Skólamál

Nú eru strákarnir búnir að vera eina viku í þessum ágæta skóla sínum. Þeir eru báðir ótrúlega ánægðir og finnst gaman. Báðir hafa eignast vini og gengur námið vel. Hansi ákvað að skipta um stærðfræði og er nú í tímum sem eru svipaðri því sem hann er að gera heima. Það þýddi að hann þurfti að breyta til á stundatöflunni þannig að stað þess að vera í kvikmyndafræði fór hann í skapandi skrif (creative writing). Elmar er líka mjög ánægður með aukatímana sína og kemur syngjandi glaður úr skólabílnum á hverjum degi.

Öll aðstaða í skólanum er frábær og þeir eru mjög ánægðir með kennarana sína. Allir kennararnir eru amerískir, nema kínverskukennararnir. Báðir strákarnir eru komnir á gott skrið í kínverskunáminu og oft snúast samræðurnar við kvöldmatarborðið um hljóðmyndanir í kínversku en þá er ég úti á þekju. Annars er mesta furða hvað maður fer fljótt að greina á milli ólíkra hljóða og pikka upp orð og orð, að ég tali ekki um tákn og tákn. Ég er farin að þekkja þónokkur einföld tákn þótt ég eigi að sjálfsögðu afskaplega langt í land með að geta lesið eitthvað að gagni.

Í bekknum hans Elmars eru aðeins 12 nemendur og umsjónarkennarinn hans, herra Dan, virðist frábær náungi sem talar við krakkana með virðingu og vingjarleika en þó ákveðinni festu. Í bekknum er einnig aðstoðarkennari en einn nemandinn á við fötlun að stríða. Kennslubækurnar eru allar frá sama útgefanda og allar svakalegir hlunkar. Mér var sagt að þessar bækur væru mjög algengar í Bandaríkjunum. Elmar kemur ekki heim með bækurnar nema hann eigi að nota þær við heimanámið en Hansi geymir þær heima og fer bara með þá hlunka sem þarf að nota þann daginn. Svona þykkar og miklar bækur myndu vart ganga heima þar sem krakkarnir eru í allt að sjö ólíkum fögum á hverjum degi en virkar mjög vel hér þar sem bara eru fjögur fög á dag og þar af eitt til tvö án kennslubókar, eins og leikfimi og tónlist. Þessar námsbækur eru alveg frábærar, fjölbreyttar og skemmtilegar, og tengja viðfangsefnin við lífið og tilveruna með skemmtilegum hætti. Sérstaklega finnst mér stærðfræðibækurnar framúrskarandi skemmtilegar og einmitt þar þarf virkilega að tengja efnið við lífið því krakkarnir skilja oft ekki til hvers þau eru að reikna. Hver kannast ekki við að hafa heyrt að algebra sé ekki notuð í neitt. Í þessum bókum eru rammagreinar um hvernig algebra er notuð í honum ýmsu starfsgreinum. Við tókum íslensku reikningsbókina hans með okkur út og höfum verið að bera þetta saman, aðallega til að sjá hvar hann er eiginlega stattur í reikningsfrumskóginum og efnistökin og útskýringar eru bara svo miklu betri í þessum bókum að himinn og haf skilur þær að. Íslenska bókin er að sjálfsögðu gefin út af námsgagnastofnun og er frá 1983. Hafa virkilega ekki orðið neinar framfarir í námsefnisgerð síðan þá?

Í starfi mínu hef ég komið að útgáfu nokkuð margra kennslubóka fyrir framhaldsskóla þar sem samkeppni ríkir á markaði, ólíkt því sem á við í grunnskólum. Sumar þessara bóka eru meðal þess sem ég er stoltust af að hafa komið nálægt, framúrskarandi skemmtilegar bækur sem tengja námsefnið við daglegt líf nemenda og mér finnst alveg standast samanburð við þessar amerísku bækur. Þær íslensku eru meira að segja fallegri. Það námsefni sem strákunum mínum stendur til boða í hinum íslenska grunnskóla er hins vegar oft á tíðum til háborinnar skammar. Þannig hafa þeir fengið heim með sér lestrarbækur með úreltum rithætti. Zetan er til að mynda enn á sínum stað í sumum þeirra. Hansi var í landafræði fyrir tveimur árum og lærði um Evrópu. Svo kom að prófi og þar sem hann átti að þekkja höfuðborgir allra Evrópuríkja, fána og geta fundið þau á korti, fann ég leiki á netinu sem hann gat æft sig í. Hann stóð sig aldrei nógu vel að mínu mati og var grunnsamlega lélegur í Austur-Evrópu. Ég fór að skoða bókina hans og hvað haldiði að ég hafi fundið. Sovétríkin! Finnst ykkur þetta boðlegt! Auðvitað hætti kennarinn bara að kenna á blaðsíðu 46 af 80 því að þar byrjaði umfjöllunin um Júgóslavíu. Krakkarnir fengu því enga kennslu í þeim löndum sem flestir innflytjendur til Íslands koma frá.

Um daginn var ég að spjalla við pabba bekkjarfélaga Elmars. Þeir feðgar eru frá Malasíu en hafa búið hér í þrjú ár. Hann spurði mig hvaðan ég væri. Frá Íslandi. Já, Íslandi, heitir höfuðborgin ekki Reykjavík? U, jú. Hvað ætli höfuðborgin í Malasíu heiti? Anyone? Anyone?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Manstu eftir "The language of business"  þegar það er verið að tala um alveg nýtt fyrirbæri sem hét tölva og að ólíklegt væri að hún færi inn á hvert heimili?

Ellý (IP-tala skráð) 14.3.2008 kl. 11:18

2 Smámynd: Margrét Tryggvadóttir

Já, og hin enskubókin sem við vorum með: Transistor radio, ja, það er eiginlega bara útvarp. Og gaol krakkar mínir, síðustu 45 árin hefur það verið skrifað jail! og svo var heill kafli um límmiða sem voru í nýjum bílum því það væri verið að "keyra þá inn" og mætti ekki keyra á meira en 45 km hraða fyrstu 1000 kílómetrana.

Margrét Tryggvadóttir, 14.3.2008 kl. 14:41

3 identicon

Sæl Magga mín, Svakalega er ég sammála þér um grunnskólanámsefni. Þó ég hafi ekki kennt lengi og því ekki fylgst vel með veit ég að það hefur viðgengist lengi að draga lappirnar í útgáfu námsefnis. Gaman að heyra hvað strákarnir eru ánægðir í skólanum, þessi tími á eftir að verða þeim ómetanlegur.

Af okkur er allt gott að frétta. Ellý, Gutti og krakkarnir borðuðu með okkur í gærkvöld, Nóatúnseldaða afmælisveislu. Frikki hafði borðað með pabba þínum um hádegið.

Ég er öll að koma til, er að mestu hitalaus en ferlega slöpp. Við slepptum Brasilíuferðinni, mér er bannað að fljúa í tvær vikur og ég held það sé bara gott. Annars hefði ég líklega af skyldurækni rekið sjálfa mig áfram og farið engum til gagns og sjálfri mér til skaða. Ég var svo lasin þegar ég fór til Moskvu að ég hefði bara átt að vera heima. Mér fannst ég ekki geta látið Soffíu fara þetta eina og harkaði því af mér. Nú sit ég hér og bít úr nálini með það.

Moskvuferðin heppnaðist ágætlega í sjálfu sér. Við skoðuðum sýninguna vel og hittum síðan mæðgininn sem reka hana. Elskulegt fólk , svona álíka seitaleg og við hér á klakanum. Sýninginn var svona millibil á milli handverkssýningar á Hrafnagili, yfirfulls gallerýs af Matthíasi og Kristni Mortens með fjölda af gallerý List listamanna þar á milli með örfáum undantekningum. Við Soffía gengum daginn eftir um götuslóða sem liggur meðfram stóra listasafninu þar sem alskyns listamenn hengja myndirnar sínar í smá bása. Við vorum sammála um að ekki væri ýkja langt bil þarna á milli. Hátindur ferðarinnar var kvöld í Boshoj ballettinum, algert æði. Bæði húsið sem er mjög falleg 19. aldar bygging og dansana sem voru rétt frábærir. Unaðslegt kvöld í alla staði. Kveðja til ykkar allra mamma

Elínbjört (IP-tala skráð) 14.3.2008 kl. 15:50

4 identicon

Magga mín.

Höfuðborgin í Malasíu heitir Kuala Lumpur.

Þetta þurfum við nú að vita. Kveðja pabbi. 

TPF (IP-tala skráð) 15.3.2008 kl. 00:34

5 Smámynd: Margrét Tryggvadóttir

Og heldurðu að það komi fram í einhverri íslenskri kennslubók fyrir grunnskóla?

Margrét Tryggvadóttir, 15.3.2008 kl. 01:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband