Zhongshan garðurinn

Kínverjar kunna svo sannarlega að búa til fallega almenningsgarða og það sem meira er, þeir kunna líka að nota þá. Hér er litið um garða við hús, hvorki þau gömlu né nýju. Við enda götunnar okkar er stór garður sem heitir Zhongshan og þangað fer ég í mitt morgunskokk. Garðurinn býður upp á 120 mismunandi svæði sem hvert og eitt hefur sína sérstöðu og er í breskum, kínverskum og japönskum stíl. Hann er eitt fjögurra "aðalgarða" hér í borginni.

Við heimsóttum garðinn fyrst um hádegisbil um helgi og þar var múgur og margmenni. Ég hélt að það væri bara svoleiðis um helgar en hef nú komist að því að garðurinn er alltaf troðfullur af fólki. Í morgun hljóp ég út í garð um leið og skólabíllinn hafði sótt strákana og var komin um 7:30. Þá þegar var fjölmenni í garðinum og fólk að njóta lífsins í góða veðrinu. Ég hleyp um garðinn þveran og endilangan og í ótal hringi því það liggja stígar um allt og landslagið í garðinum er afar fjölbreytt. Þarna eru stórar flatir, fjölmörg torg, babmíntonvellir, bekkir, lítil hof, nokkrir veitingastaðir, tjarnir, lækir, stór tré, blómstrandi runnar og plöntur af öllum stærðum og gerðum. Fyrir börn og aðra minna þroskaða menn eru tívolítæki og steinbekkir og borð fyrir aldraða majhong-iðkendur. Þarna kemur fólk til að vera eitt með sjálfum sér og hugleiða í fjölmörgum lundum garðsins eða hitta vini sína og taka þátt í ýmsum uppákomum. Um daginn hljóp ég framhjá kóræfingu og í dag tók ég eftir því að fólk fer með bænir við ákveðið tré og bugtar sig og beygir. 

Ég er nú eiginlega eini skokkarinn í þessum garði en sko alls ekki sú eina í morgunleikfimi. Fyrir utan alla þá sem fá sér göngutúr í Zhongshan eru fjölmargir að iðka kínverksa leikfimi, ýmist í stórum hópum, litlum hópum eða bara einir sér. Sumir hóparnir eru með búninga og fylgihluti, einkum dúska, reykelsi og löng sverð sem ég vona að séu ekki mjög beitt því fólk sveiflar þessu í allar áttir í margmenninu, reyndar mjög hægt. Fjölmarga danshópa hleypur maður (fram)á og eru þeir eins ólíkir og þeir eru margir. Sumir stunda kínverska dansa og dansa með slæður og blævængi, aðrir eru í eróbikki og svo eru það gömlu dansarnir svo eitthvað sé nefnt. Á stóru torgunum eru stærstu hóparnir og oft margir á hverju torgi og hver með sína tónlist. Svo er alltaf eitthvað um fólk sem gengur aftur á bak hérna. Það virðist vera alveg sérstök líkamsrækt en þá teygir fólk handleggina fram og snýr þeim í litla hringi á meðan það gengur aftur á bak á fullum kínverksum hraða (sem er reyndar ekki mjög hraður). 

Garðurinn er því félagsmiðstöð fólks á öllum aldri og með margvísleg áhugamál. Sumir sitja og prjóna, spila eða spjalla, aðrir leika sér með flugdreka eða í ýmsum hópleikjum og spilum sem ég veit ekki einu sinni hvað heita. Svo eru alltaf einhverjir sem eru að skrifa kínverska stafi með vatni á stéttirnar. Í nokkur skipti hef ég tekið eftir gömlum mönnum á gangi með lítil fuglabúr sem breitt er yfir. Ég hef álitið þá fuglasala því sumir eru með mjög mörg búr en töluvert er um að gæludýr séu seld í litlum búrum á götuhornum. Öll götusala er hins vegar bönnuð í garðinum þannig að ég var búin að velta því töluvert fyrir mér hvað mönnunum gengi til. Í dag hljóp ég hins vegar inn í rjóður þar sem búið var að hengja þessi litlu búr upp í trén og sungu fuglarnir hver í kapp við annan. Gömlu karlarnir sátu í hnapp, örugglega 15-20 í það heila og ræddu saman á meðan tugir fuglabúra hengu í trjánum. Fuglarnir voru misánægðir með þetta fyrirkomulag. Búrin eru mjög lítil og ég vona svo sannarlega að þeir séu í stærri búrum heima hjá sér en falleg voru þau og fuglarnir sömuleiðis. Búrin eru úr bambus og hver fugl er með vatns- og matarkrúsir út postulíni.

Já, það er margt skrítið og skemmtilegt í Kína. Í lokin eru hér myndbönd sem ég fann á You Tube sem sýna stemmninguna:

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband