19.3.2008 | 06:46
Nú verður ekki aftur snúið
Ég er loksins búin að skrá mig í The Great Wall Marathon sem fer fram þann 17. maí n.k. Reyndar ætlaði ég að vera löngu búin að því en síðan þeirra opnast aldrei hérna hjá mér og ég fékk engin svör við tölvupóstum sem ég sendi á netfangið þeirra. Ég brá því á það ráð að senda fyrirspurn á Albatros travel í Danmörku sem selur ferðir í hlaupið og þau útveguðu mér rétt netfang.
Þetta er nú ekki í eina skiptið sem síða opnast ekki. Hér er til dæmis ekki hægt að komast inn á neinar Wikipediu-síður, þær eru allar læstar. Mig grunar að ég komist ekki inn á þessa síðu héðan því sömu aðilar eru að skipuleggja hlaup í T Í B E T og mér skilst að það sé orð sem netlöggan sé að skima eftir þessa dagana.
Ég verð að viðurkenna að ég fékk smá fiðrildi í magann þegar ég var búin að skrá mig. Þótt ég ætli ekki í heilt maraþon í þetta skiptið, heldur bara hálft, veit ég að þetta er mun strembnara en venjulegt götuhlaup því múrinn er víða ósléttur, auk þess sem leiðin sem hlaupin er á múrnum sjálfum er öll upp í móti. Kínamúrinn er þannig byggður að hann liggur alltaf þar sem landið rís hæst. Útsýnið er því gríðarlega flott en á móti kemur að hlaupið verður erfiðara en ella. Á þessum fimm kílómetrum af rúmlega 21 sem hlaupið er á múrnum sjálfum eru 3700 tröppur. Í morgun hljóp ég upp stigann hérna í blokkinni (það er stutt sprettaæfing hjá mér á miðvikudögum) og það eru bara 480 tröppur en það tók sko vel í og ég stóð alveg á öndinni þegar upp var komið. Nú er bara að halda áfram að æfa sig og láta ekki bugast við tilhugsunina um þennan endalausa stiga sem bíður mín.
Ég er líka að reyna að vera skynsöm í matarræðinu og það gengur ágætlega miðað við aðstæður. Ég elda hérna heima flesta daga vikunnar og reyni þá auðvitað bara að bjóða upp á eintóma hollustu. Þrátt fyrir allt úrvalið í matvöruverslunum hérna er töluverð kúnst að töfra fram kvöldmatinn því maður er svo vanur að hafa allt við höndina, vera með fulla kryddskúffu undir eldavélahellunum og sósujafnara og ýmis hjálparefni við höndina. Hérna eldar maður eiginlega allt frá grunni. Innkaupin taka töluverðan tíma því ég er svo lengi að finna það sem mig vantar því flestar vörur eru bara merktar með kínversku letri. Flest krydd er selt í lausu eða mjög stórum pokum sem ómögulegt er að átta sig á hvað er í. Annars kaupi ég líka ferskar kryddjurtir, mikið úrval af þeim þótt ég viti ekki hvað allt er. Um daginn hélt ég að ég hefði aldeilis komist í feitt þegar ég fann eitthvað sem á stóð "seasoned salt" og hélt ég hefði fundið season all sem hefur nú reddað manni í margri útilegunni. Þegar heim var komið kom í ljós að kryddin í þessari blöndu voru anis, engifer, chilli og fleira þannig að útkoman var aðeins öðruvísi en ég átti von á. Svo var ég búin að leita lengi að kókosmjólk, því hér er lítið um tilbúnar sósur og enn minna um mjólkuafurðir sem hægt er að nota í sósur. Loks fann ég það sem ég var að leita að - bara ekki í litlum dósum heldur lítersfernum.
Annars þarf verulega einbeittan brotavilja til að kaupa sér nammi hérna. Við höfum komist að því að kínverskt súkkulaði er yfirleitt óætt en reyndar finnast vestræn súkkulaði í Carrefour en þau eru rándýr. Töluvert úrval er af snakki og jafnvel vörumerki sem við þekkjum heima eins og Lays. Bragðtegundirnar eru bara eitthvað svo skrítnar. Meðal þess sem ég man í svipinn er tómatsósubragð, mangó, kjúklingabragð. svínarif, súkkulaðibragð (jú við erum enn að tala um kartöfluflögur), wasabi og grillsteik, svo fátt eitt sé nefnt. Meðal ístegunda sem við höfum séð eru grænt te (mjög vinsælt), svört sesamfræ, engifer og sæt kartafla.
Það er sjoppa hérna rétt við blokkina og þar er heilmikið úrval ef maður er að leita að hænsnaklóm með ýmsum bragðefnum eða vakúmpökkuðum soðnum eggjum sem hafa legið mislengi í marineringu. Þau eru látin liggja í ediki, soju eða tei. Hansi er sá eini í fjölskyldunni sem hefur verið nógu hugrakkur til að smakka þessi svörtu egg. Hér fást líka óteljandi gerðir af þurrkuðu kjöti sem ég er aðeins farin að hætta mér í að prófa. Dýrast og fínast eru þurrkuðu andatungurnar sem ég hef reyndar ekki lagt í enn. Svo fann ég harðfisk um daginn sem mér fannst líta nokkuð vel út í pakkningunni. Hann reyndist hins vegar sykraður og bragðið var ... áhugavert. Gott við tókum páskaegg með að heiman - ég hef ekki rekist á eitt einasta. Þau mölbrotnuðu reyndar á leiðinni en bragðið hefur örugglega ekki skemmst.
Annars er ég búin að skrá mig á matreiðslunámskeið, bæði í tælenskri og kínverskri matargerð. Ég læri þá kannski á kryddin hérna fyrir rest.
Athugasemdir
Til hamingju. Ég veit þú tekur þetta með stæl. xxx mamma
Elínbjört (IP-tala skráð) 19.3.2008 kl. 11:13
Hæ. Vonandi verður ekki of heitt daginn sem þú ætlar að hlaupa. Við erum búin að kaupa uppþvottavél LOKSINS. Nú er gengið á uppleið svo það var gott að við vorum búin að kaupa farseðlana í tíma. Ég var að póstleggja tvö bréf til ykkar, er að kanna póstsamgöngur á milli Kína og Íslands. Bið að heilsa ykkur öllum og hlakka til að hitta ykkur í maí. Páskakveðjur úr Reynihvammi. Elínbjörg
Elínbjörg (IP-tala skráð) 19.3.2008 kl. 14:45
Hæ Hæ.
það er svo skrýtið að vita af ykkur þarna. En við lifum það af, verst að við getum ekki komið.
ding ding
Sólveig og fam
Sólveig (IP-tala skráð) 19.3.2008 kl. 22:56
Gaman að lesa fréttapistlana hjá ykkur öllum.
Gleðilega páska og gott að vita að þið eruð með rétt páskaegg
Gangi þér svo vel í hlaupinu Magga mín, þetta er náttúrulega bara bilun er það ekki
Knúsar úr Kópavoginum, Kristín P :o)
Kristín P (IP-tala skráð) 20.3.2008 kl. 16:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.