17.3.2008 | 14:49
Rými
Eitt af því sem við tökum sem gefnu heima á klakanum er að hafa nóg pláss. Hjá okkur eru um 2,8 landsmenn um hvern ferkílómetra. Kína er rúmlega 90 sinnum stærra en Ísland (þótt menn séu ekki á eitt sáttir um hvar landamærin liggja) en kínverjar eru 1.3 milljarðar. Ég orka ekki einu sinni að reikna hvað það gerir marga kínverja á hvern ferkílómetra. Heima þekkjum við konu sem heyrir illa (Ellý það ert ekki þú) sem einhverra hluta vegna talar alltaf mjög lágt. Og til þess að heyra svarið gegnur hún alveg upp að manni og inn í "rýmið" manns, þessa u.þ.b. 30 sentímetra sem aðrir en nánasta fjölskylda kemur ekki inni í. Og okkur finnst það svo óþægilegt! Hér eru þessir þrjátíu sentímetrar bara fimm ef þeir ná því. Í lestinni á háannatíma er t.d. bara troðið þangað til sérstakir verðir sjá að ástandið nálgast hættumörk og banna fleira fólki inngöngu. Ef maður ætlar út úr lestinni við þessar aðstæður verður maður líka bara að troðast, annars kemst maður aldrei út. (Lestin er því kjörin staður til að fá lús og ýmsa smitsjúkdóma en ég reyni að hugsa sem minnst um það). Heima verður maður móðgaður þegar maður er staddur á svokölluðum almenningi og aðrir troðast alveg ofan í manni (lesist sjást og heyrast). Maður verður fúll á tjaldstæði ef einhver tjaldar of nálægt eða fer í frísbí þar sem maður er að reyna að lesa. Hér er það bara ekki í boði. Fyrst þegar ég var að byrja að hlaupa í þessum garði mínum hafði ég agalegar áhyggjur af því að trufla fólk. Ég hleyp inn í heilu dans og kung fu hópana og stundum kem ég á þvílíkum spretti inn í einhvern lund og held að ég sé ein í heiminum, situr þá ekki bara einhver í lótusstellingu á miðjum stígnum. En það skrítna er að öllum er sama. Hér gera bara allir það sem þeir vilja og spá ekkert í hvað aðrir gera.
Þetta kemur klárlega í ljós þegar maður fer yfir götu. Við búum við heljarmikla umferðargötu sem heitir DinXi Lu. Sem betur fer erum við inni í porti þannig að umferðin er ekki beint við gluggana hjá okkur. Til að komast yfir þessa götu og t.d. á lestarstöðina þurfum við að fara yfir gatnamót sem eru alveg svakaleg. Málið er að þetta er einstefna (en hjólandi umferð fer þó í báðar áttir). Hér við blokkina eru gatnamót þar sem stór þvergata fer inn á þessa götu og endar þar. Einhvern veginn er það þannig að gangandi umferð á aldrei réttinn því það eru alltaf bílar frá annarri hvorri akgreininni sem eru að fara yfir. Þar að auki er þriðji hver bíll leigubíll og þeir stoppa yfirleitt ekki á rauðu. Hjólandi umferð fer heldur aldrei eftir götuljósum og ekki gangandi vegfarendur heldur. Þar að auki hjóla margir á móti umferð (sem ég skil nú bara ekki hvernig er hægt) og sumum hjólandi og vélhjólandi finnst alltaf betra að vera bara á gangstéttinni þannig að maður er ekki einu sinni öruggur þar. Þegar ég sá þessi gatnamót fyrst fannst mér þau algjört kaos og ég gat ekki ímyndað mér að ég kæmist lífs af. Svo uppgötvuðum við að maður verður bara að taka sér pláss. Þá gerist það undarlega að bílarnir sveigja bara í kringum mann. Þegar maður fer yfir á grænu (ég er nú ekki orðin svo sjóuð að ég fari yfir á rauðu) þarf maður að vaða straum af bílum og hjólum sem eru að koma úr þvergötunni og maður verður bara að vaða af stað og vera ákveðinn. Ef maður hikar fær maður ekki séns en ef maður er ákveðinn og stenur á sínu sveigja bílarnir bara lengra frá manni (akreinar eru mjög fljótandi fyrirbrigði hér) þar til allt í einu eru þeir farnir að keyra fyrir aftan mann. Og svona er þetta bara, maður verður bara að taka sitt pláss - annars tekur það einhver annar.
Athugasemdir
Hvernig er það, verða strákarnir farnir að tala Kínversku þegar við komum út? Ég fór inná heimasíðuna hjá hundagæslukonunni og sá að Loki var kominn með nýja kærustu, hann er greinilega mjög ánægður við alla þessa félaga sem hann leikur við.
Elínbjörg (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 18:23
Sæl Magga mín
Af okkur er allt gott að frétta. Ég er að verða nokkuð góð. Við pabbi fórum í bíltúr um suðurandið á sunnudaginn í ægifögru veðri. Skyggnið var síkt að þegar viðkomum að Selfossi virtist Mýrdalsjökull nær en Hekla. Allur fjallahringurinn drifhvítur og sólgyltur. Þetta var fyrsta útivist mín eftir spítalaleguna.
Ég fór með ömmu í Nettó í dag, hún er nokkuð hress, er farin að fara í göngutúr með Arndísi vinkonu sinni. Hún biður að heilsa og þakkar fyrir pistlana þína, hún les þá með mikilli ánægju. Frikki og Sóley eru kominn til Brasilíu og líst vel á sig. Það er best að hafa samband við þau á emailinu. Annað er svo dýrt fyrir þau.
Kisstu stákana þína fyrir mig. xxx mamma
Elínbjört (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 22:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.