Föstudagurinn langi

Nú er föstudagurinn langi og lífið gengur sinn vanagang. Strákarnir fóru í skólann í morgun og voru bara sáttir við það þótt þeir viti að heima á Íslandi séu allir í páskafríi. Hér í landi trúleysingjanna er ekki haldið upp á páskana og hvergi páskaegg nég skraut að finna. Við vorum með lítil nóapáksaegg að heiman í eftirrétt áðan til að minna okkur á hvaða hátíð er.  

Hér eru hins vegar jólatré á hverju strái. Í gær fórum við Jói í “smá” útréttingar. Við þurftum að fara í banka og skipta peningum fyrir leigunni (sem betur fer skiptum við fullt af krónum í dollara í nóvember þegar dollarinn var 62 krónur), fara á pósthúsið og borga fyrir þátttöku mína í kínamúrsmaraþoninu og senda þrjá litla pakka til Íslands og kaupa í matinn. Þetta tók rúma þrjá tíma og við vorum ekki komin heim þegar strákarnir komu heim úr skólabílnum. Sem betur fer voru þeir ekkert farnir að örvænta, biðu bara í rólegheitum. En í bankanum í gær var einmitt jólatré á miðju gólfinu. Við erum orðin svo samdauna þessu að við tókum ekki eftir því fyrr en Jói hafði labbað fram hjá því þrisvar (hann þurfti að fylla út ýmis eyðublöð víða um bankann) og ég hafði setið við hliðna á því heillengi. Svo lá leiðin í pósthúsið. Mér skilst að það heiti póstvesenið í Færeyjum. Það er réttnefni fyrir það í Kína. Þeir sem skipuleggja maraþonið báðu mig um að borga fyrir þátttökuna í pósthúsi því þá kæmi nafnið mitt fram sem greiðandi sem myndi ekki gerast í banka. Við Jói skiptum liði í póstveseninu. Hann fór í reikninginn og lenti í að fylla út heilt eyðublað á kínversku sem hann leysti af stakri snilld með aðstoð gamals manns. Ég fór með þrjá litla pakka og ætlaði að henda þeim í póst. Eitt var nú eigilega bara bréf en fólkið panikaði alveg þegar það sá mig með tvö hvít umslög og flatan heimatilbúinn pakka út serjóskössum. Þetta gekk alls ekki. Ég þurfti að fylla út níu skjöl, sem betur fer ekki á kínversku því þá væri ég enn í póstveseninu og sýna þar til gerðum starfsmanni innihald pakkanna. Svo þurftum við að endurpakka heila klabbinu. Fyrir þetta greiddum við margfalt andvirði þess sem í pökkunum var. Elínbjörg segir okkar að samkvæmt númerunum hafi heila klabbið verið sent í ábyrgðarpósti en það var ekki meiningin.

Annars hefur netið verið að stríða okkur. Við komumst seint og illa inn á fréttasíður (þar með talið moggabloggið enda er það Elínbjörg sem setur þetta inn fyrir mig) en fljúgum inn á leikjasíður og spjallsíður. Þessi ritskoðun er nú svona frekar misheppnuð, finnst mér, því við erum með CNN Asia í sjónvarpinu og þar er auðvitað um lítið annað rætt en ástandið í þessu landi. Vonandi lagast þetta fljótlega – bæði ástandi í landinu og netsambandið.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband