sinnar akandi. Metróið er hins vegar mjög gott og maður er miklu fljótari á milli staða neðanjarðar, auk þess sem það er næstum ókeypis. Ferðin kostar 30 kall á mann en svo er víst hægt að kaupa einhver afsláttarkort líka. Ólíkt því sem á sér stað í neðanjarðarlestinni í London og annars staðar þar sem ég hef notað svoleiðis og menn bíða með að fara inn þar til allir eru farnir út sem ætla, riðjast menn út og inn í einu. Að sjálfsögðu veldur það stíflu í dyrunum og menn komast hvorki inn né út og svo lokast dyrnar bara allt í einu þótt enn séu ekki allir komnir inn og jafnvel á fólk!
Eitt það snúnasta við að pakka fyrir ferðina var að á meðan við verðum hér eru þrjár árstíðir. Núna er vetur og skítkalt. Í morgun var tveggja stiga hiti, nokkuð hvasst og mjög rakt en svo létti til síðdegis og hlýnaði aðeins. Við hefðum þurft úlpur og skíðalúffur en þess í stað tókum við bara með okkur jakka og flíspeysur. Spáð var 8 stiga hita í dag og sól en hún lét lítið sjá sig og við vorum að krókna úr kulda. Kínverjarnir hita ekkert nema íbúðirnar. Í móttökunni í andyrinu hérna niðri sitja starfsmennirnir í dúnúlpum og á ganginum er líka mjög kallt. Í verslunum og sumum veitingastöðum er líka skítakuldi. Eftir íbúðaröltið vorum við lengi að þiðna og það er enn hrollur í okkur.
Næstu daga ætlum við að notfæra okkur þetta óvænta frí hjá körlunum mínum öllum og skoða borgina með húfu, trefil og vettlinga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.2.2008 | 01:46
Komin til Kína
Jæja, þá erum við loks kominn til Kína. Allt fram að síðustu stundu fannst mér þetta svo óraunverulegt og að eitthvað hlyti að koma upp á svo við kæmumst ekki en hér erum við nú. Við vorum að vísu nærri því búin að missa af tengifluginu því Flugleiðavélin var sein fyrir, hálftíma eftir fyrirhugaðan brottfarartíma átti t.d. enn eftir að afísa vélina var okkur tilkynnt í hátalarakerfinu eins og ekkert væri eðlilegra. Í London gátum við svo ekki lent vegna hinnar hefðbundnu umferðar og hringsóluðum um stund yfir borginni. Eftir lendingu tókum við hins vegar bara boot campið á þetta og hlupum milli terminala með kerrur með öllum okkar 87 kílóa farangri. Við vorum ekkert sérstaklega vinsæl meðal annarra vegfarenda en hei, við náðum vélinni.
Strákarnir voru svakalega góðir á leiðinni - jákvæðir og kurteisir. Planið hjá mér var að sofa í vélinni enda ekki mikið sofið nóttina fyrir brottför og kominn dagur í Kína þegar við lentum. Ég fann mér þennan fína heimildaþátt til að sofa yfir og steinsofnaði en hrakk upp með andfælum þegar Jói ákvað að slökkva á þættinum því ég væri sofnuð. Arg ...
Gærdagurinn fór því í að hvíla sig og skoða nánasta umhverfi. Við erum á hóteli á skólalóðinni hans Jóa og höfum það bara fínt. Í gær fórum við tvisvar út að borða. Í fyrra skiptið fundum við einhvern stað þar sem enginn talaði ensku og pöntuðum einhverja fjóra rétti. Þar fengum við svínakjöt, kjúkling (vona ég), skjaldböku í þarasósu sem var bara fín og svo einhvern niðurbrytjaðan smáfugl með beinum. Allt var þetta mjög gott. Um kvöldið vorum við lúin og vildum eitthvað kunnuglegra. Því fundum við "pítsastað" en var svo tilkynnt að því miður fengjust þar engar pítsur, en við fengum öll ágætan mat í staðinn. Staðurinn var skreyttur jólaskrauti sem hékk niður úr sprinklerunum í loftinu. Efast um að þeir myndu gera mikið gagn ef kviknaði í, svo rækilega var þeim pakkað inn í silfraðar grenilengjur. Í andyrinu var jólatré í fullum skrúða og jólalög hljómuðu í hátölurunum.
Í morgun vöknuðum við um fimmleytið, hress og kát. Jói fór að læra en ég dreif mig út að hlaupa um leið og birti. Ég skokkaði um alla skólalóðina og fann að lokum íþróttasvæði þar sem fjöldi manns skokkaði á 400 m hlaupabraut. Fæstir voru mjög íþróttalega klæddir, sumir í straujuðum skyrtum og stífpressuðum buxum. Mér til mikillar undrunar og gleði hljóp ég fram úr öllum. Ég sem er alltaf með þeim síðustu í hlaupunum í stígvélabúðunum og hef haft það mér til afsökunar að vera stutt í annan endann - aðallega þann neðri. Hér er fólk hins vegar almennt með frekar stuttar lappir og ekkert að flýta sér. Einn ungur maður hljóp þó hraðar en ég en hann var nú líka í íþróttagalla og afar einbeittur á svip! Ég náði þó að taka framúr honum og halda forskotinu einn hring. Í lokinn kom svo maður sem var hreinlega í hlaupabuxum og svaka formi og bað mig um að fara í kapp. Ég var til í það og náði að vinna hann. Á íþróttasvæðinu var líka fullt af fólki í svona kínverskri leikfimi sem virðist ganga út á að hreyfa sig mjög hægt. Efast um að hún teljist til loftháðra æfinga.
Jói er núna á skrifstofunni að láta vita af komu sinni. Á eftir förum við svo í heimsókn í skóla strákanna og vonandi að skoða íbúðir líka.
Sem sagt, stuð í Kína.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)