Gleðilegt sumar!

Það er eins og garðyrkjumenn Shanghai-borgar viti að á morgun er sumardagurinn fyrsti heima á Fróni því nú eru þeir í óða önn að skipta út blómum í blómakerum borgarinnar. Þegar við komum í febrúar voru skrautkál í öllum blómabeðum og blómakerjum en nokkrum dögum síðar réðust menn á beðin eins og menningarbyltingin væri skollin á aftur og hökkuðu kálið og slitu það upp með þvílíku offorsi að við höfðum aldrei séð aðrar eins aðfarir við garðrækt. Stuttu síðar (mjög stuttu síðar) var búið að gróðursetja rauðar og fjólubláar stjúpur af álíka krafti út um allan bæ. Þegar ég kom að Zhongshan-garði í morgun var þar her manns að rífa upp stjúpurnar og planta gulum og appelsínugulum flauelsblómum og það sem meira var, fimm metra háa jólatréð sem hefur staðið á upphækkuðum hól, fullskreytt með stjörnu og alles síðan við komum (ja eða sennilega síðan fyrir jól ...) var HORFIÐ!!!! Í stað þess var þarna bara einmana moldarhrúga. Ég bíð spennt eftir því hvað kemur í staðinn.

En annars er sumarið komið hér í Kína, hitinn er yfirleitt 18 -20 stig en ekki alltaf sól. Reyndar höfum við rekið okkur á að það rignir alltaf á laugardögum sem okkur finnst frekar hvimleitt því að demburnar geta orðið allsvakalegar. Síðasta laugardag var spáð sól og blíðu og ákváðum við því að taka lest út fyrir borgina og skoða einn af "kanalbæjunum" hér í kring en þeir eru við Yangzi-fljótið og eru einskonar feneyjar. Við fórum til Suzhou sem er einna stærsti bærinn og þar er margt að skoða. Við keyptum lestarmiða á síðustu stundu svo ekki voru til miðar nema á fyrsta farrými. Bærinn er 100 km frá Shanghai en ferðin tók einungis 30 mínútur enda fór lestin á 260 km hraða.

Við skoðuðum safn tileinkað sögu silkisins sem er nátengd verslunar- og samgöngusögu Kína. Þá fórum við líka upp í pagóðu sem er hæsti slíki turn í Kína, alls níu hæðir og í hefðbundinn kínverskan garð. Það var gaman að komast út úr borginni og töluvert annar bragur á verslunum og veitingastöðum í Suzhou en í Shanghai. Þar voru líka miklu færri vesturlandabúar og vöktum við töluverða athygli. Við hittum menn sem vildu fá að taka myndir af sér með strákunum og veittu drengirnir góðfúslega leyfi fyrir myndatökunni. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skiptið sem við lendum í þessu en Elmar hefur alloft verið spurður hvort hann sé til í myndatöku. Honum fannst þetta svo óþægilegt á tímabili að hann var jafnvel að hugsa um að gefa draum sinn um atvinnumennsku í fótbolta upp á bátinn því það væri ömurlegt að vera svona "frægur". Nú er hann hins vegar orðin vanur þessu og finnst þetta ekkert mál.

Það sem einkenndi þennan ágæta dag öðru fremur var rigningin. Það byrjaði að rigna um leið og við stigum út úr lestinni og því keyptum við okkur regnhlífar. Í Suzhou er ekkert metró og færri leigubílar en í Shanghai en hins vegar mikið um fólk á reiðhjólum með vögnum. Við höfum aldrei þorað í svoleiðis farartæki hér í borginni enda umferðin snarklikk en nú var ekki annað í boði. Ákaflega elskuleg stúlka keyrði með okkur eins og herforingi að silkisafninu á mótorhjólinu sínu. Næst þegar við þurftum á flutningi að halda birtist hún aftur eins og fyrir töfra og hjólaði með okkur á nýjan leik. Í lok dags brast hins vegar á þvílík demba og þá þurftum við einmitt að koma okkur á lestarstöðina. Það var vonlaust að reyna að fá leigubíl þannig að við tókum hjólavagn í þriðja skiptið sem öslaði með okkur í þessu syndaflóði. Það þarf ekki að taka það fram að þótt það hafi vissulega verið tjald yfir hjólinu blotnuðum við allsvakalega því vatn göslaðist inn í vagninn frá hliðunum en við skemmtum okkur bara vel og skellihlógum alla leiðina.

Lestarferðin heim á leið tók helmingi lengri tíma enda var það bara venjuleg lest og við á venjulegu farrými. Við fórum fyrst inn í biðsal áður en hleypt var að lestinni. Þar fórum við í einfeldni okkar í röð við hliðið út á brautarpallinn og biðum þar töluverða stund því lestin var sein. Allt í kringum okkur sátu hins vegar Kínverjar og og höfðu það náðugt. Svo heyrðist kallið og þótt enn væru 10 mínútur í brottför og lestin alls ekki komin spruttu allir á fætur og fóru að ryðjast út. Kínverjar læra það seint og illa að þeir komast ekki allir í einu á tiltekin stað. Menn ýttu og tróðust eins og allur hópurinn væri að missa af lestinni. Þegar á brautarpallinn var komið var lestin ekki einu sinni komin en þegar hún kom tók ekki betra við. Reyndar voru verðir sem gættu þess að menn kæmust ekki inn fyrr en farþegarnir sem voru að yfirgefa lestina voru komnir út en svo hófst troðningurinn aftur. "Ég þori að veðja að þegar við komum inn situr eitthvað fólk í sætunum okkar" sagði Jói og það reyndist alveg rétt hjá honum. Þar voru einmitt nokkrar eldri konur sem sátu við þá sóðalegu iðju að éta sólblómafræ. Við bentum þeim góðfúslega á að miðarnir væru númeraðir og þetta væru sætin okkar og þá spruttu þær á fætur og settust í næstu lausu sæti. Þar sátu þær í hálfa mínútu þar til eigendur þeirra sæta komu og ráku þær burt og svona gekk þetta koll af kolli. Af hverju þær gátu ekki bara sest í sín eigin sæti er okkur hulin ráðgáta.

Næstu helgi verðum við heima því Jói þarf að læra undir próf og skrifa ritgerðir og Elmari Tryggva er boðið í barnaafmæli á eitt af flottari hótelunum hér í borg. Hann hlakkar mikið til því, ekki síst vegna þess að honum hefur löngum þótt við foreldrar hans hálfgerðir ónytjungar þegar kemur að lúxus í ferðalögum. Hann hefur nefnilega aldrei gist á 5 stjörnu hóteli og hefur oft hreinlega kvartað yfir undarlegri forgangsröðun okkar. Hins vegar finnst mér hann hafa ansi óraunhæfar hugmyndir um afmælisveislur á fínum hótelum því hann trúir mér bara alls ekki þegar ég er að reyna að benda honum á að sennilega megi krakkarnir ekki hlaupa um í þessu afmæli. Svo fannst honum líka fáránleg hugmynd hjá mér að hann þyrfti að klæða sig eitthvað upp. Ég heimtaði að kaupa á hann buxur og nýja skó því hann tók bara einar buxur með sér sem ekki eru íþróttabuxur (þær eru samt Nike sko) en vegna mikillar notkunnar eru nú komin þrjú göt á þær. Skórnir sem hann er með eru einnig í henglum. Hann sá að lokum ljósið og samþykkti kaupin. Það verður því hreinn og strokinn ungur maður sem mætir á Regent Shanghai á sunnudaginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband