Á förum ...

Jæja, nú er ekki mikið meira eftir en að pakka. Við munum yfirgefa íbúðina okkar á morgun og vera síðustu nóttina á hóteli. Ætlunin var að gefa Rauða krossinum búslóðina og fundum við á heimasíðu samtakanna upplýsingar um hvar tekið væri á móti hlutum. Jói átti leið þar framhjá í gær. Það reyndist vera spítali rekinn af RK en þar kannaðist enginn neitt við að geta tekið á móti búslóðum. Við spurðum þá stelpuna í lobbíinu hvert væri hægt að fara með svona dót því við vildum gefa það og hún horfði nú bara á okkur eins og við værum galin að ætla að gefa dótið okkar! Hún hafði bara aldrei heyrt aðra eins vitleysu. Hér í Kína gefur fólk ekki dót, sérstaklega ekki ókunnugum. Aðal gjafahátíðin hér eru kinversku áramótin og þá gefur fólk peninga í rauðum umslögum.

Hér í miðríkinu er mikil samstaða innan fjölskyldunnar og á milli vina. Þar sem flestir kínverjar búa afskaplega þröngt og deila til að mynda salerni og eldunaraðstöðu með nágönnum sínum myndast oft afar náin tengsl á milli fólks og það er til siðs að fórna sér og gera nánast allt fyrir vini og fjölskyldumeðlimi. Xie xie (borið frá cé cé) þýðir takk á kínversku en það eru orð sem þú segir ekki við þína nánustu vegna þess að það á að vera svo sjálfsagt að vinir og fjölskylda hjálpi hverjum öðrum að þú átt ekki að minnast á þakkir. Ef þú þakkar vini ertu að móðga hann því þú ert að gefa til kynna að tengsl ykkar séu ekki náin. Ókunnugir eru hins vegar eitthvað fólk sem þér kemur ekki við og það þykir ekki sjálfsagt að rétta ókunnugum hjálparhönd. Ef það verður slys hópast fólk að til að fylgjast með (enda er hvorki dómalegt að glápa né benda hérna) en ekki til að hjálpa. Ef fólk er í vanda statt grunar mann stundum að vegfarendur hafi bara gaman af því.

Nú er enginn skortur á hörmungum í Miðríkinu, bæði flóð og jarðskjáftar ríða yfir. Í fyrsta sinn í sögu Alþýðulýðveldisins Kína er fréttaflutningur opinn og fólki er sagt frá því sem samborgarar þeirra eru að ganga i gegum. Hinar venjulegu fréttir af hænu sem verpti 170 g eggi, kínverska rakarann sem fékk að hlaupa með ólympíueldinn því hann klippti gamla fólkið svo vel og manninum sem er 2.2 m á hæð og fær hvergi á sig skó (hann er búinn að vera í sömu skónum sem mamma hans bjó til fyrir hann í 25 ár en hún lappar reglulega upp á þá) fá að víkja, alla vega um stundar sakir. Nú fá landsmenn að fylgjast með og fólk er beðið um að rétta fram hjálparhönd og gefa í safnanir. Kína er að breytast svo hratt að bara á þessum rúmu þremur mánuðum sem við höfum dvalið hér höfum við orðið vör við miklar breytingar.

Þegar við ákváðum að fara til Kína hafði ég svo sem engan sérstakan áhuga á landi og þjóð. Okkur langaði bara að breyta til og skoða heiminn. Eftir að hafa dvalið hér er ég hins vegar alveg heilluð af þessu skrítna landi. Það sem mér finnst merkilegast er ekki fornminjar eða náttúrufegurð heldur fólkið og hvernig þær miklu hræringar sem það hefur gengið í gegnum hefur mótað fólk. Úti í garðinum mínum sé ég oft gamlar konur sem hafa gengið í gegnum og lifað af stökkið mikla, hungursneiðina sem fylgdi í kjölfarið, menningarbyltinguna og ótal minni hræringar. Þær eru svo miklir töffarar þar sem þær sitja eins og kúrekar á garðbekkjum og njóta andartaksins. Það er eins og það bíti ekkert á þessar kellur. Tuttugasta öldin var alls staðar viðburðarík en þó sérstaklega hér í Kína. Kínverska þjóðin hefur verið og er enn í rússibanareið.

Hér er margt sem ég mun sakna. Mest eftirsjá finnst mér vera í mannlífinu hérna. Mér finnst dásamlegt að fara hér út á götu og það iðar allt af lífi. Ef mann langar í melónu eða jarðarber leitar maður ekki að búð heldur götusala. Ég mun sakna mannmergðarinnar og fjölbreytninnar í mannlífinu og hversu opinskátt fólk er. Það er erfitt að lýsa því en fólk reynir hreinlega ekki að lifa einkalífi hérna. Fólk lokar t.d. ekki endilega á eftir sér þegar það fer á almenningsklósett (ekki það að ég muni sakna þess sérstaklega að verða vitni að slíku) en þessi skortur á einkalífi gerir manni kleift að gægjast lengra inn í þjóðarsálina en ella. Þegar ég geng um shikuman-hverfin hér rétt hjá þar sem fólk býr í litlum kytrum, margar fjölskyldur í einu húsi og göturnar og húsasundin verða framlenging á heimilinu sér maður hvernig lífi fólk lifir í raun og veru. Ég mun líka sakna þess að geta ekki farið út á götu og valið úr tugum ef ekki hundruðum veitingastaða sem eru tilbúnir að fæða fjögurra manna fjölskyldu án þess að maður fari á hausinn.

En svo er annað sem ég verð fegin að vera laus við. Mengunin er þar í fyrsta sæti. Kol uppfylla 80% af orkuþörf kínverja enn þann dag í dag. Aðeins 4% þjóðarinnar á bíl en þar sem millistéttin stækkar óðfluga er bílaeign að verða stöðutákn og búist er við mikilli fjölgun bíla á næstu árum. Hvar þeir ætla að hafa þessa bíla er mér hulin ráðgáta. Ég myndi aldrei vilja eiga bíl í Shanghai. Leigubílar eru á hverju strái (ja nema í rigningu), lestarkerfið er frábært og ef ég væri hugrakkari gæti ég hjólað. Mengunin hér í Shanghai fer þó ekki eins mikið í mig og í Beijing þar sem ótrúlegt ryk svífur um í loftinu, bæði vegna sandstorma frá Mongólíu en ekki síður vegna sllra framkvæmdanna í borginni. Ég mun líka verða afar fegin að vera laus við Kenny G sem hljómar hér bókstaflega alls staðar, sérstaklega jóladiskurinn hans. Svo verður líka gott að geta gengið að hlutunum vísum. Hansi keypti sér t.d. heimildamynd um Bítlana um daginn. Í hylkinu voru vissulega tveir DVD diskar. Á öðrum var gítarkennsla en á hinum heimildarmynd um lestir. Ef pakkinn hefði kostað meira en 20 yuan hefði maður sennilega orðið reiður. Og svo er hitinn og rakinn að verða of mikill. Þegar við komum var kalt og einangrunin litil í blokkinni þannig að hitararnir gengu stöðugt. Í öllum verslunum og veitingastöðum var fólk kappklætt enda ekkert verið að hita rýmin að óþörfu.Í skóalnum hjá Jóa sátu nemendur í úlpum og með húfur og vetlinga. Nú er þessu öfugt farið. En lungann úr tímanum var hér dásamlegt veður og gott að vera.

Annað sem ég mun ekki sakna eru klósettin. Almenningsklósett eru yfirleitt holuklósett sem í sjálfu sér er ekki svo slæmt. Fæst þeirra eru hins vegar með vatnslás og því berst fnykurinn upp úr klóakinu út um allt. Í maraþoninu voru bara átta holur fyrir allar níuhundruð konurnar sem tóku þátt og alla kvenkynsáhorfendurnar. Alls staðar annars staðar væri það ávísun á gífurlegar raðir. En nei engar raðir mynduðust því fnykurinn var svo óbærilegur að fólk hljóp bara inn og út eins hratt og hægt var.

En hingað mun ég koma aftur, það er á hreinu.


Klístur og eldingar

Það var svoooo heitt í dag. Um helgina þegar við vorum í Xi´an var 36°hiti og glampandi sól en það var ekkert miðað daginn í dag. Hitinn fór reyndar ekki í nema 33°en rakinn hefur verið stigvaxandi síðan um helgina. Á sunnudaginn varð Bjarni fimmtugur og var ákveðið að fara í perluturninn og njóta sólarlagsins og borða góðan mat. Það sást ekki ský á himni en mistrið var þvílíkt að skyggnið var ekkert og birtan ótrúlega spúkí. Rakinn í borginni í dag var það mikill að ég fór í sturtu kl. 7 í morgun og í hádeginu var hárið á mér enn blautt. Maður verður ótrúlega klístraður við þessar aðstæður og skynjar að það er rétt sem maður hefur heyrt - sumrin hér eru óbærilega heit, blaut og rök. Við skruppum út í götu í kvöldmat og þegar við komum út aftur var farið að rigna og komið þrumuveður. Svakaleg elding reið yfir á meðan við hlupum heim og við töldum að hún væri í um 4 km fjarlægð en svo fylgdu aðrar í kjölfarið eftir að inn var komið sem virtust bara vera hér í húsasundinu enda fylgdi þruman strax á eftir.

Enn er himininn í ljósum logum. Svei mér, ég held að það sé best að við förum að koma okkur heim.


Hárgreiðsluherinn

Hér við húsið er hárgreiðslustofa mikil. Þar vinnur her manns (eins og reyndar í öllum fyrirtækjum í Kína) og þegar þau eru ekki að klippa standa þau í einkennisbúningum við dyrnar og taka á móti þeim sem inn koma. Það leið töluverður tími þar til við sáum einhvern fara inn í fyrsta sinn en við grínuðumst með það þetta væri eitthvað dularfullt því oft var fullt af fólki inni. Við ímynduðum okkur að hárgreiðslustofan væri leppur fyrir einhverja neðanjarðarstarfsemi eða starfsfólkið léki sér allan daginn að því að klippa hvort annað. Það vinna örugglega þrjátíu manns þarna þannig að það væri hægur leikur.

Svo kom að því að karlpeningurinn á heimilinu væri að verða of síðhærður. Um svipað leyti fylltist allt af blöðrum á hárgreiðslustofunni og allt í einu var komið skilti fyrir utan sem kynnti þjónustuna. Klipping kostaði 20 yuan eða 200 íslenskar krónur. Einn miðvikudagseftirmiðdag þegar Jói var í próflestri ákvað hann að taka sér pásu og skreppa í klippingu. Hann átti að fara í tíma um kvöldið og skila ritgerð næsta morgun og hafði því lítinn tíma. En hversu langan tíma getur ein klipping tekið?

Nú Jói fór en svo leið og beið. Strákarnir komu heim úr skólanum og ég fór að huga að kvöldmat, Jói var að verða of seinn í skólann. Við reyndum að hringja en hann svaraði ekki. Mér var hætt að lítast á blikuna. Tveimur tímum seinna kemur umræddur félagi Jói á harðaspani, alveg að verða of seinn í skólann. Hann hafði farið inn og afar elskuleg stúlka sem ekki talaði ensku hafði sýnt honum skilti og spurt hvort þetta væri ekki örugglega það sem hann vildi. Jú, jú, Jói hélt það nú. Honum var gert að fá sér sæti og umsvifalaust réðst herinn á hann, færði hann úr skóm og sokkum, skellti honum í fótabað, nuddaði fætur, axlir, bak og höfuð. Þá var hárið þvegið, bæði fyrir og eftir klippinuna og þegar ég hringdi stóð maður með flugbeittan hníf fyrir aftan hann og var að raka hann. Hann gat því alls ekki svarað. Jói hafði sem sagt óvart pantað afar tímafreka heildarmeðferð og kom þvílíkt hreinn og strokinn út úr því ævintýri. Ég er örugglega að gleyma að segja ykkur frá einhverju sem yfir hann reið. Pakkinn kostaði heil 180 yuan eða 1800 kall.

Mikill hárvöxtur er frekar óheppilegur fyrir Hansa því hárið á honum stríðir algjörlega gegn þyngdarlögmálinu. Um miðjan maí var hvorki meira né minna en Prom í skólanum hans og ekki gat hann farið of loðinn á það. Tilboðsskiltið var enn fyrir utan þótt blöðrurnar væru farnar að krumpast. Hann var þó sendur með 200 yuan til öryggis ef honum tækist ekki heldur að afþakka heildarpakkann. Hann fékk hárþvott bæði fyrir og eftir klippingu og greiðslu fyrir 20 yuan.

En nú var Elmar orðinn frekar loðinn líka en harðneitaði að fara í kínverska klippingu. Ég er búin að vera að væla í honum að fara en hann stóð fastur á sínu. Afa hans langaði hins vegar mikið að kanna lendur hárgreiðslustofunnar og honum tókst það ómögulega í gærkvöldi, að draga barnið í klippingu. Bjarna tókst að neita heildarpakkanum en ekki að biðja um einfalda klippingu. Þeir fengu því báðir tvöfaldan þvott, klippingu, höfuð og axlanudd og afar vandaðan eyrnaþvott. Þeir komu heim 45 mínútum síðar, 250 yuan fátækari og með óeðlilega hrein eyru sem stóðu út úr nýklipptum kollinum.

Þeir félagar vöktu mikla athygli á stofunni enda báðir ljóshærðir. Skiptist starfsfólkið á að þvo, nudda, klippa og greiða. Fimm starfsmenn tóku Elmar að sér og annar eins fjöldi sinnti Bjarna. Stelpurnar pískruðu og struku krakkanum um kollinn og ég er ekki frá því að hann sér snögghærðari fyrir vikið. Mig grunar að hann hafi verið klipptur af fleirum og meira en þörf var á svo allir fengju að prófa.

Nú er spurning hvort ég eigi að skella mér líka og sjá hvað gerist.


Xi´an, leirhermenn og Chinglish

Í gærkvöldi komum við heim eftir afar vel heppnaða ferð til Xi´an. Borgin á sér afskaplega langa og mikla sögu og var lengi vel höfuðborg Kína. Á fimmtudaginn röltum við um borgina, skoðuðum moskvu og múslimahverfi og fórum á skemmtilegan útimarkað. Á föstudaginn fórum við svo og skoðuðum leirhermennina. Jói bókaði bílstjóra og stóran bíl og bað um venjulega pakkann. Við komumst fljótlega að því að hinn venjulegi pakki væri fyrir ofurmenni því á þessum eina degi var okkur gert að skoða fáránlega marga staði og söfn og bílstjórinn sem skildi eiginlega enga ensku fór alltaf með okkur á nýjan og nýjan stað þar til um fimmleytið að við, orðin örmagna af skoðun, neituðum að yfirgefa bílinn og sögðum bara hótel, hótel. Hitinn var um 33°C og glampandi sól en við sáum margt áhugavert. Leirherinn var alveg stórkostlegur og ótrúlega flottur. Um kvöldið fórum við á ótrúlega fyndinn veitingastað sem hét Fusion buffet. Staðurinn var á annarri hæð við aðalgötuna í Xi´an en okkur leist nú ekkert á aðkomuna því veggfóðrið var allt flagnað og ótrúlegt drasl út um allt. Við ákváðum þó að kíkja upp og komumst að því að ruslið var vegna framkvæmda og uppi var næstum því snyrtilegt. Þjónustustúlkan sem tók á móti okkur bæði byrjaði og endaði allar setningar á Helllooo og sagði einnig hellooo oft inni í miðjum setningum. Við vorum einu vesturlandabúarnir á staðnum og vöktum mikla athygli. Alltaf gaman að vera stjarna.
Orðið "fusion" er hugtak sem notað er um matargerð þar sem kokkurinn leikur sér að því að blanda saman ólíkum stefnum í matargerð. Þarna virtist hugtakið þó aðallega eiga við skreytingarnar því annað eins samansafn hef ég aldrei séð. Við komum inn í flennistóran sal sem var fullur af fólki og mat. Drykkir voru innifaldir í verðinu sem var 48 yuan eða um 500 krónur. Margir virtust því nota tækifærið til að drekka ansi mikinn bjór því við sáum unga menn bera heilu kassana að bjór að borðinu sínu. Það er einmitt eitt sem er öðruvísi í Kína, fólk er svo opið í öllu svona. Heima myndi fólk passa að það sæist alls ekki hvað það væri búið að taka mikinn mat eða drykk en hér er aldrei hreinsað af borðum fyrr en í lok máltíðar og allir sjá hversu mikið hefur verið neytt og það er ekki feimnismál. Ég sá einn rogast með níu 640 ml bjórflöskur skælbrosandi. Ekkert að því. Maturinn var líka bara fyndinn. Þarna voru fjögur stór hlaðborð með öllu sem maður gæti ímyndað sér. Eitt var reyndar tileinkað "hot-pot" en það er næstum eins og fondue, bara soð í pottinum. Kínverjar eru nú reyndar mun hugmyndaríkari með pottana sína en svisslendingar. Þarna var t.d. hægt að fá lifandi krabba og ála til að skella í pottinn. Alltaf gott að fá ferskan mat. Við nenntum ekki í hot pot vesenið en yfirgáfum staðin södd, sæl og hlægjandi.
Í gær áttum við sérlega ánægjulegan dag í 36°C hita sem er það mesta sem við höfum upplifað hérna. Við byrjuðum daginn á að hjóla 14 km leið uppi á borgarmúrum gömlu Xi´an. Þaðan var frábært útsýni. Elínbjörg ætlaði ekki að treysta sér en svo var boðið upp á tvímenningshjól svo Bjarni hjólaði eins og herforingi með hana aftan á. Elmar skipti svo á hjóli við ömmu sína síðasta spölinn og fékk að vera aftan á hjá Bjarna. Seinniparturinn fór svo í bæjar- og safnarölt. Ólíkt Shanghai er greinilega ekki innbyggð sólvörn í loftinu í Xi´an þannig að við brunnum örlítið í gær.

"Chinglish" er skemmtilegt hugtak. Það er notað um skrítna ensku sem víða má finna í Kína. Reyndar hafa yfirvöld verið í útrýmingarherferð gegn chinglish í Beijing vegna ólympíuleikanna - allt á að vera fullkomið í alþýðulýðveldinu. Stjórnvöld hafa meira að segja verið að dunda sér við að búa til rigningu í Beijing svo borgin verði fallega græn í ágúst. Og það er hún. Grasflatir eru fagurgrænar, blómstrandi rósarunnar út um allt og gróðurinn gróskumikill. Munurinn er sérlega áberandi þegar komið er á stað eins og Xi´an þar sem hagsæld er ekki eins mikil og í Shanghai og Beijing. Shanghai og Hong Kong eru ríkustu og dýrustu borgir Kína. Hong Kong hef ég ekki heimsótt en hagsældin þar er að sjálfsögðu af öðrum toga en á meginlandi Kína. Í Shanghai er startgjald leigubíla 11 yuan eða 110 krónur og það fer ekki að hækka fyrr en eftir töluverðan tíma. Ég var að borga 17 yuan til að komast í leikfimi á morgnanna og fyrir 40 yuan komumst við borgina þvera og endilega. Í Beijing er startgjaldið 10 yuan en í Xi´an er það bara 6 yuan. Við keyrðum heillanga leið fyrir 7 og fimmtíu eða tæplega 80 krónur. Grasið er ekki eins grænt í Xi´an og á ríkari svæðum en þar blómstrar hins vegar hið dásamlega tungumál chinglish. Við sjáum reyndar alltaf eitt og eitt fyndið skilti hér í borginni en í Xi´an og smáborginni Jixian sem ég dvaldi í tvo daga fyrir hlaupið er meira um chinglish. Jixian er ekki ferðamannabær og því lítið um leiðbeiningar fyrir ferðamenn á ensku. Enska þykir hins vegar sérlega flott á stuttermaboli og verslunarheiti og oft er áletrunin gjörsamlega óskiljanleg en stundum bara einkennilega orðuð. Í Jixian sá ég verslun sem heitir Fat woman dress sem mér fannst ekki sérlega söluhvetjandi. Í Jixian talar nánast enginn ensku og það var eins og ég væri Angelina Jolie að ganga um götur borgarinnar, athyglin var þvílík, ekki síst þegar í ljós kom að ég gat gert mig skiljanlega á kínversku. Xi´an er hins vegar einn af helstu ferðamannastöðum Kína og flest skilti á ensku, auk kínversku og þvílík dásemd! Hér eru örfá dæmi:

Thehonouredprayerhii
og
Theretrdspectientower (Kínverjar nota ekki stafabil í kínversku, því hver stafur er eitt orð. Afhverjuþáaðspanderaorðabilumáþessaútlendinga.)

Se do not ente (ég held að þarna hafi átt að standa Do not Enter)

Keep your bags well, Take care of your china ware

Cantlon wet floor

Xinyuan Seafood and porridge city (merki á veitingastað)

Health toe club (veit ekkert hvað fór fram þar ...)

Love in all in (merking á spítala)

Toppurinn var tvö skylti við glænýtt safn Xi´an-borgar, höggin í granít:

Please not to tramble.
Small grass too Contain life

Take good care of flowers and trees.
Do the civilisation visitor

Hvað rekur fólk til að láta höggva þessa vitleysu í granít veit maður ekki. Margir kínverjar bæði tala og skrifa prýðilega ensku og sagt er að það séu fleiri enskumælandi hér í Kína en í Bandaríkjunum. Elmar hefur verið að leika sér að því að láta þýðingarvélar á netinu þýða setningar af ensku yfir á Kínversku og svo til baka og þá fáum við oft svipaða gleðigjafa. Málin eru svo ólík í uppbyggingu að þýðingarvélarnar prumpa út tómri vitleysu. Þegar ég var í bókmenntafræði tók ég kúrs í þýðingarfræðum þar sem m.a. var fjallað um takmarkanir vélrænna þýðinga. Þar heyrði ég söguna af því þegar í fyrsta sinn var opnuð þýðingarvél á milli kínversku og ensku með viðhöfn. Orðtækið Out of sight, out of mind var slegið inn og kínversku þýðingunni svo snúið aftur á ensku. Útkoman var Blind idiot.


Þjóðarsorg og bæjarrölt

Jæja, það er skemmst frá því að segja að hetjan lagðist hundslöpp í rúmið eftir hlaupið mikla. Á sunnudagsmorgunin þegar ég kom heim var ég eldhress en varð svo agalega þreytt eitthvað síðdegis og fór snemma að sofa og vaknaði með hita, beinverki og algjörlega lystarlaus á mánudagsmorgun. Ég druslaðist samt með erlenda vinnuaflinu og Jóa á fatamarkað því við höfðum verið að láta sauma á okkur og áttum að ná í heila klabbið í gær. Þau hin voru draugfín í þessu, mér skilst að þetta sé í fyrsta sinn sem Bjarni fær á sig skyrtu sem smellpassar og ekki voru Jói og Elínbjörg síðri. Ég nennti þessu nú ekki alveg vikunni áður þegar við vorum að panta en lét þó undan Jóa sem vildi endilega að ég fengi svona power suit til að fara í á fundi (ég er svo mikið á fundum, sko). Ég valdi agalega flott svart ullarefni en var einhvern veginn fremur hugmyndasnauð þegar kom að sniðum og svona, enda hef ég aldrei átt dragt áður og þetta ekki alveg minn tebolli. Ég fékk pils, jakka og buxur og þegar ég var komin í þetta leit ég alveg eins út eins og þjónn í erfidrykkju! God damn it! Ekki bætti úr skák að bæði pilsið og buxurnar voru allt of stór á mig, annað hvort hafa þau mælt vitlaust eða ég minnkað svona mikið við öll hlaupin. Svo bungaði þetta allt út að framan. Þau vildu því að ég kæmi aftur á morgun en ég harðneitaði því og þurfti því að bíða í einn og hálfan tíma. Það þurfti líka að laga aðeins það sem Elínbjörg hafði pantað sér svo biðin kom ekki að sök, við fórum bara og fengum okkur að borða - það er að segja þau, ég hafði ekki lyst á neinu og nartaði bara í vatnsmelónu. Þegar ég kom aftur voru fötin vissulega þrengri en bunguðu enn út að framan. Nú hef ég passað mig svakalega á að vera ekki dónaleg hér í Kína (alveg satt) en í hitakófinu hafði ég bara engan húmor fyrir þessu og sagði "I do not have a penus, lady". Hringt var í klæðskerann sem kom í hvelli og húðskammaði stelpugreyin fyrir heimskulegar mælingar. Hálftíma síðar var búið endursauma bæði buxur og pils og varð ég að viðurkenna að þetta var drulluflott. Ég á nú sennilega aldrei eftir að nota þetta allt í einu (enda afar óhentugt að vera í bæði pilsi og buxum) en jakkinn er nú bara flottur við gallabuxur og buxurnar askoti flottar og maður getur nú alltaf notað svart pils, ekki satt?

Verðin á þessu dóti eru alveg fáránlega lág - Jóhann er að kaupa sér jakkaföt úr kasmírull með auka buxum á sama og einn ómerkilegur jakki í H&M kostar!

Á meðan á dvölinni endalausu á fatamarkaðinum stóð hófst þjóðarsorg hér í Kína vegna hamfaranna í Chengdu. Í hátalarakerfinu tilkynnti kona það sem fram færi og svo hljómaði eitthvað suð í þrjár mínútur. Á meðan lutu allir höfði og lögðu niður störf. Hér er flaggað í hálfa stöng út um allan bæ og opinberum viðburðum frestað. Í dag átti til að mynda að hlaupa með ólympíueldinn hér í Shanghai en ekkert varð af því.

Annars er merkilegt að fylgjast með viðbrögðum Kínverja við þessum hamförum. Ég hef verið að vinna í bók um jarðskjálfta og eldgos heima á Íslandi sem helstu sérfræðingar landsins skrifa. Þegar ég var á förum skoruðu þeir ágætu menn á mig að finna myndir af skæðum jarðskjálfta sem varð hér 1976 og yfirvöld viðurkenndu ekki að hefði átt sér stað. Slíkar hamfarir gátu bara ekki átt sér stað í hinu fullkomna alþýðulýðveldi. Þeir höfðu hverki séð myndir af honum. Ég fann reyndar myndir eftir fremur stutta leit en nú eru viðbrögð stjórnvalda gjörólík þótt enn finni maður fyrir ritskoðun og varkárni við fréttaflutning. Fyrsta daginn var það eingögnu að frétta að stór skjálfti hefði riðið yfir og forsetinn væri á leiðinni á staðinn. Það var ekki fyrr en daginn eftir að við fórum að fá einhverjar "alvöru" fréttir úr blöðum og kínversku stöðinni. Síðan þá hefur tala látinna haldið áfram að rísa og svo virðist sem við séum að fá allan sannleikann um það. Sjónvarpið sýnir myndir af björgunarstörfunum alveg út í eitt og spilar kommúnísk þjóðernislög undir. Dagblöðin prenta sérblöð með myndum af skjálftasvæðunum og fórnarlömbum og skilst okkur að það sé í fyrsta skipti sem það er gert hér. Annað sem er nýtt er að hér fer fram gríðarleg fjársöfnun til styrktar fórnarlömbunum og er það í fyrsta skipti sem það er gert. Hingað til hefur Alþýðulýðveldið séð um sína en nú ríkir samhugur um að þetta komi öllum 1.3 milljörðum Kínverja við og allir eigi að leggja sitt að mörkum til hjálpar fórnarlömbunum.

Við lesum kínverksu blöðin hérna; Shanghai daily, China daily og Beijing daily (þegar við erum þar) reglulega, ekki til að fá fréttir, heldur meira að gamni okkar. Kínverska ríkispressan er snillingur í að segja fréttir af einhverju sem ekki skiptir neinu máli. Við fáum fréttir af því að einhver brú sé flutt, kirsuberjatrén séu í blóma, heimskir þjófar hafi reynt að ræna banka en hafi skilið skilríkin sín óvart eftir í bankanum og fleira í þeim dúr. Fréttir af ástandinu í Tíbet voru að sjálfsögðu afar hlutlægar og fjölluðu aðallega um skemmdarfíkn fárra manna (aha) og fréttir af mótmælum víða um heim þegar hlaupið var með ólympíueldinn snerust allar um að Frakkar væru vondir við fatlaða. Fyrst eftir skjálftan voru fréttir af því að stíflan mikla hefði skemmst en svo höfum við ekki heyrt neitt meira af því. Það minnir reyndar ansi mikið á það hvernig Bandaríkjamenn þögguðu niður árásina á Pentagon 11. september 2001 með því að hæpa upp árásina á Tvíburaturnana. Myndir af Pentagon í ljósum logum hafa varla sést síðan við sáum þær í beinni útsendingu.

Annars höfum við það bara ansi náðugt þessa dagana. Samkvæmt áætlun ætti Jói að vera í próflestri en skólinn er búinn hjá honum svo hann er bara að tjilla með mömmu sinni og Bjarna. Því miður hvíla á mér ýmis verkefni sem ég þarf að leysa af hendi en ég reyni að njóta lífsins eins og hægt er. Á fimmtudaginn ætlum við öll til Xi'an sem er ein af fyrrum höfuðborgum Kína. Þar í grenndinni er leirherinn makalausi sem okkur langar mikið að skoða. Við munum fljúga snemma á fimmtudagsmorguninn og koma heim á laugardagskvöldið. Elínbjörg og Bjarni fara svo heim á þriðjudaginn og við sjálf á laugardaginn eftir viku. Og ég sem á eftir að blogga um svo margt! Okkur langar bara ekkert heim. Ef hann Loki væri með okkur hérna myndum við sennilega bara ekkert koma. Hér er bara svo rosalega gaman og núna þegar við erum farin að geta talað við fólk og kunnum á þetta endalaust skrítna land verður bara skemmtilegra og skemmtilegra að vera hérna. Auk þess er veðrið dásamlegt. Ég veit samt alveg að sumrin hér eru óbærilega heit og auk þess rignir stöðugt í júlí og ágúst og það er frekar leiðinlegt að vera hér í rigningu. Þannig að sennilega munum við skila okkur heim ;-)

EN ég minni á að ég á afmæli í dag og tek við árnaðaróskum til miðnættis á GMT!


Komin í mark

Hæ, hæ,

ég ætlaði bara að láta vita af mér - ég er sem sagt komin heim aftur eftir ævintýralega og ótrúlega skemmtilega för, fyrst til Beijing og á múrinn, í litla sveitaborg og svo aftur á múrinn í gær þegar hlaupið fór fram. Ferðasagan verður að bíða en ... mér tókst að hlaupa þessa 21 kílómetra, fyrri helminginn í fjalllendi og á múrnum en seinni helminginn í nærliggjandi þorpum. Mér fannst þetta skítlétt ... alveg þar til tveir kílómetrar voru eftir. Þá varð ég allt í einu bensínlaus og með lungun full af sóti eftir hlaupin í þessum þorpum þar sem kolareykurinn sveif um loftið svo sveið í lungun. Ég kemst ekki inn á síðu hlaupsins þannig að ég sé ekki hvar ég var í röðinni en samkvæmt nýja fína gps tækinu kláraði ég á þremur tímum og sextán mínútum sem ég er bara sátt við. Ég er nú einu sinni dvergur! Almennt er miðað við að maður sé 50% lengur að hlaupa þetta hlaup en venjulegt maraþon vegna þess hve fyrri hluti leiðarinnar er seinfær. En ferðasagan kemur seinna - nú ætla ég í bað og svo ætlum við út að borða og túrhestast svolítið hér í Shanghai.


Hvar á ég að byrja ...?

Ég er farin að skilja syni mína sem fallast hendur þegar við erum að spyrja þá hvort þeir ætli ekki að fara að blogga. Mér líður eins og ég gæti setið við tölvuna og skrifað alveg þangað til við förum heim og samt ekki náð að koma nema brotiaf því sem mig langar að skrifa um að. Á hverum degi kemur eitthvað nýtt upp sem gaman væri að fjalla um. Stundum eru það smáatriði en smáatriði geta sagt svo mikið um heildarmyndina. Ég skrapp út áðan og þegar ég kom til baka voru tveir karlmenn á miðjum aldri hérna úti á plani. Annar stóð alveg upp við hinn fyrir aftan hann og hélt utan um hann. Það fór vel á með þeim og þeir voru að spjalla og horfa á mannlífið. Þeir voru mjög innilegir, hvor við annan. Á vesturlöndum myndu gagnkynhneigðir menn aldrei standa svona í faðmlögum en hér, þar sem samkynhneigð er álitin geðsjúkdómur, er þetta eingöngu vináttumerki. Vinkonur á öllum aldri leiðast mjög gjarna og vinir einnig og er ekki lögð nein önnur merking í það en vinahót. Snerting og blíðuhót karls og konu á almannafæri hafa hins vegar verið bönnuð og álitin ósiðleg en það er að breytast í stóru borgunum, sérstaklega Shanghai og Beijing. Hér sér maður kærusupör leiðast og stráka jafnvel halda utan um dömuna en ekkert meira. Engu að síður er Shanghai, San Fransisco Kína. Hér þrífst neðanjarðar samfélag homma og lesbía en dags daglega verður maður nú ekki var við það og hinn almenni borgari virðist jafnvel ekki vita af því. Jóhann og samnemendur hans lentu tvisvar í minniháttar umræðum um samkynhneigð við kennara sína. Í annað skiptið var það í kínversku tíma en þá voru þau að læra orðið maki. Yfir það eru tvö tákn, annað þýðir eiginkona, hitt eiginmaður. Hins vegar er bara eitt orð notað. Og auðvitað spurðu heimsku, ósvífnu vesturlandabúarnir hvernig maður vissi hvors kyns makinn væri? Kennslukonan skyldi nú ekki svona vitleysu og sagði að það væri nú lítið mál, t.d. ef hún segði orðið væri það AUÐVITAÐ eiginmaður! Jamm, það var ekki rætt frekar. Hitt skiptið var í tíma í kínverskri menningu. Einn samnemandinn spurði um hommakúltúrinn í Shanghai og fékk svar samkvæmt flokkslínum - það væru engir hommar í Kína! Það er nefnilega það.

Við höfum verið að fylgjast með fréttum af jarðskjálftanum sem varð í gær rétt hjá Chengdu. Þetta er ekki svo langt frá Chongqing, þar sem við vorum í síðustu viku og þar varð töluvert mannfall en þó ekkert á við það sem var nær upptökunum. Við þökkum fyrir að hafa ekki verið á siglingu þarna aðeins seinna. Svo skilst mér að stífan mikla hafi skemmst en litlar fréttir hafa borist af því. Í gærkvöldi vorum við að flakka á milli CNN Asia og CCTV9 sem er kínversk áróðursstöð á ensku. Þar var litlar fréttir að hafa þrátt fyrir að þulurinn segði aftur og aftur að jarðskjálftinn væri aðalfréttin. Svo sýndu þeir trekk í trekk viðtal við einhvern háttsettan mann í flugvél sem var á leið á staðinn. Hann sagði að kínverjar og kommúnistaflokkurinn myndi komast í gegnum þetta. Verður maður ekki bara að trúa því? Svo voru endalausar fréttir af loftfimleikamönnum að æfa fyrir opnunarhátíð ólympíuleikanna og af uppbyggingunni í Beijing. Í dag hafa hins vegar verið raunhæfari fréttir. Það tekur auðvitað sinn tíma að ritskoða. Núna er ég að horfa á beina útsendingu af blaðamannfundi með erlendum blaðamönnum sem spyrja kurteisislegra spurninga. Núna fyrst eru að berast einhverjar alvöru fréttir af þessu. Á CNN Asia að heyra er hins vegar eins og allt landið og landsmenn með hafi verið í stórhættu, æsifréttamennskan er slík. Það má nú fara milliveginn.

Annars er það helst af okkur að frétta að við erum komin með erlent vinnuafl í uppvaskið. Tengdaforeldrar mínir eru sem sagt komnir í heimsókn og ætla að vera til 27. maí. Þau ætla að vera mér samferða til Beijing núna á eftir en hlaupið mikla er um það bil að skella á. Ég mun svo halda áfram upp í sveit en þau ætla að skoða höfuðborgina og kínamúrinn á meðan. Hlaupið er á laugardaginn og svei mér þá ef ég er ekki bara tilbúin. Ellý sendi mér hælsærisplástra og svo fékk ég fyrirframafmælisgjöf frá Jóa og strákunum, græju til að nota á laugardaginn - Nimbus 2000! Nei, smá jók, Garmin Forerunner 305! Ef ég villist á kínamúrnum get ég stillt á go home og fylgt doppunum. Þá mun ég þó ekki koma í mark og fá medalíu eins og ég ætla mér en ég mun alla vega ekki týnast í óbyggðum Kína.


Ferðalag

Við fórum í þetta dásamlega ferðalag síðustu helgi, siglingu á Yangtze fljótinu sem er það þriðja lengsta í heimi. Í ágúst sigldum við á Níl á seglbát og syntum meira að segja í fljótinu líka þannig að nú er það bara Amazon sem er eftir. Elmar er reyndar sá eini sem á séns í að klára siglingu á þremur lengstu ám í heimi á einu ári því hann verður í Brasilíu í júlí. Reyndar held ég að hann verði upptekinn við annað en hann verður alla vega í réttu landi. Í þetta skiptið vorum við á litlu skemmtiferðaskipi. Ég hefði ekki boðið í að vera nær ánni því hún er drullupyttur af náttúrunnar hendi en einnig ótrúlega menguð.

Ferðin hófst fyrsta maí. Við ákváðum að taka maglev lestina út á flugvöll en það er svona segulsviðsofurlest sem fer á 500 kílómetra hraða. Magnað fyrirbrigði. Strákarnir voru svo spenntir að fara í lestina að þeir hugsuðu ekki um annað en þessar 7 mínútur sem lestarferðin tók. Allir í lestinni voru að taka hana upp á sportið, hún er mun dýrari en leigubíll. Fólk sat með myndavélina og tók mynd af skjánum sem sýndi hraðann. Það var súrrealísk tilfinning að sitja í þessu undratæki sem er hvorki meira né minna en hraðskreiðasta lest í heimi og horfa á akra þar sem bændur plægja enn með uxum þjóta hjá. Ég mun seint skilja forgangsröðunina hér í Miðríkinu.

Við flugum frá Pudong flugvelli til Chongqing en hann er aðallega ætlaður utanlandsflugi. Síðan við vorum þar í febrúar er búið að opna nýjan terminal með 250 hliðum. Shanghai-búar eru að búa sig undir traffík vegna ólympíuleikanna í ágúst og Expo sem verður haldin hér 2010. Auk þess hefur því verið spáð að Kína verði orðið mesta ferðamannaland heims 2020. En þennan tiltekna morgun var þessi risavaxna, glænýja bygging nánast tóm og sá allra rólegasti staður sem við höfum verið á síðan við komum til Kína. Engin læti og þægileg lyftutónlist á göngunum.

Chongqing er ótrúlega stórog skítug borg. Á svæðinu í heild búa 32 milljónir manna. Á hverju ári flytjur hálf milljón manna til borgarinnar eða úthverfanna og við keyrðum frá flugvellinum sem svarar frá miðbæ Reykjavíkur til Selfoss og alls staðar var verið að byggja risastór blokkarhverfi. Ólíkt öðrum stöðum í Kína notast menn ekki við reiðhjól í Chongqing því borgin er staðsett í fjalllendi og alls staðar eru brattar brekkur. Reyndar er verið að riðja niður heilu fjöllunum til að slétta landið. Flugvöllurinn er t.d. á einu slíku fyrrverandi fjalli.

Eftir að hafa skoðað borgina héldum við að skipinu Ms Fortune. Með í ferðinni voru tvær spænskar stelpur úr skólanum hans Jóa, kallarnir þeirra og fleira fólk sem þær þekktu. Þetta var skemmtilegur hópur sem náði vel saman. Skipið lagði svo af stað á föstudagsmorgunin og komum við í höfn í bænum Yichang um hádegi á sunnudeginum. Á hverjum degi var farið í eina skoðunarferð.

Yangtze-fljótið á upptök sín í Tíbet og rennur til sjávar við Shanghai. Svæðið við ána er svakalega þéttbýlt en einn af hverjum tólf jarðarbúum búa við ána. Áin var afar kröftug og straumhörð en nú hefur hún verið virkjuð með stærstu stíflu í heimi, "the Three Gorges" stíflunni. Við það hefur vatnsyfirborðið hækkað mikið og á raunar eftir að hækka um 20 metra í viðbót á næsta ári þegar síðasti áfangi stíflunnar verður tekinn í notkun. Fljótið var ólíkindatól og olli oft miklum mannskaða með flóðum sínum. Flóðin voru árleg og á um tíu ára fresti mátti búast við stórflóði sem olli miklum skaða. Síðustu 50 ár hafa 330.000 manns látist í þessum flóðum samkvæmt yfirvöldum í Kína (sem þýðir að talan gæti verið miklu hærri). En stíflan er líka virkjun sem framleiðir rafmagn og með henni ná kínverjar að auka rafframleiðslu sína um 10%. Stíflan jafngildir tíu kjarnorkuverum. Kínverjar nota enn mikið af kolum sem að sjálfsögðu menga mikið en einnig vatnsorku og kjarnorku. Áður en stíflan var tekin í notkun var rafframleiðsla landsins 150 wött á hvern landsmann. Til samanburðar þá var framleiðslan í Bandaríkjunum 3000 vött á hvern landsmann þar. Því var og er reyndar enn mikill skortur á raforku í landinu þótt sá skortur sé ekki sýnilegur hér í Shanghai sem er oft kölluð borg ljósanna. Stíflan er gífurleg framkvæmd og kostar ekki bara mikla peninga heldur líka miklar fórnir. Vatnsyfirborðið hækkar í það heila um 40 metra og mun áin flæða yfir 13 borgir, 140 bæi, 1352 þorp, 650 verksmiðjur og þrettán raforkuver. 45% kostnaðar við framkvæmdina fer í að færa íbúana og byggja nýjar borgir og bæi. Fyrsta skoðunarferðin okkar var til borgar sem heitir Fengdu. Sú borg er alveg horfin í vatn en hefur verið endurbyggði hinum megin við ána. Við fórum hins vegar og skoðuðum musteri sem staðsett var á fjalli fyrir ofan upprunalegu borgina. Síðasta daginn skoðuðum við svo stífluna sjálfa.

Siglingaleiðin er ægifögur og ég held bara að ég hafi aldrei verið á fegurri stað. Mest alla leiðina var mistur og skýjaslæður í fjöllunum sem gerði landslagið enn hrikalegra og mystískara. Við tókum fullt af myndum og er Jói búinn að setja hluta af þeim inn á síðuna sína: http://gallery.mac.com/johann.agust.hansen þar sem hægt er að skoða þær. Hver einasti fermetri sem stætt er á í kringum ána er notaður af mönnum en út úr þverhníptum klettunum vex svo villtur gróður og runnar. Svæðið í kringum ána er frábært ræktunarland og nýta bændur jörðina til hins ýtrasta. Þar sem of bratt er fyrir akra eru ferskju- og appelsínutré. Í hæðunum eru hrískrjónaakrar á stillum. Á veturnar er hins vegar ræktað grænmeti í hrísgrjónaökrunum. Þá eru hveitiplöntur í röðum og þegar það er farið að vaxa sá bændurnir maís í stígana. Á veturnar er líka ræktað grænmeti á kornökrunum. Þannig er hver einasti blettur gjörnýttur og sama svæði gefur af sér allt að þrjár mismunandi uppskerur á hverju ári. Þessi flóknar ræktun, almenn fátækt og gífurlegur brattinn gerir það hins vegar að verkum að landbúnaðurinn hefur ekki breyst mikið síðustu árþúsundin. Ég held við höfum ekki séð einn einasta traktor. Í Kína eru 700 milljón bændur og er það sérstaklega hrísgrjónaræktunin sem krefst mikillar handavinnu en plöntunar eru forræktaðar áður en þeim er plantað í vatnsósa hrísgrjónaakrana. Bændur fá mjög lítil laun en eru hins vegar nokkuð sjálfbærir og komast því af með minna. Engu að síður hafa margir í bændastéttinni ekki efni á að senda barnið sitt í skóla. Ef hjón eignast annað barna þarf fjölskyldan að glíma við háa sekt og dæmi eru um að ef það þriðja kemur í heiminn að heimili fólks sé jafnað við jörðu, öðrum til varnaðar.

Hann hékk þurr allan föstudaginn og rétt fyrir hádegi á laugardag voru við einmitt að ræða að við værum nú bara heppin með veður miðað við spána. Svo fórum við niður í matsal og þegar við litum út um gluggan sáum við að það var farið að hellirigna. Við vorum einmitt að fara í siglingu á minni bát inn hliðará og þaðan í litla árabáta enn lengra inn ótrúlega falleg gljúfur. Það rigndi eldi og brennisteini á meðan við vorum á stærri bátnum og þrumurnar voru hærri og lengri en ég hef nokkurn tímann heyrt. Til stóð að við færum í tveggja tíma siglingu á litlu árabátunum á svæði þar sem áður var afar grunnt en vegna þrumuveðursins fengum við bara rétt að prófa. Þess í stað vorum við flutt að einhverju samkomuhúsi þar sem boðið var upp á þá ömurlegustu sýningu sem ég hef séð. Hún var svo vond að hún varð hreinlega frábær! Fyrir það fyrsta var hátalarakerfið ónýtt. Kínverjar eru mikið gefnir fyrir hávaða þannig að eina ráðið við biluðu hljóðkerfi var að hækka bara allt í botn. Við sátum því og héldum fyrir eyrun. Vegna rigningarinnar var gólfið allt á floti. Sýningin samanstóð af nokkrum ótrúlega hallærislegum dönsum þar sem ástarsaga fiskimannanna var sögð á afar klisjukenndan hátt, manns sem spilaði á lúður í gegnum nefið og hnífajogglara. Þetta voru hálfléleg bítti við það sem átti eiginlega að vera hápunktur ferðarinnar en maður ræður ekki við veðrið svo við þessu var ekkert að gera. Um leið og við komum í borð í skipið aftur hætti samstundis að rigna og var frábært veður það sem eftir var.

Það var einkennileg tilfinning að sitja upp á dekki orðlaus yfir fegurðinni og hinni "ósnortnu" náttúru fjallanna en virða þess á milli fyrir sér nýbyggð blokkarhverfi sem koma í stað lítilla sveitaþorpa, reykspúandi verksmiðjur, bæi í hlíðinni og fólk á störum á ökrunum. Einhvern veginn passaði þetta þó allt saman og úr varð ekta kínverskur hrærigrautur. Samgöngur á landi eru erfiðar á svæðinu og því er áin aðal samgönguæðin.

Á laugardagskvöldið sátum við og spiluðum uppi á dekki og fylgdust með skipinu fara niður fjórar hæðir í skipastiga við stífluna. Það tók 3 og hálfan tíma og vorum við í rými með fleiri bátum og skipum. Einnig er skipalyfta við stífluna og svo verður önnur hraðvirkari fyrir minni báta en hún hefur ekk enn verið tekin í notkun.

Áður en stíflan var byggð voru miklar umræður um hana og var hún ein af fáum stórum málum sem ræða mátti opinberlega og takast á um í lok áttunda áratugnum og á fyrri hluta þess níunda. Það er hins vegar dæmigert fyrir Kína að um leið og búið var að taka ákvörðun um smíði hennar má ekki ræða hana meira og áróðursmaskínurnar fóru í gang. Margt mælti á móti gerð stíflunnar. Margar sérstakar dýrategundir lifa eða lifðu t.d. í fljótinu. Ein þeirra, blindur vatnahöfrungur sem er ein af aðeins fimm tegunum höfrunga sem lifa í vatni í heiminum og fannst aðeins í Yangtze-fljótinu þoldi ekki þessa röskun á lífríkinu og telst nú útdauð. Áður hefur verið minnst á mannvirki sem hafa farið undir vatn en á svæðinu eru einnig óteljandi menningarminjar sem eyðileggjast. Sumu á að reyna að bjarga með því að færa minjarnar en annað fer bara undir vatnið. Einnig var deilt um öryggi stíflunnar sjálfrar. Hún stendur á jarðskjálftasvæði og ég þori ekki einu sinni að hugsa hvað kynni að gerast ef öflugur skjálfti riði yfir. Þá hafa stíflur í Kína ekki þótt sérlega vel hannaðar eða vandaðar, 3.7% allra stífla í Kína hafa brostið síðan 1947 en aðeins 0.6 annars staðar í heiminum.

Það var áhrifamikið að hlusta á annars nokkuð leiðinlegan leiðsögumanninn sem sýndi okkur stífluna lýsa því fyrir okkur hvernig það var að horfa á heimabæ sinn hverfa undir vatn. Hann sagði okkur frá gömlu fólki sem neitaði að yfirgefa heimilin sín áður en þau voru jöfnuð við jörðu og var borið á brott, frá ömmu sinni sem var svo harmi slegin að hún lagðist í rúmið og dó og frá því hvernig honum leið þegar hann sá allt hverfa undir vatnið.


Fjör um helgar

Nú er helgin nýbúin og sú næsta innan seilingar. 1. maí er einn aðalhátíðisdagurinn í Kína og nú er fjögurra daga frí framundan. Þess vegna tóku þeir jólatréð - þeir skiptu því út fyrir 1. maí blómum. Hingað mun streyma ferðafólk frá öllu Kína. Við verðum hins vegar á siglingu á Yangtzi-fljótinu. Við munum fljúga til borgar sem heitir Chongquin og sigla niður eftir fljótinu sem ku vera alveg stórkostlegt. Veðurspáin er reyndar ekki alveg eins og við höfðum vonað. 1. maí á reyndar að vera glampandi sól og 28°C hiti en svo næstu daga á hitinn að fara yfir 30° og vera þrumuveður. Humm, við vonum að það gangi ekki eftir. En það verður gaman að sjá aðra hluta Kína. Chongouin er eiginlega í landinu miðju og þar er landslagið mjög frábrugðið sléttunum í kringum Shanghai. Flugið þangað tekur 2 og 1/2 tíma.

Síðustu helgi vorum við heima því Jói þurfti að læra og Elmari var boðið í þetta líka svaðalega afmæli. Við vorum lengi að finna út hvað hægt væri að gefa barni sem heldur upp á afmælið á 5 stjörnu hóteli en að lokum datt okkur eitt sniðugt í hug. Elmar keypti sér svona glerkúlu-lampa á vísindasafninu sem gefur frá sér eldingar (sko inni í glerinu) ef maður snertir glerið. Æ, þið vitið hvað ég er að tala um - það eru alltaf svona kúlur á vísindasöfnum og ótrúlega gaman að snerta þær og sjá "rafstraumana" sem leita í hendurnar. Við fórum því og keyptum svona kúlu handa stráksa.

Í afmælinu var mikið um dýrðir. Við Hansi fylgdum honum þangað. Okkur var umsvifalaust boðið rauðvín eða hvítvín, Hansi fékk sér bara kók. Hann hefur ekki undan að berja frá sér tilboð um áfengi og sígarettur. Foreldrar afmælisbarnsins vilu endilega að við værum í afmælinu en Hansi var ekki alveg að fíla þetta þannig að við létum okkur hverfa og fórum á söfn. Í afmælinu var boðið upp á hlaðborð sem var bara eitt það flottasta sem ég hef séð, þrír kokkar að skera kjötið og eftirréttirnir ekkert slor. Jói fór svo að ná í strákinn. Hann kom heim með heilan haldapoka af gjöfum og verðlaunum sem hann fékk. Nú er hann að reyna að sannfæra okkur um að gista síðustu nóttina okkar á þessu fína hóteli - helst síðasta mánuðinn svo hann geti "hámað í sig allan daginn" eins og hann orðaði það svo pent.

Síðustu vikur höfum við Jói verið að skoða listalífið í borginni, heimsótt vinnustofur listamanna og gallerí. Þau eru að miklum hluta við eina götu þar sem er alveg svakalega skemmtilegt samfélag í gömlu vöruhúsi og tengdum byggingum. Svo var hér stór kaupstefna, Shanghai Art, þar sem gallerí frá öllu Kína kynntu sig og listamennina sína en einnig gallerí frá Kóreu, Japan og fleiri löndum. Það er rosalega gaman að sjá hve margt er að gerast í listinni hérna - og svo fær maður auðvitað tækifæri til að skoða í þjóðarsálina, lesa í myndunum það sem ekki má segja með orðum. Síðasta laugardag fórum við svo á opnun á sýningum sem okkur var boðið á í Moganshan Lu. Þar reyndist vera verið að opna fleiri sýningar þannig að við vorum á stanslausum opnunum frá 3-5, gengum bara á milli. Þær sem okkur hafði verið boðið sérstaklega á voru haldnar af sama galleríinu en í tveimur sýningarsölum og var klukkutími á milli opnanna. Boðið var upp á drykki og svo voru nokkur atriði. Fyrst dönsuðu tvær stúlkur einhvern vasaklútadans, svo kom ein í geishu-búningi og var með agalega flott atriði og síðastur kom mikill galdrakarl klæddur í hefðbundinn óperugalla með grímu og skipti svo um grímu ótal sinnum. Það birtust minnst 15 mismunandi grímur á andlitinu á honum og að lokum yfirvaraskegg sem kom og fór lika. Við skiljum alls ekki hvernig hann fór að þessu en hann var ýmist, blár, grænn, eða rauður í framan og allt þar á milli. Á hinum opnununum var meira lagt upp úr veitingum og á einum stað var ótrúlega flott hlaðborð.

Nú eru gæludýrasalarnir farnir að selja bæði hænu- og andarunga sem þeir hafa alla saman í einni kássu í kassa á hjólinu sínu. Mig hefur nú alltaf langað í hænsni en ég skil samt ekki alveg hvernig fólk hugsar sér þetta. Fá krakkarnir að leika sér með lítinn unga og svo étur fólk hann þegar hann stækkar og fer að gala eða hvað? Annars náði nú gæludýrafárið hérna nýjum lægðum þegar við gengum fram á eina sem var að selja lyklakippur. Við lyklahringinn var plasthjarta með lituðu vatni í og nokkrum steinum á botninum. Þegar nánar var að gáð sáum við að í vatninu svamlaði lítill lifandi fiskur, einn í hverju hjarta. Hvernig er þetta hugsað? Á maður að klippa gat á hjartað og hleypa fiskinum út og leyfa honum að synda frjálsum - t.d. í vatnsglasi (sem væri auðvitað hundrað sinnum stærra pláss) eða áttu bara að setja lyklana þína á kippuna og biða fylgjast með fiskinum geyspa golunni. Það er alla vega ekki hægt að gefa honum að éta inni í lyklakippunni, svo mikið er víst! Virðingin fyrir lífi er lítil og kemur manni sífellt á óvart.

Nú er Jói í prófum. Hann fór í próf í lesinni kínversku á mánudag og fékk 6.5 og í skriflegri í dag og gekk víst hörmulega. Á morgun fer hann í samtalspróf og er búinn að loka sig inni í herbergi þar sem hann er með stífar æfingabúðir. Rétt í þessu var hann að tilkynna mér að hann gæti talað kínversku í 2 mínútur og 20 sekúntur. Geri aðrir betur!


Feik í steik

Eins og ég hef vikið að áður eru kínverjar ekkert sérlega áfjáðir í að fylgja höfundaréttarlögum. Við höfum alltaf lagt mikið upp úr því við strákana að við stelum ekki hugverkum. Við vinnum bæði störf sem snúa beint að afkomu og hagsmunum listamanna og rithöfunda og það er ekki í boði heima hjá okkur að heimsækja torrent-síður og downloada tónlist eða sjónvarpsefni á netinu.

En sinn er siður í hverju landi. Hér erum við með ótal sjónvarpsstöðvar, flestar kínverskar en einnig japanskar, tvær amerískar fréttastöðvar (sem eru reyndar ekki alltaf aðgengilegar sökum ritskoðunar) og tvær bíórásir sem sýna sömu myndirnar aftur og aftur þannig að hér er ekki mikið sjónvarpsefni í boði sem hentar okkur. Engar eru vídeóleigurnar og hvergi má sjá stórar geisladiska- og mynddiskabúðir eins og í Evrópu og Bandaríkjunum. Ekki er heldur hægt að kaupa hugbúnað í verslunum. Þess í stað eru menn á reiðhjólum með kerrur fullar af DVD-diskum á nánast hverju götuhorni, og stundu nokkrir saman, sem bjóða vinsælar bíómyndir og sjónvarpsþætti til sölu. Geisladiskurinn kostar 7 yuan eða um 70 krónur, alveg óháð því sem er á honum. Einnig er hægt að finna litlar geisladiskabúðir þar sem verðið er stundum örlítið hærra (fer upp í 12 yuan) en diskarnir hinsvegar í hylki (þeir eru bara í umslögum úti á götu en lagt mikið í prentun og hönnun). Í þessum búðum má oft líka finna tónlist. Þar er hins vegar um alveg sama feikið að ræða og á götuhornunum. Oft er gífurlega mikið lagt upp úr flottum umbúðum, kóverin eru spottlökkuð og bæði á kínversku og ensku. Reyndar er oft eins og þessi Arnþór Jónsson, pennavinur Björns Bjarnarsonar, hafi skrifað heitin á lögunum aftan á diskana því stafsetningin er ekki upp á það allra besta. Maður þarf aðeins að rýna í titla eins og "Well Lome to oparadlse", Backet case" og "In acittle wile" til að sjá að þarna á að standa Wellcome to Paradise, Basket case og In a little while.

Mig langaði í nýja hlaupatónlist og lagði því leið mína í eina búllu hérna í götunni í gær. Þar voru fjórir hressir og skemmtilegir strákar að aðstoða viðskiptavinina. Mér fannst þeir reyndar frekar afskiptasamir því þeir vildu endilega selja mér einhverja ástarþvælu sem er nú ekki alveg minn tebolli "It is very kosy, you now!" Töluvert var af góðri tónlist í búllunni og valdi ég mér disk með Amy Winehouse. Allir diskarnir sem fengust í búðinni innihéldu hins vegar tvo diska. Ég kannaðist ekki við að fröken Winehouse hefði gefið út fleiri en einn disk en hvað veit ég svo sem. Auk þess gat nú verið að kínverjarnir hefðu fundið einhverjar tónleikaupptökur og ákveðið að skella þeim með. Diskarnir eru í afar vönduðu og flottu tréhylki og á báðum er mynd af Amy Winewouse. Ég fer heim með diskana og á fyrri disknum syngur Amy Winehouse svo sannarlega eins og sá fallni erkiengill sem hún er. Svo skelli ég þeim síðari í og sé þá mér til undrunar að þetta er diskurinn All good things með Gwen Stefani! Fínt að fá hann!

Mér finnst þetta svo fyndið að ég gat ekki hamið mig og fór aftur í búðina til að skoða. Nú var Hansi kominn heim (Elmar er í íþróttaklúbbi í skólanum á föstudögum og kemur því seinna heim) þannig að hann kom með mér í þennan rannsóknaleiðangur. Við keyptum einn tvöfaldan U2 disk og gaman að segja frá því en á þeim var tónlist frá U2 og Green Day (sem er auðvitað frábær blanda) en einnig nokkur U2 lög í flutningi annarra og svo nokkur lög í viðbót sem eru ágæt en við kunnum ekki frekari deili á. Við keyptum einnig Green Day disk sem við eigum eftir að hlusta á en virðist álíka spennandi blanda. Sem sagt nóg af hlaupatónlist. Í búðinni var líka tvöfaldur diskur með Mika sem hefur, eins og Winehouse, bara gefið út einn disk en á honum var að því er virtist einhver gospel-tónlist.

Þessi markaður með feik vörur hefur verið til umfjöllunar í skólanum hjá Jóhanni. Kennarinn hans vill meina að nokkurs tvískilnings gæti hjá vesturlandabúum og það er örugglega hárrétt hjá honum. Erlendu nemendurnir eru harðir þegar þeir spyrja hvers vegna Kína láti þetta viðgangast en næsta spurning er iðulega hvar þessir markaðir eru svo fólk geti farið þangað og verslað. Hann fordæmdi götu DVD salana og sagði að fólk ætti bara að kaupa í litlu búðunum en þegar nemendurnir bentu honum á að diskarnir þar væru líka feik kom hann alveg af fjöllum. Hann hafði ekki hugmynd um það.

Refsingar í Kína virðast vera mjög harðar en hins vegar er frekar fáum refsað. Hér úti á götu eru umferðarreglurnar t.d. svoleiðis þverbrotnar af ÖLLUM að það er með ólíkindum. Um daginn horfðum við á tvo bíla keyra á móti umferð í götu þar sem er einstefana. Á gatnamótunum var lögreglubíll og hann gerði ekki nokkurn skapaðan hlut. Kínversk stjórnvöld setja hins vegar upp leikþætti öðru hvoru sem þeir kynna vel, Um daginn las ég í Shanghai Daily að tveir menn voru teknir fyrir að selja og falsa DVD diska og fengu fáránlega mikla refsingu. Bara hér í götunni á nokkur hundruð metra kafla eru hins vegar svona 10 aðrir sem sleppa. Refsingar virðast því fremur vera öðrum víti til varnaðar og sýndarmennska fyrir vesturlönd sem fordæma stuldinn.

En smá mont: Hér er fáránlega gott veður, 25 stiga hiti, gola og glampandi sól. Himininn kemur með instant sólvörn (lesist: mengun) svo maður tekur að vísu engan lit en það er æðislegt að vera úti og þangað ætla ég einmitt núna. Adios!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband