27.2.2008 | 13:53
Nýtt heimilisfang
Þessi dagur var ekki eins kaldur. Í fyrsta lagi var hlýrra, sólin skein og ekki sást ský á himni. Engu að síður var himinninn grár af mengun og það sá maður betur en áður. Í öðru lagi vorum við betur klædd, eiginlega of vel klædd en það var allt í lagi, við vorum með bakpoka.
Fyrri hluti dags fór í túristaleik. VIð tókum lestina á torg fólksins og skoðuðum garð sem er þar nálægt. Þar var margt fólk sem hreyfði sig afar hægt og þóttist vera í leikfimi. Svo fórum við á listasafn Shanghai sem er í gömlu húsi með frægum klukkuturni sem eitt sinn gnæfði yfir svæðið. Nú sést hann varla innan um skýjakljúfana. Því næst gengum við að höfninni eftir göngugötunni Nanjing og virtum fyrir okkur skýjakljúfana hinum meginn við ána. Svo fórum við að skoða eina íbúðina aftur.
Íbúðin sem okkur langaði mest í var með fullri þjónustu og var í raun bara eins og hótel. Hún var hins vegar svakalega dýr og verðið hækkaði bara á meðan við vorum að hugsa okkur um. Í ljós kom að konan sem sýndi okkur íbúðina var með vitlaust verð og því miður, það var ekki hægt að hagga því. Við tókum því þá íbúð sem okkur leist næst best á og fengum á mun betra verði. Hún er alveg 130 fm, veit reyndar ekki hvort það er með herberginu sem er læst. VIð báðum nefnilega um tveggja eða þriggja herbergja íbúð. Þessi er þriggja herbergja og svo er ákveðið verð á það en svo læsa þeir einu herberginu og við fáum íbúina mun ódýrari! Da, hvað skiptir það þau máli hvort við notum þetta herbergi eða ekki. En alla vega, strákarnir verða saman í herbergi og við erum með þrjú tvíbreið rúm! Stofan er flennistór og svo er útskot út úr henni þar sem ég ætla að vera með vinnuaðstöðu. Þar er komið skrifborð og hillur. Þegar Elínbjörg og Bjarni heimsækja okkur í maí, geta þau fengið eitt tvíbreiða rúmið en strákarnir sofið á skrifstofunni.
Íbúðin er í Chaning hverfinu sem er ekki langt frá skóla strákanna. Það þykir frekar dýrt og þar sækir fjölskyldufólk í að búa, sérstaklega þar sem allir alþjóðlegu skólarnir eru í nágrenninu. Íbúðin er á 9. hæð sem hentar prýðilega fyrir æfingar mínar fyrir hálfmaraþonið sem er framundan. Á fyrstu hæðinni er svo lítill líkamsræktarsalur sem við notum kannski eitthvað. Þar er líka borðtennisborð sem Elmar er mjög spenntur fyrir. Öðrum meginn við húsið er franska hverfið, leyfar af hinni gömlu, útlensku, gjörspilltu Shanghai. Þar eru fremur lágreist, gömul hús í evrópskum stíl með litlum verlsunum og kaffihúsum. Mjög gaman að ganga þar um. Hinum megin við bygginguna er Zhongshan garðurinn sem er mjög skemmtilegur og margt um að vera í. Við hann er svaðalegustu lestarstöð og verslunarmiðstöð sem ég hef komið í. Þrjár lestarlínur eru þarna, þar af sú sem Jói þarf að taka til að komast í skólann. Verslunarmiðstöðin er á níu hæðum og þar ríkir greinilega eilíf þorláksmessa. Franska verslunarkeðjan Carrefour er með tvær hæðir og aðra þeirra bara undir mat. Við kíktum þar inn í raun bara til að sjá hvað hægt væri að kaupa af sængum og pottum og öðrum nauðsynum eða hvort við ættum að reyna að komast í IKEA (leið þrjú með lestinni) á morgun. Ég hef nú alveg farið inn í svakalegar matvörubúðir í Bandaríkjunum en þær voru bara skítur á priki miðað við þetta. Þarna syntu um lifandi fiskar í búrum og allar matvörur sem hægt var að ímynda sér voru fáanlegar. Þessi búð sérhæfir sig í vestrænum mat þannig að allir útlendingarnir fara og kaupa t.d. innfluttar mjólkurafurðir og þvíumlíkt en svo voru þeir með allan kínverksa matinn líka, t.d. svínsnef! Ég veit ekki alveg hvernig ég myndi matreiða það en það er alla vega hægt að kaupa það! Í einni búð niðri í bæ var líka hægt að kaupa vakúmpakkað svínsandlit!
Við tókum lestina heim á hótel og fórum þá sömu leið og Jói mun fara í skólann. Við byrjuðum á að labba út á lestarstöð sem er sambyggð þessu svaðalega molli. Þetta er í fyrsta skipti sem við tókum lestina á háannatíma. Okkur hefur samt aldrei tekist að fá sæti því hún hefur alltaf verið full. Núna var hún troðfull. Við þurftum að skipta um lest og labba töluverðan spotta á milli teina á torgi fólksins (people's square). Aldrei hef ég séð eins margt fólk á æfi minni og á þessari lestarstöð. Hugsið ykkur kringluna á þorláksmessu. Margfaldið með sex! Níu rúllustigar, auk venjulegra stiga voru upp úr stöðinni og ég held svei mér að það hafi verið tveir til þrír í hverri tröppu. Mannhafið er algjörlega súreallískt.
Dagurinn var alveg svakalega skemmtilegur og strákarnir sáttir og glaðir. Við sáum meira af borginni og fundum góðan stað til að vera á. Hvað þarf maður meira?
Athugasemdir
Gaman að lesa af ævintýrum ykkar og velkomin til Asíu! Við skulum senda ykkur hita og sól, hér er búið að hækka á öllum hitamælum. Bestu kveðjur og gangi ykkur vel.
Ágústa í Abu Dhabi (IP-tala skráð) 28.2.2008 kl. 07:19
Hæ, frábært að þið fenguð smá frí og að þið séuð strax komin með íbúð. Það var svaka stuð hérna á laugardaginn hjá tímon og loka. Var orðin sannfærð að þeir væru samkynhneigðir þar sem þeir gerðu ekki neitt annað allt kvöldið en að reyna hömpa hvort annan. En þegar við fórum á nebba daginn eftir þá voru þeir alveg óðir að eltast við sitthvora tíkina (ein var á lóðarí og hin nýhætt á lóðari!) á sitthvorum enda nebbans :)
Sóley (IP-tala skráð) 28.2.2008 kl. 19:11
Hae hae, gaman ad fylgjast med ykkur. Eg er nu bara i Götaborg, svaka stud, vinnan fin og loksins buin ad finna ibud, flyt i dag. Hafid tad gott i mannhafinu.
Hejsan
Sirry saenska (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 08:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.