14.4.2008 | 00:14
Skemmtileg afmælishelgi
Tíminn líður alveg ótrúlega hratt. Nú er dvöl okkar hálfnuð og okkur finnst við nýkomin hingað.
Önnin kláraðist hjá strákunum á föstudaginn þannig að þeir komu heim með einkunnir og stóðu sig báðir mjög vel. Elmar var bara prófaður í lesskilningi og svo skrifaðri ensku og stóð sig vel í hvoru tveggja. Hans fékk mjög góðar einkunnir í öllu sínu og töluvert hærri en við höfum verið að sjá hjá honum heima á Íslandi upp á síðkastið.
Við héldum tvöfalda afmælishátíð um helgina því Elmar á afmæli á miðvikudaginn en þá er ég farin í Boot Camp áður en þeir vakna á morgnanna og Jói kemur ekki heim fyrr en hálftíu á kvöldin þannig að miðvikudagur er vonlaus afmælisdagur og því færðum við bara afmælið. Elmar var búinn að panta aðra ferð í vísindasafnið og þar vörðum við laugardeginum. Við fórum meðal annars í súrelaíska ferð í gegnum meltingarveginn í tívolívögnum. Við vorum með þrívíddargleraugu því hluti af ferðalaginu var þrívíddarbíó. Magnað að þykjast vera matur. Við lágum í hláturskasti. Kínverjar hafa mjög undarlegar hugmyndir um fræðsluefni.
Eftir safnið sem við höfum nú náð að klára að skoða fórum við út í garð sem er þar hjá og keyptum okkur flugdreka. Elmar hafði fengið fótbolta í afmælisgjöf frá bróður sínum þannig að við gátum leikið okkur heilmikið. Vísindasafnið er í Pudong sem er hinum meginn við ána sem sker í sundur borgina. Þar voru eingöngu akrar fyrir 1988 þegar hafist var handa við að byggja upp fjármálahverfið. Nú eru endalausir skýjakljúfar þar og bæði sjónvarpsturninn eða Oriental Pearl eins og hann er kallaður og JinMao turninn sem báðir segjast vera hæðsta bygging í Kína. Við fórum um daginn upp í JinMao en það eru endalausar biðraðir upp í Oriental Pearl og því nenntum við auðvitað ekki. Efst uppi er hins vegar veitingastaður - og eins og í perlunni heima snýst hann. Þangað héldum við því pabbi og mamma buðu afmælispeyjunum út að borða í tilefni dagsins og þurftum ekki að bíða í neinni röð. Takk fyrir það. Uppi í þessari kínversku perlu var glæsilegt hlaðborð með öllu sem manni gæti dottið í hug að fá sér. Þarna áttum við góðar stundir við gluggann og nutum útsýnisins sem var alveg stórkostlegt úr nærri 300 metra hæð. Við fórum svo niður eina hæð en þar er útsýnissvæði og tókum svo lyftu niður í 90 metra hæð sem var líka gaman. Í gær áttum við rólegan dag, fórum út í garð að leika og höfðum það náðugt. Næstu helgi ætlum við að reyna að fara út úr bænum.
Athugasemdir
Til hamingju með drenginn Magga mín
Ellý (IP-tala skráð) 16.4.2008 kl. 09:27
Takk fyrir það. Hann fékk ís í skólanum í dag og voða flott kort frá öllum bekkjarfélögunum. Kom alsæll heim. Nú situr hann hér við hliðina á mér og margfaldar almenn brot. Svo ætlum að að skreppa eitthvert út í kvöld og fá okkur bita að hans vali. Óttast að það verði ekki að mínum matarsmekk ;-)
Margrét Tryggvadóttir, 16.4.2008 kl. 09:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.