6.3.2008 | 03:49
Þessi borg
Það er stórkostlegt að vera hérna. Mér finnst frábært að fara út á götu og anda að mér menguninni, hlusta á ótrúlegan hávaðann sem er alls staðar og virða fyrir mér allt þetta fólk. Þessi borg er eins og blanda af New York og Kaíró. Ímynd hennar er hið nútímalega Kína, endalausir skýjakljúfar, framfarir, tækni og alþjóðlegur hrærigrautur. Hér eru t.d. veitingahús frá 60 löndum og maður á að geta keypt all hér sem fæst einhvers staðar annars staðar (ja nema svitalyktareyði). Við höfum ekki enn komið á lestarstöð sem endar ekki í flottu molli og frá lestarstöðinni okkar er innangengt í minnst þrjú moll, þar af ellefu hæða skrímslið.
Alls staðar til hliðar glittir hins vegar í gamla Kína. Í götunum kringum verlsunarhallirnar eru hreysi þar sem venjulegt fólk býr eða vinnur, eða jafnvel hvort tveggja. Þarna eru hræódýrir veitingastaðir, skítugir skraddarar, skósmiðir, þvottakonur og jafnvel dekkjaverkstæði á u.þ.b. fjórum fermetrum. Venjulegu kínverjarnir versla ekki í fínum búðum eins og Carrefour þar sem allt fæst. Þeir fara á markaðina þar sem maður getur keypt kjöt- og fiskmetið lifandi, hvort sem það eru skjaldbökur, hænur, froskar, álar eða önnur kvikindi. Venjulegir kínverjar hafa ekki efni pítsum á 700 krónur íslenskar á Pizza Hut eða hvíttandi andlitskremum sem kosta vikulaun.
Þegar við komum hérna fyrst fannst okkur skrítið hve fáa krakka við sáum. Jú, við sáum töluvert af litlum börnum, ýmist vel til höfðum í vestrænum fötum eða skítuga krakka að staulast um í kringum litlu búðirnar og húsin, í rasslausum buxum. Stundum hef ég séð þau leika sér á gangstéttunum, nærri umferðinni að því er virðist eftirlitslaus en þau virðast kunna að passa sig. Svo pissa þau bara þar sem þau eru. Okkur fannst eðlilegt að sjá fáa krakka þar sem eldri börnin væru sjálfsagt í skólanum en við sáum reyndar nánast enga krakka heldur á kvöldin. Bara einn og einn. Svo kom helgi og jú, eitthvað fjölgaði börnunum en ekki mikið. Nú vitum við hvers vegna. Í þessari borg óðakapítalismans gleymdist alveg að gera ráð fyrir skólum. Kannski var það bara ekki hagkvæmt. Góðir skólar eru jú plássfrekir og þegar hægt er að byggja hallir fyrir útlensk stórfyrirtæki er það greinilega bara gert. Hér eru nokkrir alþjóðlegir skólar eins og strákarnir mínir fara í sem eru ótrúlega dýrir. Við erum t.d. að borga um 600 þúsund fyrir þá báða í þessa þrjá mánuði en það er reyndar með skólaakstri upp að dyrum, þremur máltíðum á dag, öllum námsbókum og skólabúningum. Kínverjar mega hins vegar ekki sækja þessa skóla. Hér eru líka kínverskir skólar og þeir innheimta líka skólagjöld þótt þau séu ekki nærri því eins há og alþjóðlegu skólarnir eru að rukka. Venjulegu kínverjarnir sem koma hingað til að vinna hafa ekki efni á að senda börnin (eða öllu heldur barnið því hver og einn má bara eiga eitt barn) í þessa skóla og því er það svo að fólk sendir krakkana aftur í þorpið til afa og ömmu og krakkarnir fara í skóla þar sem ekki eru eins dýrir.
Gjáin á milli þeirra sem geta tekið þátt í kaupæðinu og þeirra sem geta það ekki er því ekkert að minnka. Við prísum okkur sæla að vera réttu megin við gjánna en reynum þó að láta ekki glepjast og prófa hitt lífið líka. Það væri ótrúlega auðvelt að lifa hér í miklum lúxus og loka augunum fyrir aðstæðum fólks. Hér er hægt að lifa fullkomnlega vestænu lífi en við ákváðum að gera það ekki.
Í gærkvöldi brugðum við þó undir okkur betri fætinum og fórum á fótboltaleik á Shanghai Stadium sem mun hýsa fótboltann á ólympíuleikunum í sumar. Þar öttu kappi LA Galaxy með sjálfan David Beckham innanborðs og Hong Kong United. Beckham og félagar unnu 3-0. Við náðum fínum myndum af kappanum sem von bráðar má sjá á heimasíðunni hans Elmars.
Á þessum fótboltaleik fannst okkur við í fyrsta skipti ekki vera eina vestræna fólkið. Þarna var hlutfallið svona 50/50 eða því sem næst. Allt í kringum okkur voru aðrir vesturlandabúar með fullt af krökkum og mikið stuð í stúkunni. Í hálfleik tókst okkur svo að hitta íslendinga en þar voru starfsmenn Össurar á ferðinni.
P.s. þeir sem vilja fylgjast með ævintýrum Loka í sveitinni geta skoðað myndasíðuna hennar Stellu ofurhundapassara: http://www.hundakofinn.is/myndaalbum/index.php?cat=0&page=2
Ég sé ekki betur en að það sé mikið stuð hjá honum. Svo er Stella líka að hugsa um að kenna honum að rekja spor sem honum finnst örugglega bara gaman.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.