26.4.2008 | 03:07
Feik í steik
Eins og ég hef vikið að áður eru kínverjar ekkert sérlega áfjáðir í að fylgja höfundaréttarlögum. Við höfum alltaf lagt mikið upp úr því við strákana að við stelum ekki hugverkum. Við vinnum bæði störf sem snúa beint að afkomu og hagsmunum listamanna og rithöfunda og það er ekki í boði heima hjá okkur að heimsækja torrent-síður og downloada tónlist eða sjónvarpsefni á netinu.
En sinn er siður í hverju landi. Hér erum við með ótal sjónvarpsstöðvar, flestar kínverskar en einnig japanskar, tvær amerískar fréttastöðvar (sem eru reyndar ekki alltaf aðgengilegar sökum ritskoðunar) og tvær bíórásir sem sýna sömu myndirnar aftur og aftur þannig að hér er ekki mikið sjónvarpsefni í boði sem hentar okkur. Engar eru vídeóleigurnar og hvergi má sjá stórar geisladiska- og mynddiskabúðir eins og í Evrópu og Bandaríkjunum. Ekki er heldur hægt að kaupa hugbúnað í verslunum. Þess í stað eru menn á reiðhjólum með kerrur fullar af DVD-diskum á nánast hverju götuhorni, og stundu nokkrir saman, sem bjóða vinsælar bíómyndir og sjónvarpsþætti til sölu. Geisladiskurinn kostar 7 yuan eða um 70 krónur, alveg óháð því sem er á honum. Einnig er hægt að finna litlar geisladiskabúðir þar sem verðið er stundum örlítið hærra (fer upp í 12 yuan) en diskarnir hinsvegar í hylki (þeir eru bara í umslögum úti á götu en lagt mikið í prentun og hönnun). Í þessum búðum má oft líka finna tónlist. Þar er hins vegar um alveg sama feikið að ræða og á götuhornunum. Oft er gífurlega mikið lagt upp úr flottum umbúðum, kóverin eru spottlökkuð og bæði á kínversku og ensku. Reyndar er oft eins og þessi Arnþór Jónsson, pennavinur Björns Bjarnarsonar, hafi skrifað heitin á lögunum aftan á diskana því stafsetningin er ekki upp á það allra besta. Maður þarf aðeins að rýna í titla eins og "Well Lome to oparadlse", Backet case" og "In acittle wile" til að sjá að þarna á að standa Wellcome to Paradise, Basket case og In a little while.
Mig langaði í nýja hlaupatónlist og lagði því leið mína í eina búllu hérna í götunni í gær. Þar voru fjórir hressir og skemmtilegir strákar að aðstoða viðskiptavinina. Mér fannst þeir reyndar frekar afskiptasamir því þeir vildu endilega selja mér einhverja ástarþvælu sem er nú ekki alveg minn tebolli "It is very kosy, you now!" Töluvert var af góðri tónlist í búllunni og valdi ég mér disk með Amy Winehouse. Allir diskarnir sem fengust í búðinni innihéldu hins vegar tvo diska. Ég kannaðist ekki við að fröken Winehouse hefði gefið út fleiri en einn disk en hvað veit ég svo sem. Auk þess gat nú verið að kínverjarnir hefðu fundið einhverjar tónleikaupptökur og ákveðið að skella þeim með. Diskarnir eru í afar vönduðu og flottu tréhylki og á báðum er mynd af Amy Winewouse. Ég fer heim með diskana og á fyrri disknum syngur Amy Winehouse svo sannarlega eins og sá fallni erkiengill sem hún er. Svo skelli ég þeim síðari í og sé þá mér til undrunar að þetta er diskurinn All good things með Gwen Stefani! Fínt að fá hann!
Mér finnst þetta svo fyndið að ég gat ekki hamið mig og fór aftur í búðina til að skoða. Nú var Hansi kominn heim (Elmar er í íþróttaklúbbi í skólanum á föstudögum og kemur því seinna heim) þannig að hann kom með mér í þennan rannsóknaleiðangur. Við keyptum einn tvöfaldan U2 disk og gaman að segja frá því en á þeim var tónlist frá U2 og Green Day (sem er auðvitað frábær blanda) en einnig nokkur U2 lög í flutningi annarra og svo nokkur lög í viðbót sem eru ágæt en við kunnum ekki frekari deili á. Við keyptum einnig Green Day disk sem við eigum eftir að hlusta á en virðist álíka spennandi blanda. Sem sagt nóg af hlaupatónlist. Í búðinni var líka tvöfaldur diskur með Mika sem hefur, eins og Winehouse, bara gefið út einn disk en á honum var að því er virtist einhver gospel-tónlist.
Þessi markaður með feik vörur hefur verið til umfjöllunar í skólanum hjá Jóhanni. Kennarinn hans vill meina að nokkurs tvískilnings gæti hjá vesturlandabúum og það er örugglega hárrétt hjá honum. Erlendu nemendurnir eru harðir þegar þeir spyrja hvers vegna Kína láti þetta viðgangast en næsta spurning er iðulega hvar þessir markaðir eru svo fólk geti farið þangað og verslað. Hann fordæmdi götu DVD salana og sagði að fólk ætti bara að kaupa í litlu búðunum en þegar nemendurnir bentu honum á að diskarnir þar væru líka feik kom hann alveg af fjöllum. Hann hafði ekki hugmynd um það.
Refsingar í Kína virðast vera mjög harðar en hins vegar er frekar fáum refsað. Hér úti á götu eru umferðarreglurnar t.d. svoleiðis þverbrotnar af ÖLLUM að það er með ólíkindum. Um daginn horfðum við á tvo bíla keyra á móti umferð í götu þar sem er einstefana. Á gatnamótunum var lögreglubíll og hann gerði ekki nokkurn skapaðan hlut. Kínversk stjórnvöld setja hins vegar upp leikþætti öðru hvoru sem þeir kynna vel, Um daginn las ég í Shanghai Daily að tveir menn voru teknir fyrir að selja og falsa DVD diska og fengu fáránlega mikla refsingu. Bara hér í götunni á nokkur hundruð metra kafla eru hins vegar svona 10 aðrir sem sleppa. Refsingar virðast því fremur vera öðrum víti til varnaðar og sýndarmennska fyrir vesturlönd sem fordæma stuldinn.
En smá mont: Hér er fáránlega gott veður, 25 stiga hiti, gola og glampandi sól. Himininn kemur með instant sólvörn (lesist: mengun) svo maður tekur að vísu engan lit en það er æðislegt að vera úti og þangað ætla ég einmitt núna. Adios!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.