29.2.2008 | 10:42
Flutt!
Nú höfum við komið okkur fyrir í Görðum gullborgarinnar en svo nefnist blokkin okkar, enginn Engihjalli hér neitt.
Nýja heimilisfangið er því:
Golden City Garden
íbúð 901
no. 16, Lane 1310.
Ding Xi RD.
ChangNing District,
Shanghai.
Þetta er bleik blokk á þrjátíu hæðum og okkur líður bara ágætlega hérna. Gærdagurinn fór í flutninga og innkaup en við skelltum okkur með lestinni í IKEA. Strákarnir voru ótrúlega duglegir og þolinmóðir og Hansi keyrði kerrurnar meðan við skottuðumst um og sóttum okkur eitt stykki búslóð. Hér eru húsgögn en ekki sængur og allir eldhússkápar tómir. Við skrifuðum innkaupalista en þegar við vorum búin með aðra hæðina vorum við ekki búin að geta strokað út neitt nema handklæði en vorum samt með fullan vagn af einhverjum bráðnauðsynlegum óþarfa eins og kertum og skóhornum. Eftir fyrri hæðina var nauðsynlegt að gera matarhlé. Jói fór með strákana í einhverja röð og ég fékk það ómögulega verkefni að finna borð fyrir okkur. Ég ráfaði um með kerru, skimaði í allar áttir, beið við borð þar sem mér þótti líklegt að fólk myndi standa upp fljótlega en kínverjarnir eru ótrúlega duglegri að troða sér og ég varð undir í lífsbaráttunni. Að lokum pikkuðu eldri hjón í mig og arfleiddu mig að borðinu þeirra. Þar sat reyndar kona og prjónaði upp í sig spagettí bolognese en ég varð að þiggja þetta góða boð því ekki var boðið upp á standandi borðhald.
Í lok IKEA-túrsins mikla fóru alls konar menn að reyna við Hansa greyið. Hann var með kerruna og þetta voru "leigubílstjórar" sem vildu greinilega fá að keyra þetta innkaupasjúka ungmenni. Þótt Hansi sé bara 14 (ja reyndar 15 eftir nokkra daga) og hafi þar til nýlega verið frekar lítill miðað við aldur, þykir hann sérlega hávaxinn og fullorðinslegur í Kína. Hér keppast menn um að bera í hann áfenga drykki sem hann reyndar neitar. Ég sem er margbúin að banna honum að vaxa svona ógurlega.
Ekki tók betra við þegar út kom því þar voru leigubílstjórar með bæklinga á kínversku um flutningsþjónustu IKEA sem kostar greinilega 88 RMB eða rúmlega 800 krónur. Hún miðast auðvitað frekar við eldhúsinnréttingar og bókaskápa en ekki leigubílaakstur. Húsmóðirin á heimilinu tók þessa kappa nú bara í nefið og heimtaði að þeir keyrðu eftir mælunum sem sannarlega voru í bílunum og fékk að lokum sínu framgengt eftir að fjölskyldan hafði sett upp lítinn leikþátt þar sem við þrömmuðum öll að lestarstöðinni með nýju búslóðina í risasekkjum og litla barnið með óhreinatauskörfu um hálsinn.
Síðdegis fengu strákarnir Simpson´s þerapíu á meðan við hjónin þrömmuðum í Carrefour og keyptum annað eins þar, hreinsigræjur og matvörur. Við vorum alveg búin á því og ákváðum að taka leigubíl þennan stutta spöl til baka. Þar var hins vegar löng röð en við fórum að spjalla við þann sem var fremstur og deildum bíl með honum. Það var ítalskur kaupsýslumaður, eins og það heitir í gömlum bókum, sem kemur hérna reglulega og hefur gert í 15 ár. Hann langar mikið á Þjóðhátíð í Eyjum sem hann hafði lesið um og skyldi nú ekkert í því hvað ég var neikvæð en ég reyndi að benda manninum á að skynsamlegra væri að gera eitthvað annað, kæmi hann til Íslands á annað borð. Honum fannst líka alveg fáránlegt að Jói kæmi hingað til að kynna sér kínverska viðskiptalöggjöf, "What law, there is no law!"
Fyrsta máltíðin í nýju íbúðinni var hálfmisheppnuð því í ljós kom að við höfðum gleymt að kaupa potta. Við veltum hinum ýmsu kostum fyrir okkur í þeim málum í IKEA og skoðuðum alls konar pottasett en einhverra hluta vegna rataði ekkert þeirra í innkaupakörfuna. Sem betur fer höfðum við samt keypt pönnu þannig að ég steikti kjúklingaleggina sem við höfðum tínt sjálf í Carrefour. Þar var stór haugur af leggjum á ís og maður týnir bara í poka eins og um væri að ræða banana eða epli og fuglaflensa, salmonella og camphylobacter séu bara eitthvað sem kemur fyrir hina. Hér er hrísgrjónasuðutæki sem við notuðum í gær en mér tókst að ofsjóða grjónin í mauk. Elmar tilkynnti mér snyrtilega að þetta væri langversta máltíðin í Kína so far. Nú er bara að sjá hvort ég nái að toppa það í kvöld. Jói ætlaði að kaupa potta á leiðinni heim úr skólanum en kom heim með inniskó, nýjan kodda og hraðsuðuketil. Vonlaus þessi maður minn.
Ég fór með strákana í viðtal í skólann í morgun og svo ákváðum við að skella okkur í dýragarðinn sem Lonely Planet mælir sterklega með en hann er stutt frá skólanum þeirra. Í Shanghai eru fá græn svæði og er dýragarðurinn langstærsti garður borgarinnar. Og hann er ægifagur, þótt hann verði örugglega enn fegurri í vor þegar allt er í blóma. En við vorum eiginlega alveg miður okkar í þessari dýragarðsferð. Eins og sumir muna örugglega var Hansi dýrasjúkur þegar hann var lítill og lék sé aldrei með annað en plastdýr og ófá gæludýr hafa búið með okkur, mest þrjár tegundir. Við höfum heimsótt dýragarða á nánast öllum stöðum sem við ferðast til eftir að hann fæddist og þótt hann sé að verða 15 er hann alltaf til í góðan dýragarð. Hér var hins vegar greinilegt að ekki fór nógu vel um dýrin og sum þeirra voru illa hirt, í ljótum feldi og jafnvel með skallabletti. Kannski var þetta ekkert verra en í Evrópu fyrir 20 árum en okkur fannst agalegt að horfa upp á dýrin. Kínverjarnir voru líka með hróp og köll og klifruðu yfir girðingar til að geta fóðrað dýrin á snakki og poppi og öðrum óþverra. Þetta skapar reyndar þær sérstöku aðstæður að dýrin sækja í fólkið. Við náðum t.d. að skoða úlfa í ótrúlegu návígi því þeir voru greinilega að vonast eftir bita. Mörg dýrin hegðuðu sér afar undarlega. Þarna var t.d. einhver rauður úlfur sem hljóp veggja á milli í litlu herbergi eins og gullfiskur sem syndir um snargeðveikur í of lítilli skál. Sárast var að sjá risapöndurnar, fílana og hunda. Pöndurnar eru greinilega aðalaðdráttaraflið en þær voru inni í þröngu rými. Útisvæðið var ekki spennandi og kannski eru þær stundum þar. Þær voru svo skítugar og hnípnar að það var hræðilegt. Fílarnir voru líka inni og hlekkjaðir á fótum. Ein kýrin var með kálf og ráfaði um eins og keðjurnar leyfðu. Eitt dýrið tvísteig endalaust, fram og til baka og skarkaði í járni með rananum svo glumdi í öllu. Á einu svæði voru svo hundar í um 5 fm glerbúrum, einn til þrír í hverju búri, af ýmsum tegundum en engir þeirra fallegir og alls ekki tegundatýpískir þótt þeir væru þarna í forsvari fyrir ákveðnar hundategundir. Sumir hundarnir voru hræðilega horaðir og ekki bara mjóhundategundirnar. Þetta fannst okkur hræðilegt og söknuðum Loka enn meir. Elmar fór strax að reikna út kostnaðinn við að kaupa hundana, flytja þá til Íslands og koma þeim á góð heimili en hætti þegar hann sá að það kostaði álíka og húsið okkar. Sem betur fer beið okkar svo póstur frá Stellu hundapassara þegar heim var komið sem sannfærði okkur enn meir um að hún er sko rétta manneskjan í djobbið. Í slöngudeildinni voru hvítar mýs inni í búrunum sem biðu þess að vera étnar. Okkur fannst það líka agalegt. Ég er enginn kjáni og þótt ég hafi átt svona mýs, veit ég að slöngur þurfa sitt og mýs eru ekki verri matur en hvað annað en þarna voru líka hálfhárlausir ungar sem hefðu með réttu enn átt að vera á spena hjá mömmu sinni og lágu bara ósjálfbjarga og voru að þorna upp. Sumir voru örugglega þegar dauðir. Þetta er harður heimur.
Nú ætla ég að elda kvöldmatinn. Spurning hvort hægt sé að elda spagettí í grjónasuðupottinum?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.