Xi´an, leirhermenn og Chinglish

Í gærkvöldi komum við heim eftir afar vel heppnaða ferð til Xi´an. Borgin á sér afskaplega langa og mikla sögu og var lengi vel höfuðborg Kína. Á fimmtudaginn röltum við um borgina, skoðuðum moskvu og múslimahverfi og fórum á skemmtilegan útimarkað. Á föstudaginn fórum við svo og skoðuðum leirhermennina. Jói bókaði bílstjóra og stóran bíl og bað um venjulega pakkann. Við komumst fljótlega að því að hinn venjulegi pakki væri fyrir ofurmenni því á þessum eina degi var okkur gert að skoða fáránlega marga staði og söfn og bílstjórinn sem skildi eiginlega enga ensku fór alltaf með okkur á nýjan og nýjan stað þar til um fimmleytið að við, orðin örmagna af skoðun, neituðum að yfirgefa bílinn og sögðum bara hótel, hótel. Hitinn var um 33°C og glampandi sól en við sáum margt áhugavert. Leirherinn var alveg stórkostlegur og ótrúlega flottur. Um kvöldið fórum við á ótrúlega fyndinn veitingastað sem hét Fusion buffet. Staðurinn var á annarri hæð við aðalgötuna í Xi´an en okkur leist nú ekkert á aðkomuna því veggfóðrið var allt flagnað og ótrúlegt drasl út um allt. Við ákváðum þó að kíkja upp og komumst að því að ruslið var vegna framkvæmda og uppi var næstum því snyrtilegt. Þjónustustúlkan sem tók á móti okkur bæði byrjaði og endaði allar setningar á Helllooo og sagði einnig hellooo oft inni í miðjum setningum. Við vorum einu vesturlandabúarnir á staðnum og vöktum mikla athygli. Alltaf gaman að vera stjarna.
Orðið "fusion" er hugtak sem notað er um matargerð þar sem kokkurinn leikur sér að því að blanda saman ólíkum stefnum í matargerð. Þarna virtist hugtakið þó aðallega eiga við skreytingarnar því annað eins samansafn hef ég aldrei séð. Við komum inn í flennistóran sal sem var fullur af fólki og mat. Drykkir voru innifaldir í verðinu sem var 48 yuan eða um 500 krónur. Margir virtust því nota tækifærið til að drekka ansi mikinn bjór því við sáum unga menn bera heilu kassana að bjór að borðinu sínu. Það er einmitt eitt sem er öðruvísi í Kína, fólk er svo opið í öllu svona. Heima myndi fólk passa að það sæist alls ekki hvað það væri búið að taka mikinn mat eða drykk en hér er aldrei hreinsað af borðum fyrr en í lok máltíðar og allir sjá hversu mikið hefur verið neytt og það er ekki feimnismál. Ég sá einn rogast með níu 640 ml bjórflöskur skælbrosandi. Ekkert að því. Maturinn var líka bara fyndinn. Þarna voru fjögur stór hlaðborð með öllu sem maður gæti ímyndað sér. Eitt var reyndar tileinkað "hot-pot" en það er næstum eins og fondue, bara soð í pottinum. Kínverjar eru nú reyndar mun hugmyndaríkari með pottana sína en svisslendingar. Þarna var t.d. hægt að fá lifandi krabba og ála til að skella í pottinn. Alltaf gott að fá ferskan mat. Við nenntum ekki í hot pot vesenið en yfirgáfum staðin södd, sæl og hlægjandi.
Í gær áttum við sérlega ánægjulegan dag í 36°C hita sem er það mesta sem við höfum upplifað hérna. Við byrjuðum daginn á að hjóla 14 km leið uppi á borgarmúrum gömlu Xi´an. Þaðan var frábært útsýni. Elínbjörg ætlaði ekki að treysta sér en svo var boðið upp á tvímenningshjól svo Bjarni hjólaði eins og herforingi með hana aftan á. Elmar skipti svo á hjóli við ömmu sína síðasta spölinn og fékk að vera aftan á hjá Bjarna. Seinniparturinn fór svo í bæjar- og safnarölt. Ólíkt Shanghai er greinilega ekki innbyggð sólvörn í loftinu í Xi´an þannig að við brunnum örlítið í gær.

"Chinglish" er skemmtilegt hugtak. Það er notað um skrítna ensku sem víða má finna í Kína. Reyndar hafa yfirvöld verið í útrýmingarherferð gegn chinglish í Beijing vegna ólympíuleikanna - allt á að vera fullkomið í alþýðulýðveldinu. Stjórnvöld hafa meira að segja verið að dunda sér við að búa til rigningu í Beijing svo borgin verði fallega græn í ágúst. Og það er hún. Grasflatir eru fagurgrænar, blómstrandi rósarunnar út um allt og gróðurinn gróskumikill. Munurinn er sérlega áberandi þegar komið er á stað eins og Xi´an þar sem hagsæld er ekki eins mikil og í Shanghai og Beijing. Shanghai og Hong Kong eru ríkustu og dýrustu borgir Kína. Hong Kong hef ég ekki heimsótt en hagsældin þar er að sjálfsögðu af öðrum toga en á meginlandi Kína. Í Shanghai er startgjald leigubíla 11 yuan eða 110 krónur og það fer ekki að hækka fyrr en eftir töluverðan tíma. Ég var að borga 17 yuan til að komast í leikfimi á morgnanna og fyrir 40 yuan komumst við borgina þvera og endilega. Í Beijing er startgjaldið 10 yuan en í Xi´an er það bara 6 yuan. Við keyrðum heillanga leið fyrir 7 og fimmtíu eða tæplega 80 krónur. Grasið er ekki eins grænt í Xi´an og á ríkari svæðum en þar blómstrar hins vegar hið dásamlega tungumál chinglish. Við sjáum reyndar alltaf eitt og eitt fyndið skilti hér í borginni en í Xi´an og smáborginni Jixian sem ég dvaldi í tvo daga fyrir hlaupið er meira um chinglish. Jixian er ekki ferðamannabær og því lítið um leiðbeiningar fyrir ferðamenn á ensku. Enska þykir hins vegar sérlega flott á stuttermaboli og verslunarheiti og oft er áletrunin gjörsamlega óskiljanleg en stundum bara einkennilega orðuð. Í Jixian sá ég verslun sem heitir Fat woman dress sem mér fannst ekki sérlega söluhvetjandi. Í Jixian talar nánast enginn ensku og það var eins og ég væri Angelina Jolie að ganga um götur borgarinnar, athyglin var þvílík, ekki síst þegar í ljós kom að ég gat gert mig skiljanlega á kínversku. Xi´an er hins vegar einn af helstu ferðamannastöðum Kína og flest skilti á ensku, auk kínversku og þvílík dásemd! Hér eru örfá dæmi:

Thehonouredprayerhii
og
Theretrdspectientower (Kínverjar nota ekki stafabil í kínversku, því hver stafur er eitt orð. Afhverjuþáaðspanderaorðabilumáþessaútlendinga.)

Se do not ente (ég held að þarna hafi átt að standa Do not Enter)

Keep your bags well, Take care of your china ware

Cantlon wet floor

Xinyuan Seafood and porridge city (merki á veitingastað)

Health toe club (veit ekkert hvað fór fram þar ...)

Love in all in (merking á spítala)

Toppurinn var tvö skylti við glænýtt safn Xi´an-borgar, höggin í granít:

Please not to tramble.
Small grass too Contain life

Take good care of flowers and trees.
Do the civilisation visitor

Hvað rekur fólk til að láta höggva þessa vitleysu í granít veit maður ekki. Margir kínverjar bæði tala og skrifa prýðilega ensku og sagt er að það séu fleiri enskumælandi hér í Kína en í Bandaríkjunum. Elmar hefur verið að leika sér að því að láta þýðingarvélar á netinu þýða setningar af ensku yfir á Kínversku og svo til baka og þá fáum við oft svipaða gleðigjafa. Málin eru svo ólík í uppbyggingu að þýðingarvélarnar prumpa út tómri vitleysu. Þegar ég var í bókmenntafræði tók ég kúrs í þýðingarfræðum þar sem m.a. var fjallað um takmarkanir vélrænna þýðinga. Þar heyrði ég söguna af því þegar í fyrsta sinn var opnuð þýðingarvél á milli kínversku og ensku með viðhöfn. Orðtækið Out of sight, out of mind var slegið inn og kínversku þýðingunni svo snúið aftur á ensku. Útkoman var Blind idiot.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband