Daglega lífið

Nú er daglega lífið formlega hafið. Jói byrjaði í kínverskukennslunni í gærmorgun en hann verður alla morgna í kínversku í fjóra tíma á dag. Svo kom hann heim og æfði sig í skrift. Eitthvað sætt við það að sjá 38 ára gamlan skriftarnema en þetta er auðvitað engin venjuleg skrift. Strákarnir fara í uppröðunarpróf í ensku og stærðfræði í skólann sinn á morgun þannig að við ákváðum að hafa heimaskóla hér í blokkinni þangað til. Guði sé lof að þeir fara í skóla fljótlega! Við yrðum vitlaus á að vera hér saman, allan daginn, alla daga. Ég náði heilum átta stunda vinnudegi í gær en við tókum okkur hádegishlé og hittum Jóa hérna út í götu og fengum okkur að borða og gengum svo um franska hverfið. Við fórum á kínverskan stað í þetta skiptið og fengum ljómandi góðan mat en vitum ekkert hvað þetta var. Í núðlunum voru einhverjar tægjur með kjötbragði en þetta var örugglega ekki kjötvöðvi. Kannski var þetta eitthvað sojadæmi, kannski húð eða innyfli. Svo fengum við eftirrétti sem voru eins og ábrystingur sem flaut á ískrapi. Þetta var dísætt en ofan á þessu voru sykraðar baunir í öllum regnboganslitum sem brögðuðust eins og brjóstsykur með baunabragði og brún, hlaupkennd, ósæt sósa. Okkur fannst þetta nú ekki gott.

Það venst ágætlega að vera óupplýstur neytandi. Öll mín fullorðinsár hef ég lesið innihaldslýsingar allra matvæla sem ég hef keypt en hér eru bara ótal tákn sem ég hef ekki hugmynd um hvað þýða. Maður bara kaupir og vonar það besta. Annars hefur okkur yfirleitt fundist allur matur góður hérna og strákarnir smakka allt. Við kaupum yfirleitt þrjá til fjóra mismunandi rétti, svona til öryggis, ef einhver þeirra væri nú óætur. Hér borða menn líka hiklaust af sama diski og auðvitað reynum við bara að haga okkur eins. Réttirnir koma eftir því sem þeir eru tilbúnir, þannig að við fáum hvort sem er ekki réttina á sama tíma. Um daginn tókst Elmari að draga okkur á Pizza hut í sárabætur fyrir pítsurnar sem ekki fengust fyrsta daginn. Ákveðið var að strákarnir fengju ís í eftirrétt. En auðvitað tekur mun skemmri tíma að búa til ís en pítsu þannig að ísinn kom fyrst og þar sem hann geymist ekki mjög vel breyttist hann í forrétt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Magga... þú varst næstum því búin að ákveða að kenna strákunum bara heima!!! spáðu í því!   Þið mynduð drepa hvort annað! hahahah

Ellý (IP-tala skráð) 4.3.2008 kl. 08:41

2 Smámynd: Margrét Tryggvadóttir

Ég veit. Ég sé ógeðslega eftir þessum peningum sem fara í þennan skóla en hitt væri bara ávísun á geðveiki.

Margrét Tryggvadóttir, 5.3.2008 kl. 06:21

3 identicon

gaman að fylgjast með þarna hinu megin á hnettinum.

Elínbjörg (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 08:39

4 identicon

Hæhæ,

Loki biður að heilsa ykkur, hann er kátur og hress.

Hann var að enda við að hjálpa mér að ryksuga, honum finnst það mjög spennandi hehe

Það eru komnar einhverjar myndir af honum inn á síðuna hjá mér

 Guuuuðs bænum passið að éta ekki hunda hehehehehe

Kveðja frá Loka pokanum ykkar

Stella Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 10:31

5 Smámynd: Margrét Tryggvadóttir

Við ætlum okkur ekki að éta hunda, 7, 9, 13. Þeir eru dýrasta kjötið og við pössum okkur að panta ALDREI dýrasta kjötið ef ekki er þýðing á matseðlinum. Vonum að það dugi okkur.

Margrét Tryggvadóttir, 6.3.2008 kl. 03:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband