Boot camp og brjálað að gera!

Ég er búin að finna Boot camp tíma hérna í Shanghai og ætla að vera í þeim annan hvern dag á móti hlaupunum. Fyrsti tíminn var í morgun en mér tókst að villast aðeins. Ég tók leigubíl sem skildi ekki alveg hver ég var að æða þarna um sexleytið og ók mér að einhverju musteri og sagði mér að labba restina því gatan að musterinu var lokuð. Þarna voru logandi eldar í tunnum og fólk streymdi víðsvegar að til bænagjörða og það eina sem honum datt í hug að ég gæti verið að gera á þessu svæði á þessum tíma dags var að iðka trú mína. Þegar ég fann ekki líkamsræktarstöðina hringdi ég í þau og fann nýjan leigubíl sem var lóðsaður á réttan stað í gegnum síma.  Ef einhver hneykslast á því að ég skuli vera að taka leigubíla í líkamsrækt vil ég benda þeim á að hér kostar minna í leigubíl en í strætó á Íslandi.

Annars var stórkostlegt að upplifa borgina svona við sólarupprás í morgunkyrrðinni. Það voru eiginlega engir bílar á götunum en mörg hjól að flytja ýmsar vörur. Ég sá t.d. tvö hjól að flytja heila svínsskrokka. Annar var að vísu á svona þríhjóli sem eru notaðir sem flutningabílar hérna en hinn var bara á tvíhjóli með tvo svínsskrokka í heilu lagi á böglaberanum.

Boot camp tíminn var fínn en kannski ekki alveg eins og ég er vön. Þjálfarinn er grískur og nemendurnir víðs vegar frá. Það er greinilega mikil hætta á vökvaskorti í Griklandi því þjálfarinn sagði okkur örugglega svona tuttugu sinnum að fá okkur vatn. Þrjár armbeygjur, fáið ykkur nú að drekka, nokkrar hnébeygjur, fáið ykkur að drekka! Ég sem hef varla drukkið deigan dropa við æfingar frá áramótum. En þetta var fínt. Aðallega var nú bara gaman að hitta annað fólk en mína ágætu og heitt elskuðu fjölskyldu og svo voru æfingarnar líka fínar og góð tilbreyting. Við fórum á lítinn hverfisíþróttavöll og þar var auðvitað múgur og margmenni að labba afturábak og svona. Amerísk stelpa sem er búin að búa hérna lengi segir að fólk geri þetta á hlaupabrettunum á líkamsræktarstöðvunum líka.  Þetta byggist víst á einhverjum kenningum um að þú eigir að vinda ofan af líkamanum með því að labba ekki bara fram heldur líka aftur! Þið getið reynt þetta heima ...

Eftir Boot campið labbaði ég heim og fékk mér morgunmat á leiðinni, eins konar pönnuköku sem bökuð er á stórri hellu á götuhornum. Ofan á deigið skella þeir einu eggi sem þeir dreifa um kökuna og ofan á það koma ferskar kryddjurtir, smá grænmeti, baunamauk, chilli og laufabrauð, reyndar í þykkara lagi. Þessu er svo rúllað upp, namm, namm. Fyrir þetta greiddi ég sem svarar 20 íslenskum krónum og var södd og sæl til hádegis.

Það er fullt að gera hjá mér núna því við ætlum í ferðalag í næstu viku og ýmis verk sem þarf að ljúka fyrir þann tíma. Strákarnir fara í sitt ameríska vorfrí og við vorum með ýmsar vangaveltur um hvernig best væri að nýta þetta frí og Jói ætlaði jafnvel að skrópa einn dag en það er svo frí í skólanum hjá honum á föstudaginn eftir viku. Við ætluðum til Beijing aðra helgina og að skoða leirhermennina hina en heim á milli. Svo hugkvæmdist okkur að biðja bara um frí í skólanum hjá Jóa og þar á bæ sögðu menn bara have a good week þannig að við erum öll í fríi – jibbí! Því miður er Jói í prófi á föstudagskvöldið þannig að við getum ekki tekið næturlest til Beijing fyrr en á laugardagskvöldið. Þetta er 12 tíma ferðalag og best að upplifa það bara sofandi. Þannig sparar maður líka hótel. Annars verðum við á ferlega skemmtilegu hóteli í Beijing sem er í 250 ára gömlu húsi sem er í kringum 500 ára gamlan garð. Það lítur afar skemmtilega út á netinu – vonum að það verði jafn flott í kjötheimi.

Annars er bjálað að gera í félagslífinu hjá mér því á morgun byrja ég í matreiðslunámi. Ég verð í læri hjá tælenskum kokki sem er gestakennari en í apríl mun ég nema kínverska matargerð. Ég held að þetta verði mikið stuð.

Annars höfum við hjónin staðið fyrir skemmtilegu verkefni tengdu matargerð. Synir okkar hafa verið soldið að kvarta þegar þeir koma með okkur í matarinnkaupin og svo er hann Hansi stundum eitthvað svo lost og ekkert að hugsa um hvert við erum að fara og hvernig við komumst þangað. Verkefnið fólst í því að honum voru réttar 200 yuan og sagt að redda mat fyrir fjögurra manna fjölskyldu. Jói fylgdi á eftir með nýju vídeókameruna hans og tók myndir af herlegheitunum. Hann ætlaði fyrst bara á KFC hérna hinum meginn við götuna en Jói sagði honum að fara í búðina. Hann fann mollið en það tók víst ansi langan tíma að finna búðina og ég lái honum ekki fyrir það. Þar snérist hann í endalausa hringi en kom að lokum út með hakk og hamborgarabrauð (tilbúnir hamborgarar fengust ekki) og úr þessu var fínn matur. Elmar vildi náttúrulega ekki vera minni maður þannig að í kvöld snæddum við kjúklingaleggi í chillí og sítrónu með tortillaflögum, ananas, tómötum og jarðarberjum! Í bæði skiptin tók það þá einn og hálfan tíma að kaupa í matinn!

Annars er vor í lofti hérna, hitinn á daginn fer í 18°sem er kjörhitastig fyrir homo sapiens og flesta daga er sól en þegar rignir þá rignir. Hér eru blómstrandi magnólíutré, kirsuberjatré, eplatré, ferskjutré og ég veit ekki hvað ... Þetta er dásamlegt líf en ekki frjálst líf. Við komumst enn ekki inn á mbl eða vísir en þeir þora ekki að loka cnn og er mikið stríð háð á þeim vígvelli. Jói keypti china daily í dag og þar er forsíðu”fréttin” af kínverskum nemum í útlöndum (stendur ekkert hvaða útlöndum) sem hafa tekið höndum saman og stofnað samtök til höfuðs ósanngjörnum fréttaflutningi cnn sem þeir segja rógbera illra vestrænna afla. Elínbjörg mun því (vonandi) setja þessa færslu inn fyrir mig.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband