27.5.2008 | 11:57
Klístur og eldingar
Það var svoooo heitt í dag. Um helgina þegar við vorum í Xi´an var 36°hiti og glampandi sól en það var ekkert miðað daginn í dag. Hitinn fór reyndar ekki í nema 33°en rakinn hefur verið stigvaxandi síðan um helgina. Á sunnudaginn varð Bjarni fimmtugur og var ákveðið að fara í perluturninn og njóta sólarlagsins og borða góðan mat. Það sást ekki ský á himni en mistrið var þvílíkt að skyggnið var ekkert og birtan ótrúlega spúkí. Rakinn í borginni í dag var það mikill að ég fór í sturtu kl. 7 í morgun og í hádeginu var hárið á mér enn blautt. Maður verður ótrúlega klístraður við þessar aðstæður og skynjar að það er rétt sem maður hefur heyrt - sumrin hér eru óbærilega heit, blaut og rök. Við skruppum út í götu í kvöldmat og þegar við komum út aftur var farið að rigna og komið þrumuveður. Svakaleg elding reið yfir á meðan við hlupum heim og við töldum að hún væri í um 4 km fjarlægð en svo fylgdu aðrar í kjölfarið eftir að inn var komið sem virtust bara vera hér í húsasundinu enda fylgdi þruman strax á eftir.
Enn er himininn í ljósum logum. Svei mér, ég held að það sé best að við förum að koma okkur heim.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.