Hundlaust

Á páskadagsmorgun heyrðum við hátt gelt hérna fyrir utan. Við, hundasjúka en hundlausa fjölskyldan, þustum út í glugga að gá hvað væri um að vera. Hér úti á plani voru tveir stórir loðboltar, annar hvítur og hinn gulur. Báðir voru með eigendum sínum í viðringu og áttu eigendurnir það sameiginlegt að ráða ekkert við hundana. Sá guli hafði verið að gera númer tvö en vildi nú ólmur hlaupa í hinn hundinn og átti eigandinn í mesta basli við að halda í hann og hreinsa upp eftir hann. Sá hvíti vildi líka í fjörið og það var hann sem gelti. Að lokum leyfðu eigendurnir þeim að hittast smástund. Á þetta gláptum við eins og hér væri á ferðinni stórmerkilegur atburður, óskarsverðlaunamynd eða hreinlega Duran Duran væri hérna úti á plani. Það er illa komið fyrir okkur. Hér er ekki mikið um hunda en gæludýraeign, þar með talið hundahald, fer þó mjög vaxandi með batnandi efnahag fólks og auknum frístundum. Þessi borg hentar hundum mjög illa. Græn svæði eru fremur fá og hundar þar að auki bannaðir í þeim. Við höfum þó séð svolítið af hundumm hérna. Við höfum séð nokkra flakkara sem hljóta að vera afar vel gefnir fyrst þeir hafa enn ekki lent undir bíl. Svo höfum við bæði séð nýtískukínverja og svona gamaldags (fátækari) með hunda. Í götunum með litlu, gömlu húsunum hér á bak við blokkina eru nokkrir hundar af óræðnum tegundum sem fylgja fólkinu og virðast bara vera lausir í kring um sitt fólk og í blokkunum í kring er fólk með ýmsar fínni tegundir hunda og virðist lítið hugsa út í að hundar þurfa mikla hreyfingu svo þeim líði vel. Hér skilst mér að hundaeign sé að verða stöðutákn - það þyki flott að halda stóran hund, helst mjög loðinn (sem hlýtur að vera hræðilegt fyrir hundana hér í hitanum) og þá er minna hugsað um hvernig dýrunum líði. Um daginn sáum við Hansi t.d. tvo púðluhunda þar sem feldurinn hafði verið litaður í alls kyns bleikum og bláum litum. Stuttu síðar mættum við manni með tvo hunda sem voru klæddir í litla skó. Hundaeign er ný af nálinni hér, alla vega síðustu misserin því hundahald var bannað hér í menningarbyltingunni því það þótti bera vitni um borgaralegt líferni. Í kjölfarið fylgdi vitanlega hinn mesti rottufaraldur sem sögur fara af enda ófáir hundar haldnir til að drepa mýs og rottur. Engu að síður er saga hunda í Kína löng, raunar lengst - því nýlega hefur verið sýnt fram á með DNA rannsóknum að allir hundar heimsins eru undan þremur kínverskum úlfynjum. Hundurinn varð því til sem dýrategund einmitt hér. Og kínverjar eiga líka sinn þátt í sögu hundaræktunar. Evrópumenn voru farnir að rækta dýr með því að para saman einstaklinga með þau einkenni sem sóst var eftir fyrir lifandis löngu og á 19. öld voru þeir farnir að stofna ræktunarfélög og skrá hundategundir með markvissum hætti. Til að fá minni hunda, pöruðu þeir saman minnstu hundana eða bjuggu jafnvel til tegundir úr tveimur öðrum. Þannig eru sumar hundategundir til í ólíkum stærðum. Kínverjar kunnu aðrar aðferðir við að móta holdið eftir sínu höfði. Rétt eins og þeir reirðu fætur stúlkubarna til að afmynda þá og gera þá minni (og ekki síður til að búa til konur sem áttu erfitt með gang og gátu ekki forðað sér á flótta) ræktuðu þeir hunda í of litlum búrum til að hefta vöxt þeirra. Húð þessara hunda hélt hins vegar áfram að vaxa og virðist því of stór fyrir skrokkinn á þeim. Nefið, sem öllum hundum er svo nauðsynlegt og er langt og mjótt af náttúrunnar hendi varð klesst upp við andlitið. Að lokum urðu til hundar sem þurftu ekki búrið til að fá þennan sérkennilega vöxt, hann var orðinn innprentaður í genin. Í ópíumstríðunum komu hingað breskir hermenn sem tóku með sér þessa litlu skrýtnu hunda heim til Bretlands þar sem þeir slógu strax í gegn og voru skráðir sem sérstök tegund að nafni Pekingese í hundaræktarfélög. Frá þeim hafa verið ræktaðar fleiri krumpaðar tegundir. Enn í dag eiga þessir hundar við margvísleg heilsufarsvandamál að stríða og eiga t.d. erfitt með að eignast afkvæmi svo oftast þarf keisaraskurð. Svo eiga þeir oft erfitt með að anda með þessu stutta nefi sínu. Annars var páskahald hér með hefðbundnum hætti framan af degi sem þýðir að við gerðum lítið annað en éta páskaegg. Mamma og pabbi voru svo elskuleg að senda okkur með smáegg sem við höfum verið að gæða okkur á á kvöldin síðustu daga til að minna okkur á hvaða hátíð er. Í gær voru hins vegar mölbrotnu nóaeggin dregin fram og falin vandlega. Jói fann ekki sitt sem var frekar fyndið enda höfðu strákarnir troðið því upp í falskt loft hérna. Það er miklu auðveldara að fela brotin páskaegg en heil! Húsmóðirin á heimilinu fékk ekkert páskaegg. Hún vissi sem var að þessi börn hérna eru svo matvönd á nammi að það yrðu nægir afgangar fyrir hana. Þeir borða til dæmis ekki lakkrís, karamellur né brjóstsykur og mér hefur aldrei fundist íslenskt súkkulaði neitt sérstaklega gott, of mikið plöntufeitisbragð af því. Það er þó hátíð miðað við kínverskt súkkulaði, jafnvel ég verð að viðurkenna það. Við lögðum svo land undir fót og fórum í innkaupaleiðangur. Hansa langaði að kaupa sér vídeóupptökuvél svo hann geti búið til myndbönd og sett á netið. Við fórum á eitthvert svæði sem þekkt er fyrir endalausar raftækjabúðir og völdum eitthvað sem hét Ciber city. Þarna var stórt torg og hvert risamollið á fætur öðru í kringum það. Ég skil alls ekki hver nennir að versla í þessu öllu saman. Mér fallast algjörlega hendur þegar kemur að þessum búðum hérna. Mér hefur ekki einu sinni tekist að kaupa mér sjampó! Á leiðinni í lestina til baka gengum við fram á mann sem sat í tröppunum niður í lestarstöðina með stóran pappakassa fullan af þessum dásamlegu hvolpum. Við tókum mynd og skoðuðum þá en spurðum ekki einu sinni hvað þeir kostuðu. En mikið var erfitt að stilla sig um að fá að halda á þeim. Hér er líka verið að selja kanínur, naggrísi, hamstra og skjaldbökur á hverju götuhorni og það er ferlega erfitt að stilla sig en það er víst ekki annað í boði. Við vitum hins vegar að Loki hefur það afargott í Hundakofanum og fáum reglulega myndir og fréttir af honum þar.

Nú eru allir komnir í skólana sína aftur og mannlífið og umferðin æðir framhjá án þess að renna í grun um að á Íslandi sé lögbundinn frídagur. Rétt í þessu heyri ég hins vegar í flugeldum sem er nú reyndar daglegt brauð þannig að einhver er sjálfsagt að gera sér glaðan dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæhæ

Gleðilega páska frá okkur úr Hundakofanum, betra seint en ekki hehe

Loki er kátur, hann er ennþá svartur á litinn, hver veit nema ég geri eins og kínverjarnir og prófi mig áfram í litunum  meiri vitleysan í þessu fólki

Merkileg lesning um öfgar mannkynsins! 

kveðja

Stella (IP-tala skráð) 24.3.2008 kl. 13:40

2 identicon

Páskakveðjur frá Braziliu!

Sóley og Frikki (IP-tala skráð) 25.3.2008 kl. 10:58

3 identicon

P.s. við skiljum ykkur alveg með hundana. Það er alveg fullt af hundum hérna og mikið af villtum hundum sem Frikki þurfti að stoppa mig í að klappa :)

Sóley og Frikki (IP-tala skráð) 25.3.2008 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband