7.3.2008 | 09:44
Klárir strákar
Við fórum í skólann í gær til að ræða við námsráðgjafann í High School með Hansa og fá stundatöflur fyrir þá og skólabúninga. Í ljós kom að báðir strákarnir náðu lesskilningsprófi í ensku fyrir sinn aldur sem mér finnst í raun alveg ótrúlegt, sérstaklega Elmar því hann er bara búin að vera í ensku tæpa tvo vetur. Hansi er auðvitað löngu farinn að lesa skáldsögur á ensku svo ég átti allt eins von á þessu með hann. Hansi fer því bara beint inn í 9. bekk í High School í fjölbrautakerfi og á ekki að þurfa neinn stuðning í enskunni samkvæmt þessu. Hann fer líka í jarðvísindi, sögu, leikfimi og stærðfræði sem eru líka skyldufög á þessari önn hjá þeim. Stærðfræðiprófið kom ekki eins vel út hjá honum, þau þarna í Ameríkunni virðast vera lengra komin í stærðfræði en hann skildi líka stundum ekki hvað hann átti að gera (sagði hann) svo kannski skrifast eitthvað á tungumálið. Þar sem hann var svona góður í enskunni fær hann að taka tvö fög sem venjulega eru ekki í boði fyrir aðra en þá sem hafa ensku að móðurmáli fyrst um sinn en það er kínverska og kvikmyndir sem er enskuáfangi. Eftir að hafa ráðfært okkur við kínverskukennarann var ákveðið að skella honum bara í bekk með krökkum sem byrjuðu í kínversku í haust. Hann fékk með sér námsefnið sem þau eru búin með og er búin að sitja sveittur með það og hlusta á kínverskukennslu á geisladiskum sem við eigum. Að lokum fer hann svo í tónlist en þar getur hann annað hvort fengið að vera í rokkhljómsveit eða halda áfram í gítarnum í einhverju samspili með píanói. Hann ætlar að sjá til. Í vetur er hann búin að vera að læra á rafmagnshljóðfæri í vali í Kópavogsskóla og það getur allt eins verið að hann haldi áfram með það.
Stundatöflurnar eru öðruvísi en við eigum að venjast. Hansi er í raun með tvenns konar daga. Hver dagur byrjar og endar í heimastofu á umræðum, tilkynningum og stundum leikjum hjá þeim báðum í korter. Svo skiptist dagskráin eftir því hvort dagurinn sé oddatala eða slétt. 1., 3., 5., o.s.frv. hvers mánaðar er því saga, enska, stærðfræði og kvikmyndir, en hina dagana kínverska, leikfimi, tónlist og jarðvísindi. Elmar fékk líka sína stundatöflu og hún er eins alla daga. Fyrst fer hann í ensku og svo kínversku. Eftir mat er svo stærðfræði, vísindi, breytilegur tími (eða skemmtilegu tímarnir eins og námsráðgjafinn sagði) og svo samfélagsfræði. Breytilegu tímarnir eru leikfimi (því miður bara einu sinni í viku sem Elmari finnst allt of lítið), myndmennt, leiklist, leirmótun og -rennsla og svo tónmennt.
Ég held bara að þá hlakki til þótt þeir vilji ekki viðurkenna það. Skólabíllinn sækir þá við hliðið hjá okkur kl. 7:15 á mánudaginn. Þeir verða að vera í alla vega einum hluta skólabúningsins í einu. Þeir fengu sitthvora peysuna og tvo pólóboli hvor og svo verða íþróttaföt líka en þau eru ekki komin.
Athugasemdir
Hansi verður kannski Kínverskur rokkari þegar hann kemur heim.
Bestu kveðjur og haldið áfram að skrifa það er svo gaman að fylgjast með.
Elínbjörg (IP-tala skráð) 7.3.2008 kl. 11:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.