29.4.2008 | 13:05
Fjör um helgar
Nú er helgin nýbúin og sú næsta innan seilingar. 1. maí er einn aðalhátíðisdagurinn í Kína og nú er fjögurra daga frí framundan. Þess vegna tóku þeir jólatréð - þeir skiptu því út fyrir 1. maí blómum. Hingað mun streyma ferðafólk frá öllu Kína. Við verðum hins vegar á siglingu á Yangtzi-fljótinu. Við munum fljúga til borgar sem heitir Chongquin og sigla niður eftir fljótinu sem ku vera alveg stórkostlegt. Veðurspáin er reyndar ekki alveg eins og við höfðum vonað. 1. maí á reyndar að vera glampandi sól og 28°C hiti en svo næstu daga á hitinn að fara yfir 30° og vera þrumuveður. Humm, við vonum að það gangi ekki eftir. En það verður gaman að sjá aðra hluta Kína. Chongouin er eiginlega í landinu miðju og þar er landslagið mjög frábrugðið sléttunum í kringum Shanghai. Flugið þangað tekur 2 og 1/2 tíma.
Síðustu helgi vorum við heima því Jói þurfti að læra og Elmari var boðið í þetta líka svaðalega afmæli. Við vorum lengi að finna út hvað hægt væri að gefa barni sem heldur upp á afmælið á 5 stjörnu hóteli en að lokum datt okkur eitt sniðugt í hug. Elmar keypti sér svona glerkúlu-lampa á vísindasafninu sem gefur frá sér eldingar (sko inni í glerinu) ef maður snertir glerið. Æ, þið vitið hvað ég er að tala um - það eru alltaf svona kúlur á vísindasöfnum og ótrúlega gaman að snerta þær og sjá "rafstraumana" sem leita í hendurnar. Við fórum því og keyptum svona kúlu handa stráksa.
Í afmælinu var mikið um dýrðir. Við Hansi fylgdum honum þangað. Okkur var umsvifalaust boðið rauðvín eða hvítvín, Hansi fékk sér bara kók. Hann hefur ekki undan að berja frá sér tilboð um áfengi og sígarettur. Foreldrar afmælisbarnsins vilu endilega að við værum í afmælinu en Hansi var ekki alveg að fíla þetta þannig að við létum okkur hverfa og fórum á söfn. Í afmælinu var boðið upp á hlaðborð sem var bara eitt það flottasta sem ég hef séð, þrír kokkar að skera kjötið og eftirréttirnir ekkert slor. Jói fór svo að ná í strákinn. Hann kom heim með heilan haldapoka af gjöfum og verðlaunum sem hann fékk. Nú er hann að reyna að sannfæra okkur um að gista síðustu nóttina okkar á þessu fína hóteli - helst síðasta mánuðinn svo hann geti "hámað í sig allan daginn" eins og hann orðaði það svo pent.
Síðustu vikur höfum við Jói verið að skoða listalífið í borginni, heimsótt vinnustofur listamanna og gallerí. Þau eru að miklum hluta við eina götu þar sem er alveg svakalega skemmtilegt samfélag í gömlu vöruhúsi og tengdum byggingum. Svo var hér stór kaupstefna, Shanghai Art, þar sem gallerí frá öllu Kína kynntu sig og listamennina sína en einnig gallerí frá Kóreu, Japan og fleiri löndum. Það er rosalega gaman að sjá hve margt er að gerast í listinni hérna - og svo fær maður auðvitað tækifæri til að skoða í þjóðarsálina, lesa í myndunum það sem ekki má segja með orðum. Síðasta laugardag fórum við svo á opnun á sýningum sem okkur var boðið á í Moganshan Lu. Þar reyndist vera verið að opna fleiri sýningar þannig að við vorum á stanslausum opnunum frá 3-5, gengum bara á milli. Þær sem okkur hafði verið boðið sérstaklega á voru haldnar af sama galleríinu en í tveimur sýningarsölum og var klukkutími á milli opnanna. Boðið var upp á drykki og svo voru nokkur atriði. Fyrst dönsuðu tvær stúlkur einhvern vasaklútadans, svo kom ein í geishu-búningi og var með agalega flott atriði og síðastur kom mikill galdrakarl klæddur í hefðbundinn óperugalla með grímu og skipti svo um grímu ótal sinnum. Það birtust minnst 15 mismunandi grímur á andlitinu á honum og að lokum yfirvaraskegg sem kom og fór lika. Við skiljum alls ekki hvernig hann fór að þessu en hann var ýmist, blár, grænn, eða rauður í framan og allt þar á milli. Á hinum opnununum var meira lagt upp úr veitingum og á einum stað var ótrúlega flott hlaðborð.
Nú eru gæludýrasalarnir farnir að selja bæði hænu- og andarunga sem þeir hafa alla saman í einni kássu í kassa á hjólinu sínu. Mig hefur nú alltaf langað í hænsni en ég skil samt ekki alveg hvernig fólk hugsar sér þetta. Fá krakkarnir að leika sér með lítinn unga og svo étur fólk hann þegar hann stækkar og fer að gala eða hvað? Annars náði nú gæludýrafárið hérna nýjum lægðum þegar við gengum fram á eina sem var að selja lyklakippur. Við lyklahringinn var plasthjarta með lituðu vatni í og nokkrum steinum á botninum. Þegar nánar var að gáð sáum við að í vatninu svamlaði lítill lifandi fiskur, einn í hverju hjarta. Hvernig er þetta hugsað? Á maður að klippa gat á hjartað og hleypa fiskinum út og leyfa honum að synda frjálsum - t.d. í vatnsglasi (sem væri auðvitað hundrað sinnum stærra pláss) eða áttu bara að setja lyklana þína á kippuna og biða fylgjast með fiskinum geyspa golunni. Það er alla vega ekki hægt að gefa honum að éta inni í lyklakippunni, svo mikið er víst! Virðingin fyrir lífi er lítil og kemur manni sífellt á óvart.
Nú er Jói í prófum. Hann fór í próf í lesinni kínversku á mánudag og fékk 6.5 og í skriflegri í dag og gekk víst hörmulega. Á morgun fer hann í samtalspróf og er búinn að loka sig inni í herbergi þar sem hann er með stífar æfingabúðir. Rétt í þessu var hann að tilkynna mér að hann gæti talað kínversku í 2 mínútur og 20 sekúntur. Geri aðrir betur!
Athugasemdir
Gaman að lesa um líf ykkar í Miðríkinu. Hef aldrei þekkt jafn marga þar eins og núna! Hlakka til að heyra Jóa tala kínverskuna. Við erum frekar slök í arabísku, helst að bræður sletti orði hér og þar. Bestu kveðjur úr hitanum...
E.s. Kærar þakkir fyrir póstkortið!
Ágústa (IP-tala skráð) 6.5.2008 kl. 15:41
Alltaf jafn gaman að kíkja á ævintýrin ykkar í Kína. Fer nú ekki að styttast í að þið komið heim? Maður hlakkar til matarboðs í Reynihvammi með kínversku þema miðað við reynslu húsmóðurinnar af matreiðslukennslunni :o)
Hlakka til að sjá ykkur
Kveðja, Kristín P :o)
Kristín P (IP-tala skráð) 6.5.2008 kl. 19:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.