16.3.2008 | 13:21
Gaman í Kína
Það er svoooo gaman hérna. Einhvern veginn er allt skemmtilegra en heima - en ég veit að það er bara af því að þetta er sparilíf sem við lifum hérna. Vantar bara Loka en við vitum að hann hefur það fínt í hundakofanum.
Virku dagarnir eru pakkaðir því strákarnir eru ekki að koma heim úr skólanum fyrr en hálf fimm. Þeir eru sóttir 25 mínútur yfir sjö á morgnanna þannig að þetta er langur vinnudagur hjá þeim. Jói er að fara um svipað leyti og á miðvikudögum er hann í skólanum til hálfníu á kvöldin en hina dagana er hann kominn fyrr heim. Við reynum samt að skeppa út á eitt til tvö kvöld í viku. Svo notum við helgarnar til að gera eitthvað skemmtilegt. Þessi helgi sem nú er að baki var alveg frábær og vel skipulögð hjá okkur. Í gær fórum við til Pudong sem er hinum megin við ána sem liggur í gegnum borgina og skoðuðum okkur um þar. Við fórum meðal annars upp í hæsta hús í Kína. Það er reyndar verið að byggja annað hærra við hliðina á því en það er ekki tilbúið svo það telst ekki með. Í morgun fórum við með nesti út í uppáhaldsgarðinn okkar og borðuðum morgunmat þar og virtum fyrir okkur alla kung fu iðkendurnar og fólkið sem ég þreytist aldrei á að skoða. Og það þreytist heldur aldrei á að skoða okkur. Elmar vekur mikla athygli með stóru augun sín og sitt ljósa hár sem fólk vil gjarna fá að koma við. Hann er farinn að venjast því núna en fannst það mjög óþægilegt fyrst. Fólk þreytist heldur aldrei á að minna okkur á hve óendanlega heppin við erum að eiga þessa tvo fínu stráka og þeir heppnir að eiga hvorn annan. Það er svo margt sem maður tekur sem gefnu en hér má fólk ekki eiga nema eitt barn og systkini því óvenjulegt fyrirbrigði. Og strákar sérlega dýrmætir.
Í vetur las ég grein í einhverju blaði um að einbirnin væru farin að valda vandræðum hér. Nú er að alast upp önnur kynslóð einbirna hér í Kína, þannig að þau eru ekki bara eina barn foreldra sinna heldur líka eina barnabarnið í báðar ættir. Samkvæmt fréttinni áttu þessi börn sem fengu svo mikla athygli að vera að springa úr frekju og vera óalandi og óferjandi eins og litlir einræðisherrar. Það er skemmst frá því að segja að ég hef ekki séð nein svoleiðis börn. Þau börn sem við sjáum eru hrein og snyrtileg, kurteis, glöð og kát. Þau virðast vissulega fá mikla athygli frá foreldrum sínum og öfum og ömmum en á það ekki að vera þannig? Það virðist alla vega ekki skemma þau.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.