Kaldur dagur

Jæja, nú er lífið að taka á sig skýrari mynd. Í gær fór Jói og skráði sig í skólann og við heimsóttum skóla strákana. Okkur leist nú bara ljómandi vel á hann (fyrir utan hvað hann kostar helv... mikið). Í ljós kom hins vegar að strákarnir komast ekki í stöðuprófi fyrr en í næstu viku. Þeir eru því fríir og frjálsir þangað til. Jói fór áðan og náði í stundatöfluna sína. Hann mun læra kínversku, um kínverska menningu, kínverskt viðskiptalíf og kínverska viðskiptalögfræði. Þetta eru alveg nýjar upplýsingar fyrir hann því hann hélt hann væri að fara í allt önnur fög og líkari því sem eru á Bifröst. Hann er samt mjög ánægður með þetta því hitt var allt eitthvað sem hann gat lært hvar sem er. Í ljós kom að kennslan hjá honum byrjar heldur ekki fyrr en í næstu viku en hann á að mæta á föstudaginn í einhverja seremóníu og myndatöku.

Í dag fórum við að skoða íbúðir og leist okkur auðvitað best á þær dýrustu. Allar íbúðirnar eru í Changnig hverfinu sem er frekar stutt frá skóla strákanna en þeir verða svo sóttir með skólabíl. Við viljum ekki að þeir þurfi að vera of lengi í skólabíl á hverjum degi en umferðin hérna er svakaleg og ansi seinlegt að komast leiðar sinnar akandi. Metróið er hins vegar mjög gott og maður er miklu fljótari á milli staða neðanjarðar, auk þess sem það er næstum ókeypis. Ferðin kostar 30 kall á mann en svo er víst hægt að kaupa einhver afsláttarkort líka. Ólíkt því sem á sér stað í neðanjarðarlestinni í London og annars staðar þar sem ég hef notað svoleiðis og menn bíða með að fara inn þar til allir eru farnir út sem ætla, riðjast menn út og inn í einu. Að sjálfsögðu veldur það stíflu í dyrunum og menn komast hvorki inn né út og svo lokast dyrnar bara allt í einu þótt enn séu ekki allir komnir inn og jafnvel á fólk!

Eitt það snúnasta við að pakka fyrir ferðina var að á meðan við verðum hér eru þrjár árstíðir. Núna er vetur og skítkalt. Í morgun var tveggja stiga hiti, nokkuð hvasst og mjög rakt en svo létti til síðdegis og hlýnaði aðeins. Við hefðum þurft úlpur og skíðalúffur en þess í stað tókum við bara með okkur jakka og flíspeysur. Spáð var 8 stiga hita í dag og sól en hún lét lítið sjá sig og við vorum að krókna úr kulda. Kínverjarnir hita ekkert nema íbúðirnar. Í móttökunni í andyrinu hérna niðri sitja starfsmennirnir í dúnúlpum og á ganginum er líka mjög kallt. Í verslunum og sumum veitingastöðum er líka skítakuldi. Eftir íbúðaröltið vorum við lengi að þiðna og það er enn hrollur í okkur.

Næstu daga ætlum við að notfæra okkur þetta óvænta frí hjá körlunum mínum öllum og skoða borgina með húfu, trefil og vettlinga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Á ég þá að senda húfur og vettlinga í næsta pósti.

Elínbjörg (IP-tala skráð) 26.2.2008 kl. 12:28

2 Smámynd: Margrét Tryggvadóttir

Nei, við erum með svoleiðis - klikkuðum bara á að nota það ... en takk samt.

Margrét Tryggvadóttir, 26.2.2008 kl. 23:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband