Pekingendur og aðrir furðufuglar

Við skruppum út að borða í gærkvöldi og fundum agalega huggulegan stað hér í næstu götu. Svo skemmtilega vildi til að matseðillinn sem við fengum var bara á kínversku en myndskreyttur mjög. Ómögulegt var þó að geta sér til hvað var á myndunum nema við sáum þessa fínu pekingönd og þar sem við erum nú í Beijing fannst okkur alveg tilvalið að fá okkur svoleiðis. Stúlkan sem tók við pöntuninni talaði eiginlega enga ensku og þar sem kínverskukunnátta okkar er enn mjög fábrotin (en fer þó skánandi) kallaði hún til svein nokkurn sem kláraði að taka pöntunina. Málið var að það tekur 50 mínútur að elda svona önd. Þau vildu því að við pöntuðum eitthvað fleira sem við gætum borðað á meðan öndin væri í ofninum. Við vorum ekki á því og tilkynntum að við vildum bara bíða. Það þótti þeim ákaflega undarlegt. Nú, öndin kom stundvíslega eftir 50 mínútur og með henni tvær sósur, ýmiskonar grænmeti og litlar hveitikökur til að rúlla bitunum upp í. Þetta bragðaðist afskaplega vel og vorum við öll södd og sæl þegar þjónninn kom aftur og spurði okkur hvað við vildum gera við líkið (What do you want to o with the body?). Í boði var að steikja það eða sjóða súpu. Við völdum það síðarnefnda og fengum því súpu í eftirrétt.

Dagurinn í dag hefur verið rólegri en gærdagurinn. Við ætluðum í grafhýsi Maos en hér er einhver þjóðhöfðingi í heimsókn sem var að skoða það og forboðnu borgina þannig að svæðið var lokað þannig að við röltum bara um og höfðum það náðugt. Í fyrramálið ætlum við hins vegar á Kínamúrin og verðum sótt kl. 6:30 í fyrramálið. Við förum að okkur skilst lengra en flestir túrhestar og löbbum á milli tveggja bæja en það er fjögurra tíma ganga. Við ætlum því snemma í háttinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband